Alþjóðlegt samstarf

Náttúrufræðistofnun Íslands annast framkvæmd nokkurra alþjóðlegra samninga og samþykkta fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og sinnir einnig verkefnum fyrir svæðisbundnar alþjóðlegar stofnanir. Starfsmenn stofnunarinnar taka virkan þátt í margháttuðu alþjóðlegu samstarfi og samvinnuverkefnum á sviði vísinda og mörg rannsóknarverkefni stofnunarinnar tengjast alþjóðlegum skuldbindingum.

Helstu alþjóðlegu verkefnin sem stofnunin kemur að:

Bernarsamningurinn um vernd plantna og dýra og búsvæða þeirra í Evrópu var gerður árið 1979 og staðfestur hér á landi árið 1993. Hann er vistaður hjá Evrópuráðinu og nær til 51 ríkis sem flest eru í Evrópu. Samningurinn hefur haft mikil áhrif á náttúruverndarlöggjöf aðildarríkjanna og framkvæmd hennar, meðal annars hvernig staðið er að því að skrá, flokka, meta og vakta lifandi náttúru.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með framkvæmd Bernarsamningsins hér á landi. Starfsfólk stofnunarinnar sækir fundi aðildarríkjanna og sérfræðingafundi samningsins fyrir Íslands hönd og tekur þátt í störfum mikilvægra undirnefnda. Meðal þeirra eru:

  • sérfræðinganefnd um net náttúruverndarsvæða, Emerald Network
  • nefnd um líffræðilega fjölbreytni eyja,
  • nefnd um ágengar innfluttar tegundir,
  • nefnd um hryggleysingja,
  • nefndir um veiðar og lífríki og
  • nefndir um verndaráætlanir fyrir einstakar fuglategundir

Vefur Bernarsamningsins

Samþykktin um lífríkisvernd á norðurslóðum, Conservation of Arctic Flora and Fauna (CAFF), fellur undir starfssvið Norðurskautsráðsins. Að henni standa norðurskautsríkin átta, Bandaríkin, Danmörk (þ.m.t. Færeyjar og Grænland), Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Náttúrufræðistofnun Íslands á fulltrúa í stjórn CAFF og tekur þátt í starfi sérfræðinganefnda um sjófugla, gróður, friðlandanet og lífríkisvöktun á norðurslóðum.

Vefur CAFF

Ísland undirritaði alþjóðlegan samning um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity) í Rio de Janeiro árið 1992 og var hann staðfestur af Alþingi árið 1994. Nánast öll ríki veraldar eru nú aðilar að samningnum. Samningurinn hefur það þríþætta markmið að vernda líffræðilega fjölbreytni, tryggja að nýting lífrænna auðlinda sé sjálfbær og að arðinum af nýtingu þeirra sé skipt með réttlátum hætti.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur sótt fundi aðildarríkja og á fulltrúa í starfi vísinda- og tækninefndar samningsins (SBSTTA) og leggur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu einnig til starfsmann samráðsnefndar ráðuneytanna sem vinnur að stefnumótun um verndun og nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi.

Vefur Samnings um líffræðilega fjölbreytni

Ísland hefur verið aðili að African-Eurasian Waterbird Agreement (AEWA) síðan 2013. Samningurinn fjallar um aðgerðir til verndar votlendisfarfuglum og búsvæðum þeirra í Afríku, Evrópu, Mið-Austurlöndum, Mið-Asíu, Grænlandi og kanadísku eyjaklösunum. Hann nær til flestra fuglategunda sem verpa eða hafa viðkomu á Íslandi. Náttúrufræðistofnun Íslands annast framkvæmd samningsins í samvinnu við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.

Vefur AEWA

CITES-samningurinn (The Convention on International Trade in Endangered Species of Wild Fauna and Flora) er alþjóðlegur samningur um stjórnun og eftirlit á alþjóðlegri verslun með tegundir plantna og dýra, og afurðum sem rekja má til þeirra, sem taldar eru í útrýmingarhættu. Tilgangur samningsins er að koma í veg fyrir að alþjóðleg verslun með dýr og plöntur í útrýmingarhættu hafi áhrif á stofnstærðir tegundanna. Samningurinn setur ýmsar reglur um verslun með viðkomandi tegundir og afurðir þeirra sem aðildarríkjum samningsins ber að framfylgja. Sumar tegundir er bannað að versla með en verslun með aðrar tegundir er leyfð að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Náttúrufræðistofnun Íslands er vísindalegt stjórnvald samkvæmt samningnum en í því felst ráðgjöf sem snýr að plöntu- og dýrategundum sem ekki teljast til nytjastofna sjávar.

Vefur CITES

Ísland er aðili að alþjóðlegu samstarfi um birtingu líffræðilegra gagnasafna, Global Biodiversity Information Facility (GBIF). Markmið GBIF er að gera gagnasöfn um líffræðilega fjölbreytni frá ólíkum aðilum aðgengileg á einum stað á netinu og að tengja saman ólíkar gerðir náttúrufarsupplýsinga. Fulltrúi umhverfis- og auðindaráðuneytisins situr í stjórn GBIF en fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands er samhæfingarstjóri (notes manager). Náttúrufræðistofnun Íslands hefur unnið að því undanfarin ár að tengja líffræðileg gagnasöfn sín við vefþjón GBIF.

Vefur GBIF

NOBANIS (European Network on Invasive Alien Species) er samstarfsverkefni þjóða í Norður-Evrópu um að því að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra tegunda. Megintilgangur verkefnisins er að þróa og búa til net gagnagrunna með upplýsingum um framandi tegundir í Norður-Evrópu og gera þær aðgengilegar á vefnum.

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd. Við upplýsingaöflun hefur verið leitað til fjölmargra sérfræðinga innan stofnunar og utan.

Vefur NOBANIS

Ramsarsamningurinn (The Convention on Wetlands) er alþjóðlegur samningur um vernd votlendissvæða og dýrategunda sem eru háðar votlendi. Náttúrufræðistofnun Íslands er meðal annars umsagnaraðili um verndargildi votlendissvæða og veitir upplýsingar um lífríki þeirra, sérstaklega um fuglategundir. Einnig hefur stofnunin tekið að sér að kortleggja vistgerðir svæða sem tilnefnd hafa verið sem Ramsarsvæði.

Vefur Ramsarsamningsins

Auk alþjóðlegra verkefna sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur verið falið að vinna sem hluta af reglubundnu starfi stofnunarinnar, er fjöldi annarra fjölþjóðlegra verkefna sem stofnunin hefur tekið að sér. Það eru yfirleitt verkefni sem mynda tengsla- og samstarfsnet á fagsviðum stofnunarinnar innanlands og utan.

Hlutverk heimsminjanefndar Íslands er að framfylgja heimsminjasamningi UNESCO fyrir hönd Íslands og ber mennta­ og menningarmálaráðherra ábyrgð á samningnum og skipar nefndina. Nefndin hefur  unnið að tilnefningu svæða á heimsminjaskrá og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands átt fulltrúa í nefndinni auk þess að hafa aflað ýmissa náttúrufarsupplýsinga um þau svæði sem hafa verið tilnefnd.

Meðal þeirra svæða á Íslandi sem eru á skrá heimsminjanefndar er Surtsey.

Vefur World Heritage Convention

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur þátt í alþjóðlega verkefninu GLORIA, Global Observation Research Initiative in Alpine Environments, þar sem reynt er að meta hver áhrif hlýnunar jarðar verður á gróðurfar heimsins. Talið er að háfjallagróður sé viðkvæmastur fyrir hlýnuninni og muni því bregðast fyrst við henni. Markmið verkefnisins er að koma á vöktun til að mæla áhrif hnattrænnar hlýnunar á gróður einstakra fjallstinda.

Vefur GLORIA

Alþjóðlegu jarðvísindasamtökin, International Union of Geological Sciences (IUGS), voru stofnuð 1961 og eru ein stærstu óopinberu samtök jarðvísindamanna. Náttúrufræðistofnun Íslands er aðili að samtökunum og kemur þar fram fyrir hönd Íslands. Markmið IUGS er meðal annars að efla og styðja við rannsóknir á jarðfræðilegum viðfangsefnum, sérstaklega verkefnum sem eru mikilvæg á heimsmælikvarða, og styðja við alþjóðalega og þverfaglega samvinnu á sviði jarðvísinda.

Vefur IUGS

Náttúrufræðistofnun Íslands er meðlimur ProGeo (ProGeo The European Association for the Conservation of the Geological Heritage) sem eru alþjóðleg samtök um verndun jarðminja. Meginmarkmið samtakanna er að efla jarðminjavernd og upplýsa stjórnvöld og almenning um nauðsyn þess að vernda jarðminjar. UNESCO Global Geoparks Network eru alþjóðleg samtök jarðvanga sem hafa meðal annars það hlutverk að bæta viðhorf og þekkingu fólks á jarðminjum.

Vefur ProGeo

Fléttuflóra Norðurlanda er unnin í samstarfi fléttufræðinga á Norðurlöndunum. Fyrsta bindið var gefið út 1999 en gefin hafa verið út 5 bindi. Um hefðbundna fléttuflóru er að ræða þar sem nálgast má greiningarlykla auk nákvæmra lýsinga á einstökum tegundum, útbreiðslukort tegundanna á Norðurlöndum auk vandaðra litljósmynda af öllum tegundum. Fléttuflóran er gefin út af Félagi norrænna fléttufræðinga og ritnefnd skipuð einum fulltrúa hvers Norðurlandanna.

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur þátt í ritun flórunnar af Íslands hálfu en hún er til sölu á vef Sænsku grasafræðisamtakanna.

1. bindi - Calicoid lichens and fungi kom út 1999 en það inniheldur einnig inngangskafla. Sjá ritfregn í Náttúrufræðingnum.

2. bindi - Physciceae (grámuætt) kom út 2001.

3. bindi - Cyanolichens ("blábakteríufléttur") kom út 2007.

4. bindi - Parmeliaceae (litskófarætt) kom út 2011.

5. bindi - Cladoniaceae (bikarfléttuætt) kom út 2013.

6. bindi - Verrucariaceae (fjörusvertuætt) kom út 2017.