Myglusveppir

Myglusveppir eru hluti af umhverfi okkar og vaxa til dæmis í jarðvegi, á rotnandi jurtaleifum og ýmsu lífrænu eins og matarleifum. Þeir hafa það mikilvæga hlutverk að brjóta niður lífræn efni eins og fallin laufblöð og dauð tré og yfirleitt er einhver sveppur sem getur brotið niður flest það sem til er. Myglusveppir eru því mikilvægur þáttur í hringrás náttúrunnar.

Fínlegir sveppþræðir myglusveppa eru oftast inni í því sem þeir vaxa á og sjást því ekki nema þegar þeir eru margir og þétt saman. Þá er talað um myglu, ló eða vef á einhverju. Þegar kemur að því að mynda gró fær myglan oft á sig lit grómassans og áferð sem ræðst af gerð gróbera og eðli gróa. Þannig verða sumar myglur mélugar og þurrar meðan aðrar verða þéttsetnar slímkenndum dropum.

Myglusveppir framleiða margir hverjir mjög mikið af gróum og ýmsir þeirra framleiða efni sem geta haft áhrif á líkamsstarfsemi manna og annarra hryggdýra sem komast í snertingu við þau. Þetta geta líka verið lofttegundir sem gufa upp úr sveppunum, sumar illa lyktandi eins og fúkkalykt á meðan lykt annarra minnir á blómailm. Sum efni sem mygla framleiðir geta valdið ofnæmisviðbrögðum (ofnæmisvaka), önnur eru ertandi og nokkrir sveppir geta framleitt sveppaeiturefni (mycotoxins), efni sem geta í mjög litlu magni valdið eitrunum eða verið krabbameinsvaldandi.

Mygla innanhúss

Reikna má með því að í útilofti sé töluvert af sveppagróum nema þegar jörð er hulin snjó. Gró í útilofti og í eðlilegu innilofti eru blanda gróa margra og mismunandi tegunda sveppa en aðeins hluti þeirra getur þó vaxið upp innanhúss. Mörg eru þau háð tilteknum búsvæðum, til dæmis gró sníkjusveppa sem geta bara vaxið á lifandi laufi á hýsilplöntum sínum. Hins vegar eru aðrar tegundir, til dæmis af ættkvíslinni Cladosporium, sem vaxa utandyra á dauðum plöntuleifum en geta lifað góðu lífi á ýmsum stöðum innandyra sé raki til staðar. Sömu sögu er að segja af mörgum tegundum jarðvegssveppa en gró þeirra geta borist inn í hús neðan á skótaui og með moldroki.

Til að myglusveppir verði ekki til vandræða innanhúss þarf að gæta þess að hús séu þurr og vel loftræst því gróin þurfa raka til að geta spírað.

Ólíkir myglusveppir eftir búsvæðum

Þegar mygla sprettur upp innanhúss þá eru það oftast fleiri en ein tegund sveppa sem vex upp á hverjum stað þannig að úr verður mósaík af tveimur, þremur eða jafnvel fleiri tegundum. Oftast eru þó ein til tvær tegundir ríkjandi. Vankynssveppir eru oftast mest áberandi en innan um þá eru asksveppir sem mynda askhirslur sínar og í þeim kynjuð askgró. Búsvæðið, það er byggingarefnið sem sveppurinn vex á hverju sinni, ræður töluverðu um tegundasamsetningu sveppanna sem á því vex.

Neðan á línóleumgólfdúk sem hefur haldist rakur má búast við því að finna fruggur, það er tegundir af ættkvíslinni Aspergillus. Á spónaplötum sem hafa blotnað má búast við að sjá kúlustrýnebbu, Chaetomium globosum. Hvoru tveggja, á dúknum og spónaplötunni, vaxa síðan ýmsir smáeskingar og þá ýmist á kynjuðu stigi (litlar, svartar og hnöttóttar askhirslur sem innihalda rauðgulan massa af askgróum) eða sem vankyns stig (með drapplitar upp í rauðbrúnar grókeðjur Scopulariopsis ættkvíslarinnar).

Þar sem raki hefur þést í hornum uppi við loft herbergja eða niðri undir gólfi, þar sem kuldabrýr eru, er það oftast einhver tegund af ættkvíslinni Cladosporium sem er ríkjandi og er það dökkmosagræn-brúna sem sést sem blettir eða samfelldar breiður á máluðum veggjum. Innan um þessa dökku myglu vex svo stundum ljós og fínleg mygla af ættkvíslinni Acremonium. Í mjög vel þroskuðum tilfellum vex Ulocladium tegund með í blöndunni.

Í gluggum þar sem raki þéttist á gleri og heldur þéttiefni og viði rökum löngum stundum á vetrum, vex oftast blanda af tegundum Cladosporium, Exophiala (líklega oftast Exophiala heteromorpha), gersveppum, Phoma og Ulocladium. Meðfram baðkarsbrúnum og sturtubotnum eru það gersveppir og tegundir af Exophiala ættkvíslinni (sem kallast svartir gersveppir sem hópur) sem mest ber á, enda sérlega bleytusæknir af sveppum að vera.

Ef gifsplötur blotna rækilega má búast við því að á þeim vaxi upp svartmygla, Stachybotrys chartarum, einkum á pappanum en stundum líka í gifsinu sjálfu. Gifspappi myglar oft og á honum vex tegund af ættkvíslinni Ulocladium og stundum einnig Aspergillus tegundir og fíngerð, ljós mygla af ættkvíslinni Acremonium.

Óþolinmóðir húsbyggjendur hafa stöku sinnum lagt plastdúk yfir nýlega steypt og múruð gólf sem ekki hafa náð að þorna almennilega og síðan lagt parketundirlag og parket ofan á plastdúkinn. Með þessu ætluðu menn að komast hjá því að parketið blotnaði og yndist. Rakinn í gólfinu endar því neðan á plastdúknum og skapar fyrirtaks skilyrði fyrir ýmsar rakasæknar örverur sem vaxa neðan á plastinu. Þar vaxa bakteríur sem líkjast að vissu leyti sveppum því þær eru til að byrja með þráðlaga en skiptast síðan upp í stutta búta. Taldar vera geislabakteríur (actinomycetes). Innan um bakteríurnar er svo oft fínlegur vöxtur ljósra sveppa sem ekki hefur tekist að greina.

Á þakviðum er oftast um að ræða tegund af ættkvíslinni Cladosporium sem vex aðallega sem raðir og klumpar af nokkuð hnöttóttum sveppfrumum en sjaldnar sem venjulegir sveppþræðir og gróberar. Venjulega er þannig fremur lítið af hefðbundnum gróum tegundarinnar en þegar gróberar myndast þá eru þeir oftar en ekki stuttur angi með hin dæmigerðu örlítið upphleyptu ör, sem stendur út úr hnöttóttri sveppfrumu. Oft fjölgar gersveppum mikið í æðum viðarins í rakanum við yfirborð og eru því gersveppsfrumur gjarnan í sýnum af mygluðum þakviði.

Þegar þakviður hefur verið blautur lengi og bleytan nokkuð mikil breytist tegundasamsetningin og dökkir, háir, sterklegir gróberar Sterigmatobotrys macrocarpa verða áberandi. Á þakviði og reyndar ýmsum viðarafurðum vaxa upp stór, glansandi, biksvört og næstum hnöttótt gró Monodictys putredinis. Stundum vex upp Hyalorhinocladiella tegund, ljós og fínlegur sveppur sem ber gró sín allt í kring um enda grómyndandi frumunnar sem þá svipar til flöskubursta. Stöku sinnum vaxa upp rauðbrún svepptögl Doratomyces tegundar.

Þegar þakviður hefur verið blautur lengi byrjar hann að fúna og þá vaxa í honum kólfsveppir sem valda fúa. Þeir sjást ekki alltaf en viðurinn mýkist og styrkur hans eyðist og í viðnum sjást sprungur, bæði langsum og þversum. Oft eru sveppaldin fúasveppa mélkenndar, ljósar skánir en stundum verða til þéttir hnúðar einnig ljósir á litinn. Í mjög fúnum þakviði sést stundum holsveppur, sveppur sem framleiðir vankyns gró sín innan í blómavasalaga, biksvartri og glansandi gróhirslu. Þennan svepp hefur ekki tekist að greina.

Á Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri er tekið á móti myglusveppasýnum til greiningar fyrir almenning, sjá á síðunni Sveppagreiningar.

Umhverfisstofnun hefur gefið út bæklinginn Inniloft, raki og mygla í híbýlum: Leiðbeiningar fyrir almenning þar sem fjallað er um hvernig best sé að viðhalda og bæta heilnæmi innilofts og hvernig bregðast skuli við verði inniloftið óheilnæmt. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fjallar ítarlega um rakaskemmdir og myglu.

  • Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO). Air quality - um loftgæði 
  • Centers for Disease Control and Prevention (CDC). Mold after a disaster - Varúðarráðstafanir og hugsanleg áhrif á heilsu manna í kjölfar fellibylja
  • Statens Byggeforskningsintitut. Fugt og skimmel - Innanhússloftslag - raki og myglusveppir.
  • United States Environmental Protection Agency. Mold and moisture - Gott yfirlit yfir raka og varnir við sveppagróðri innanhúss. Hægt er að nálgast ókeypist vefbækur um efnið á vefnum.