Berggrunnur

Berggrunnur er fast berg við eða á yfirborði jarðar, oft hulinn lausum jarðlögum, það er jarðgrunni. Berggrunnur er gjarnan kallaður klöpp. Á jarðfræðikorti af Íslandi er berggrunnur flokkaður eftir berggerð og aldri. Gerður er greinarmunur á gosbergi og djúpbergi (innskotsbergi), sem og á súru bergi (til dæmis líparít og dasít) og basísku og ísúru bergi (til dæmis basalt og þóleiít).

Gosberg er flokkað eftir aldri. Berg frá nútíma (< 11 þúsund ára) skiptist í berg frá sögulegum tíma (yngra en 871 e.kr.) og berg frá forsögulegum tíma (eldra en 871 e.kr.). Berg frá síðari hluta ísaldar skiptist í móberg (myndað í jökli) og hraunlög (grágrýti myndað á hlýskeiðum). Eldra gosbergi (blágrýti) er skipt í berg frá síð-plíósen og fyrri hluta ísaldar (0,8–3,3 milljón ára) og gosberg frá míósen og fyrri hluta plíósen (3,3–16 milljón ára).