Ágengar dýrategundir

Vegna einangrunar Íslands er fjallrefurinn (Vulpes lagopus) eina landspendýrið hingað komið af sjálfsdáðum. Aðrar tegundir hefur maðurinn flutt til landsins ýmist fyrir slysni eða viljandi. Sumar hafa aðlagast vel og eru almennt viðurkenndar sem fullgildir þegnar landsins, til dæmis hagamýs (Apodemus sylvaticus) og hreindýr (Rangifer tarandus,) þó ekki séu allar almennt vel þokkaðar. Eitt þessara spendýra hefur verið skilgreint sem ágeng tegund á Íslandi, það er minkur (Mustela vison) sem fluttur var til landsins til loðdýraræktar. Hann slapp fljótlega úr búrum, var fljótur að aðlagast íslenskri náttúru og hefur náð mikilli útbreiðslu á landinu. Hann hefur sett mark sitt á fuglalíf og valdið breytingum á varpháttum fugla.

Smádýr hafa borist til landsins með mönnum frá upphafi landnáms. Ljóst er að fjölmargar tegundir smádýra sem nú teljast fullgildir þegnar í íslenskri náttúru séu þannig til komnar. Í seinni tíð hefur innflutningur smádýra aukist verulega með sífellt auknum innflutningi varnings hvaðanæva úr heiminum. Fæst þessara smádýra hafa fest sig í sessi en með hlýnun loftslags vænkast hagur sumra og gluggi opnast til aukins landnáms. Þessa hefur orðið vart í auknum mæli á seinni árum og fjölmargar tegundir hafa náð hér fótfestu. Flestar þeirra hafa aðsetur í umhverfi sem við menn höfum mótað í byggð, í görðum og raskaðri náttúru. Þar bíða þær þess að aðstæður breytist enn frekar áður en stökkið verður tekið út í náttúruna. Sumar þessara tegunda eru skaðvaldar í umhverfinu sem við höfum reist um okkur.

Þrjár tegundir smádýra sem borist hafa til landsins með mönnum hafa verið skilgreindar sem ágengar. Ágeng tegund er sú sem hefur áhrif á aðrar tegundir í viðtekinni náttúru. Spánarsnigill (Arion vulgaris) hefur borist með innfluttum plöntum. Það má um það deila hvort hann skuli teljast ágeng tegund en hann hefur þá stöðu í löndum Norður-Evrópu. Hann er enn sem komið er það fágætur hér á landi að hann verðskuldar ef til vill ekki þessa vafasömu stöðu. Hins vegar er hann mættur til leiks og talinn hafa burði til að verða til vansa er fram líða stundir. Ekki er vitað hvort spánarsnigill muni hafa teljandi áhrif á önnur smádýr þó honum fjölgi, en hann gæti öllu heldur orðið skaðvaldur á gróðri, einkum í ræktun. Því er nauðsynlegt að vera á varðbergi. Óvíst er hvort spánarsnigill muni í náinni framtíð verða til vansa í náttúrulegu umhverfi. Líklegra er að hann verði meira eða minna bundinn byggð.

Búrsnigill (Physella heterostropha) hefur verið innfluttur til að hafa í skrautfiskabúrum. Hann hefur borist í vötn þar sem tæmt hefur verið úr fiskabúrum. Þar kann hann að lenda í samkeppni við aðra náttúrulega vatnasnigla.

Húshumla (Bombus lucorum) barst til landsins með vöruflutningum á áttunda áratug síðustu aldar og náði fljótt tryggri búsetu bæði í byggð og náttúru. Samtímis tók móhumlu (Bombus jonellus) að hraka. Hún var til skamms tíma eina humlutegundin sem ríkti í náttúru landsins. Húshumlan er stærri og frekari til blómanna, sem sjá humlunum fyrir næringunni. Fleiri humlutegundir hafa sest hér að á síðustu árum en þær hafa ekki sótt út í náttúruna og ólíklegt er að svo verði.

Aðgerðir

Útilokað er að koma í veg fyrir innflutning smádýra með varningi. Hins vegar þyrfti að setja strangari reglur varðandi innflutning á gróðurvörum, einkum jarðvegi og pottaplöntum. Gróðurmold þyrfti að fá sérstaka meðhöndlun áður en hún fer í dreifingu. Æskilegt væri að draga úr eða hætta innflutningi á plöntum með rót í jarðvegi og finna vænlegri leiðir til að koma til móts við ræktendur. Jarðvegur er vistkerfi með ótal lífverum af ýmsum toga, svo sem gerlum, sveppum, mosum, stundum fræjum eða kímplöntum af öðrum háplöntum, svo og hryggleysingjum ýmiskonar. Ljóst er að meirihluti þessara fylgifiska verða ekki til vandræða, en innan um eru varasamari lífverur eins og dæmi sýna. Margir nýir skaðvaldar hafa borist til landsins á undanförnum áratugum. Fyrst og fremst er um að ræða skaðvalda í görðum og mannlegu umhverfi enn sem komið er, en hlýnandi loftslag kann að gera það að verkum að breyting verði á þegar fram líða stundir. Því má líta á garða sem tímasprengjur, ekki síst ræktaða garða við sumarbústaði.

Til að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra tegunda er starfandi samstarfsverkefni þjóða í Norður-Evrópu (NOBANIS) sem Náttúrufræðistofnun Íslands tekur þátt í fyrir Íslands hönd en við upplýsingaöflun er leitað til fjölmargra sérfræðinga bæði innan stofnunar og utan. Tilgangur verkefnisins er að þróa og búa til net gagnagrunna með upplýsingum um framandi tegundir í Norður-Evrópu og gera þær aðgengilegar á vefnum. Þar má meðal annars finna upplýsingar um fjölda ágengra eða mögulegra ágengra tegunda á Íslandi.

Samstarfshópur með fulltrúum Matvælastofnunar, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum, Náttúrufræðistofnunar, Umhverfisstofnunar og Hafrannsóknarstofnunar hefur gefið út Áætlun um viðbrögð þegar framandi villt dýr finnst en þar er átt við hryggdýr af tegund sem ekki er hluti af villta íslenska dýrastofninum, en gildir þó ekki um hvali og fugla.

Ágengar plöntur.