Steindir

Steindir (e. mineral) eru skilgreindar sem náttúrulegt, einsleitt, fast efni með ákveðna efnasamsetningu og skipulega röðun frumeinda, yfirleitt myndað í ólífrænum ferlum. Meira en 4.000 tegundir steinda eru þekktar í heiminum. Á Íslandi hafa fundist rúmlega 300 tegundir.

Steindir má flokka á ýmsa vegu. Þannig má skipta steindum í frumsteindir og síðsteindir. Frumsteindir myndast við storknun bergkviku þegar bergið verður til. Ólivín, plagíóklas og ágít eru dæmi um algengar frumsteindir. Síðsteindir myndast við ummyndun bergsins. Dæmi um slíkt eru seólítar sem falla út í holum og sprungum í berginu þegar heitt vatn leikur um það.

Í steindafræðinni eru steindir flokkaðar eftir kristalbyggingu og efnasamsetningu. Á Náttúrufræðistofnun Íslands er stuðst við flokkunarkerfi Nickel-Strunz. Þar er steindum skipað í 10 flokka sem síðan er skipt í deildir, undirdeildir og hópa eftir kristalbyggingu og samsetningu. Sumum hópum er skipað saman í fjölskyldur. Sumar steindir má síðan flokka í mismunandi afbrigði. Steindir sem finnast saman í bergi, myndaðar við sömu aðstæður og í jafnvægi hver við aðra, eru sagðar vera í sama steindafylki.