Mosar

Á Íslandi eru þekktar rúmlega 600 tegundir af mosum. Meginhluti þeirra er af tveim ólíkum fylkingum, baukmosum og soppmosum, en þriðji flokkurinn, hornmosar, er afar sjaldgæfur.

  • Baukmosar eru gerðir úr stöngli og blöðum og eru blöðin oftast með miðrifi. Af baukmosum hafa 460 tegundir fundist á Íslandi.
  • Soppmosar eru ýmist gerðir úr þali eða úr stöngli og blöðum en blöðin eru alltaf án miðrifs. Af soppmosum hafa fundist 139 tegundir á Íslandi.
  • Hornmosar eru gerðir úr óreglulegu sepóttu eða kvíslgreindu þali sem er án allrar vefjaskiptingar. Á neðra borði myndast varafrumur og undir þeim smáhol sem oftast eru fyllt af bláþörungum. Einungis ein tegund af hornmosum hefur fundist á Íslandi, hverahnýfill sem er bundin jarðhita.

Mosar eiga það sameiginlegt að þarfnast vatns til kynæxlunar, gróliður (sá hluti plöntunnar sem framleiðir gró) er alltaf ógreindur og þá skortir æðstrengi líkt og byrkningar og æðplöntur hafa. Mosafylkingarnar þrjár eru um margt ólíkar og nýjustu rannsóknir benda til að mosar séu ekki náttúrulegur hópur í þeim skilningi að þeir komi af einum sameiginlegum forföður, þeir séu með öðrum orðum ekki einætta.

Mosaflóran ber ákveðinn norðurevrópskan svip og eru tegundirnar misalgengar eftir landshlutum. Gamburmosategundirnar hraungambri, melagambri og hærugambri eru meðal allra algengustu plantna landsins.

Mosar eru mun meira áberandi á Íslandi en víða annars staðar og eru víða einkennandi fyrir gróðurfar. Þeir endurspegla ýmsa þætti eins og loftslag og síendurtekna myndun á nýju undirlagi, einkum hraunum. Einnig hefur þung búfjárbeit í gegnum tíðina haldið niðri hávaxnari tegundum sem annars hefðu vaxið yfir lágplönturnar.

Mosar eru hentugir til að fylgjast með loftmengun því að þeir eru rótalausir, misvotir (það er taka upp raka úr umhverfi sínu en ekki úr jarðvegi) og hafa ekki vel þróað hlífðarlag. Yfirborð blaða er mikið miðað við rúmmál og vefir þeirra hleypa fremur greiðlega inn málmjónum úr loftbornum ögnum sem á þá setjast. Mosar hafa greið jónskipti við umhverfið og geta bundið mikið af mengunarefnum. Með því að mæla styrk efna í mosa má því fá upplýsingar um styrk þeirra í lofti og úrkomu.

SKOÐA FLOKKUNARKERFI OG LEITA AÐ BAUKMOSUM eða SOPPMOSUM

Listi yfir íslenska mosa á Flóra Íslands.