Vatn

Vatn er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar og ein af undirstöðum lífs á jörðinni. Salt vatn eða sjór er stærsti hluti þess vatns sem finnst á jörðinni (97,5%). Vatn er í stöðugri hringrás og kemur fyrir á þrennskonar formi: fljótandi, frosið eða gufa. Vatn flokkast ýmist sem yfirborðsvatn eða grunnvatn en allt er það þó að uppruna úrkoma sem fallið hefur til jarðar. Yfirborðsvatn myndar ár og vötn við margbreytilegar aðstæður og í jöklum er geymdur mikill vatnsforði. Yfirborðsvatn á mikinn þátt í að móta og mynda landslag með vatnsrofi í berg- og jarðgrunni, til dæmis árfarvegi, gil og skriður.

Yfirborðsvatn sígur niður í berggrunninn þar sem hann er gropinn eða sprunginn og neðan vissra marka eru allar holur og glufur bergsins fylltar vatni.  Þetta vatn nefnist grunnvatn og yfirborð þess grunnvatnsflötur.  Grunnvatn leitar hægum en jöfnum straumi undan bratta en rennslishraði ræðst af lekt og holrýmd berggrunnsins. Þar sem grunnvatnsflötur sker yfirborð finnast lindir eða uppsprettur. Á leið vatnsins neðanjarðar síast það í gegnum vatnsleiðandi jarðlög sem hreinsa vatnið en jafnframt bæta við það ýmsum efnum sem losna úr berginu. Vatnsleiðni jarðlaga, eða lekt, er mismunandi eftir aldri berggrunnsins. Hún er mest í gosbeltum landsins þar sem ungt berg og brotasprungur eru en minnkar eftir því sem berggrunnurinn er eldri. Grunnvatn getur borist djúpt niður í berggrunn. Ef vatnið kemst í tæri við heitt innskotsberg hitnar það, streymir upp á yfirborð og myndar jarðhitasvæði.

Neysluvatn á Íslandi er að mestu leyti fengið úr grunnvatni (96%). Íslenska vatnið er efnasnautt miðað við í öðrum löndum og tengist það gerð bergrunnsins sem er aðallega basalt. Sýrustig neysluvatnsins er basískt, á bilinu pH 6,5–9,5 og flokkast alþjóðlega sem mjúkt vatn vegna þess hversu lágt innihald er af kalsíum og magnesíum.

Alþjóðasamfélagið leggur áherslu á að það séu grundvallarmannréttindi og undirstaða velferðar að íbúum jarðar sé tryggt aðgengi að hreinu neysluvatni. Árið 2007 tók Ísland upp Vatnatilskipun Evrópusambandsins (pdf) frá árinu 2000 sem inniheldur reglur um vatnstöku, vatnsvernd og eftirlit. Í 1. gr. segir: „Vatn er ekki eins og hver önnur verslunarvara heldur arfleifð sem ber að vernda, standa vörð um og fara með sem slíka.”

Í íslenskum lögum og reglugerðum um vatnsvernd er skýrt kveðið á um að bannað sé að menga vatn. Umhverfisstofnun, ásamt heilbrigðisnefndum sveitarfélaga, annast eftirlit með vatnsverndarsvæðum. Veðurstofa Íslands sér um vatnafarsrannsóknir.