JÖRÐ

Jörðin er ein af átta reikistjörnum sólkerfis okkar sem myndaðist fyrir um 4,6 milljörðum ára. Sögu jarðar og þróun lífríkis er hægt að lesa úr jarðlögum og af steingervingum sem þar finnast. Jarðsagan segir okkur hvernig jörðin hefur farið í gegnum margs konar tímabil og breytingar frá myndun hennar; meginlönd hafa rekið sundur og saman, fjallgarðar risið og rofnað og eldsumbrot og loftslagsbreytingar átt sér stað. Í dag nær þurrlendi til um 30% jarðarinnar en höf, vötn og jöklar um 70%.

Jarðskorpan, eða berggrunnur jarðar, er gerð úr storkubergi, setbergi og myndbreyttu bergi. Laus efni eða set sem myndast við niðurbrot eða rof á bergi (til dæmis sandur, möl, jökulurð, jarðvegur) kallast jarðgrunnur.

Íslenskur berggrunnur er ungur miðað við aldur jarðar en elstu jarðlög landsins eru aðeins um 16 milljón ára. Eldvirkni, vatn, jöklar og sjór hafa myndað og mótað landið frá upphafi. Þetta kallast landmótun og skapar það landslag sem við þekkjum í dag.

Verndun jarðminja er mikilvæg á Íslandi vegna mikils breytileika jarðfræðilegra myndana og eru sumar þeirra einstakar á heimsvísu.

Á Náttúrufræðistofnun Íslands er varðveitt safn bergtegunda, steinda og steingervinga sem eru hluti af jarðsögu Íslands. Þau söfn eru opin þeim sem vinna að jarðvísindum.