Mikilvæg fuglasvæði

Skilgreind hafa verið svæði sem teljast alþjóðlega mikilvæg fyrir þá 81 tegund fugla sem eru varpfuglar eða reglulegir gestir hér á landi. Mat á því hvaða svæði falla í þennan flokk byggist á viðmiðum Alþjóðlegu fuglaverndarsamtakanna, BirdLife International. Það veltur fyrst og fremst á stofnmati, þ.e. hversu margir fuglar nýta svæðin hér á landi og hversu hátt það hlutfall er af heildarstofni. Fyrir sumar tegundir eru hvort tveggja byggt á ítarlegum fyrirliggjandi gögnum en fyrir margar tegundir byggir matið á takmörkuðum og oft áratugagömlum gögnum.

Alls er 121 svæði á Íslandi sem telst alþjóðlega mikilvægt fyrir fugla og eru þau flokkuð í þrennt; 70 svæði teljast til sjófuglabyggða, 25 svæði eru fjörur eða grunnsævi og 31 svæði er votlendi eða önnur svæði inn til landsins. Nokkur svæði falla undir tvo eða þrjá flokka og er fjallað um þau svæði í hverjum flokki til að auðvelda yfirsýn um hliðstæð svæði. Dæmi um slíkt er Breiðafjörður sem sjófuglabyggð og Breiðafjörður sem fjörur eða grunnsævi.

Langflest svæði eru þýðingarmikil sem varplönd, en mun færri sem viðkomustaðir, vetrardvalarstaðir og fjaðrafellistaðir. Nokkur svæði gegna öllum þessum hlutverkum, eins og Mývatn og Breiðafjörður.

Afar misjafnt er hversu mörg mikilvæg svæði eru skilgreind fyrir hverja fuglategund. Hjá varpfuglum eru langflest hjá fýl (38 svæði) og hjá fargestum eru þau flest fyrir rauðbrysting (átta svæði). Engin svæði hafa verið skilgreind mikilvæg fyrir 40 tegundir. Alþjóðleg töluleg viðmið hafa ekki verið sett fyrir 21 þeirra en hinar 19 eru það fáliðaðar hér að engin svæði þeirra hér teljast alþjóðlega mikilvæg fyrir þær.

Mörk margra svæða eru fremur lauslega dregin. Fyrir tegundir sem verpa mjög dreift, eins og mófugla og ránfugla, verða verndarsvæði óhjákvæmilega mjög stór ef þau eiga að hýsa umtalsverðan hluta viðkomandi stofns. Aftur á móti er oftast auðvelt að afmarka sjófuglabyggðir.

Í ritinu Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi er gerð grein fyrir þekkingu og aðferðum sem notaðar eru við val svæða, fjallað er um allar tegundir eða hópa og lagt mat á fyrirliggjandi þekkingu. Þá er fjallað um öll svæðin sem teljast alþjóðlega mikilvæg fyrir eina eða fleiri tegundir.