Áhrif mannsins

Athafnir mannsins hafa áhrif á umhverfi okkar og þar með talið náttúruna. Á þeim árum sem liðin eru frá því landið tók að byggjast hefur búsetan sett mark sitt á gróður landsins. Alþekkt er lýsing Ara fróða í Íslendingabók þar sem segir að við landnám hafi Ísland verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Gera má ráð fyrir að stór hluti gróðursins hafi verið kjarr eða hrís en birkiskógur hafi vaxið í skjólríkum dölum og neðanverðum hlíðum. Ágangur búfjár og viðarhögg eyddu kjarri og skógum en auk þess hafði kólnandi loftslag á tímabilinu 1600–1900 neikvæð áhrif og olli versnandi vaxtarskilyrðum fyrir birkið. Þetta þoldi gróðurþekjan illa og hóf að blása upp og eyðast á stórum svæðum.

Lífríki landsins er á margan hátt sérstætt og viðkvæmt og bera gróðurbreytingar fá landnámi þess glögglega merki. Hvers konar nýting og framkvæmdir hafa haft áhrif og breytt framvindu náttúrunnar hér á landi í gegnum tíðina eins og hvarvetna þar sem maðurinn lætur til sín taka. Jafnframt eru fyrirsjáanlegar breytingar vegna hnattrænna loftlagshlýnunar af mannavöldum.

Upp úr síðari heimsstyrjöld hófst stórfelld framræsla mýra hér á landi til ræktunar túna og þurrkunar úthaga. Segja má að bróðurpartur láglendismýra landsins hafi orðið fyrir áhrifum af framræslunni og gróður þeirra tekið miklum breytingum. Farvegum áa og lækja var breytt og smávötn og tjarnir víða þurrkuð upp eða menguð af affallsvatni úr skurðum. Við þurrkunina tók lífrænn jarðvegur mýranna að rotna og losun koltvísýrings út í andrúmsloft frá votlendissvæðum jókst til muna. Ekki leikur á því vafi að áhrif framræslunnar á gróðurfar landsins ganga næst þeim aldalöngu breytingum sem urðu eftir að land var numið, skógar ruddir og búfé beitt um úthaga og afrétti. Stórvirk framræsla mýra stóð fram á níunda áratug síðustu aldar. Árið 1996 voru hafnar fyrstu tilraunir með endurheimt votlendis (pdf) hér á landi með því að fylla í skurði og stífla útföll úr tjörnum. Þær tilraunir lofuðu góðu en endurheimt svæði eru þó sáralítil í samanburði við allt það land sem ræst var fram. Dæmi um endurheimt votlendis er Dagmálatjörn í Biskupstungum. Endurheimt votlendis er nú talin meðal mikilvirkra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloft hér á landi.

Á Íslandi er skógrækt ung og vaxandi atvinnugrein og einnig áhugamál margra. Skipulögð skógrækt hófst eftir aldamótin 1900 og var tilgangurinn meðal annars að vernda birkiskóga.  Jafnframt var hafin gróðursetning innfluttra trjátegunda og í gegnum tíðina hafa ýmsar trjátegundir verið reyndar. Í dag þekja skógar um 1,5% af heildarflatarmáli landsins en þar af eru ræktaðir skógar 0,3%. Um þriðjungur plantna sem gróðursettar eru á ári hverju er birki en aðrar algengar tegundir eru síberíulerki, sitkagreni, stafafura, alaskaösp og blágreni.

Á þeim svæðum þar sem skógrækt fer fram eða sjálfsáning skóga á sér stað breytast vistkerfi með tímanum.  Eftir því sem trén vaxa dregur úr ljósi sem nær til jarðar, auk þess sem hitafar, jarðraki, magn lífræns efnis og frjósemi svæða getur breyst . Rannsóknir á skógvist hér að landi hafa sýnt að tegundir sem aðlagaðar eru bersvæðum fækkar eða hverfa með öllu þegar skógar vaxa upp en kjarr- og skógartegundir koma inn eða auka hlutdeild sína. Tegundir eru flestar í mólendi og ungum skógum en þeim fer fækkandi eftir því sem skógurinn þéttist og birta minnkar á skógarbotni. Niðurstöður benda til að æðplöntuflóra birkiskóga sé tegundaríkari en flóra sem verður ríkjandi í gömlum teigum af lerki-, greni- og furuskógi. Líklegt er að þessi munur stafi einkum af því að barrtegundirnar eru hávaxnari en birkið og verður meiri skuggi undir þeim í þéttum, ógrisjuðum skógum.

Um leið maðurinn hefur aukið umsvif sín og lagt undir sig jörðina hefur hann flutt með sér dýr og plöntur, ýmist til nytja eða ómeðvitað. Bestu dæmin um það eru húsdýr og nytjaplöntur. Flestar eru þessar lífverur háðar manninum og þrífast ekki nema að þeim sé hlúð. Nokkrar spjara sig þó vel og geta breiðst út fyrir túngarð á eigin spýtur og lifað þar góðu lífi. Sumar eru mikilvirkar og hafa umtalsverð áhrif á tegundir sem fyrir eru og breyta eiginleikum vistkerfa. Þær tegundir teljast ágengar og er aukin útbreiðsla þeirra á síðari árum talin ein helsta ógn við líffræðilega fjölbreytni á jörðinni. Dæmi um ágengar plöntur hér á landi eru alaskalúpína og skógarkerfill en einnig er fylgst með risahvönnum sem eru teknar að breiðast út.

Í flestum löndum hafa verið settar reglur um innflutning nýrra tegunda og dreifingu. Það er meðal annars gert til að sporna gegn tjóni af þeirra völdum í landbúnaði og neikvæðum áhrifum á náttúrufar. Ísland er aðili að samstarfsverkefninu NOBANIS þar sem aflað er gagna um ágengar tegundir í Norður-Evrópu. Hér á landi hafa einnig verið dregnar saman upplýsingar um áhrif alaskalúpínu og skógarkerfils og skýrslu (pdf) skilað til umhverfisráðherra um útbreiðslu, varnir og nýtingu þeirra. Áhrif alaskalúpínu á gróðurfar hafa einnig verið rannsökuð nokkuð, sjá til dæmis fyrirlestur Borgþórs Magnússonar á Hrafnaþingi í mars 2012. Líklegt er að með hlýnandi loftslagi muni innfluttar og ágengar tegundir auka útbreiðslu sína hér á landi og setja meiri svip á landið, einkum á svæðum sem friðuð eru fyrir búfjárbeit.

Staðreyndasíða NOBANIS um alaskalúpínu (pdf)

Staðreyndasíða NOBANIS um skógarkerfil (pdf)

Frá fyrstu tíð hefur maðurinn beitt eldi til að eyða skógi og kjarri, brenna sinu og fá upp ungan og þróttmikinn gróður. Svo hefur og verið hér á landi og má finna ýmis dæmi um það, einkum þegar eldar hafa farið úr böndunum og breiðst meira út en ætlun var. Sinubrennsla að vorlagi var mjög algeng í grasgefnum sveitum fyrr á árum en mjög hefur dregið úr henni síðustu ár. Hrossum hefur fjölgað og beit þeirra aukist í láglendishögum. Þá hefur umræða um gagnsemi sinubrennslu og umhverfisáhrif aukist og strangari reglur verið settar um hana en áður var.

Gróðureldar sem kveiktir hafa verið af vangá hafa hins vegar aukist undanfarin ár. Dæmi um það eru Mýraeldar sem komu upp í lok mars 2006 og breiddust yfir um 72 km2 votlendissvæði vestur á Mýrum. Þeir eru mestu sinueldar sem þekktir eru hér á landi. Umfangsmiklar rannsóknir fóru fram á áhrifum eldanna á gróður og annað lífríki. Stórir skógareldar hafa ekki orðið hér á landi í seinni tíð. Reikna má með að með vaxandi skógum aukist líkur á skógareldum og hafa skógareigendur og slökkvilið brugðist við því og eru á varðbergi. Í gömlum lúpínubreiðum getur safnast upp talsverður eldsmatur í trénuðum stönglum svo eldhætta verður af í þurrkum að vorlagi. Ástæða er til að gera viðeigandi ráðstafanir þar sem miklar lúpínubreiður eru við sumarbústaði eða mannvirki í þéttbýli. Í heildina tekið verður að telja að áhrif gróðurelda hafi verið fremur lítil hér á landi í gegnum tíðina.

Rannsóknir á gróðureldum

Mengun af mannavöldum hefur ekki haft umtalsverð áhrif á gróður hér á landi svo talið sé. Á undanförnum árum hefur hennar þó orðið vart á afmörkum svæðum í nágrenni stóriðjuvera, jarðvarmavirkjana og þar sem endurvinnsla málma fer fram. Með aukinni stóriðju og jarðvarmavinnslu má búast við að loftmengun aukist ef ekki eru gerðar viðeigandi ráðstafanir til að hreinsa útblástur og rykmengun.

Rannsóknir á þungmálmamengun og uppsprettum hennar í Evrópu á undanförnum áratugum hafa sýnt að lítið berst af mengandi efnum með loftstraumum hingað til lands. Hins vegar er bakgrunnsstyrkur nokkurra þungmálma allhár hér á landi sem rekja má til eldvirkni, áfoks og berggrunnsgerðar. Mosa- og fléttutegundir eru sérstaklega viðkvæmar fyrir loftmengun en þær taka til sín efni úr lofti og það sem á þær fellur. Sigurður H. Magnússon fjallaði um þungmálma og brennistein í mosa á Íslandi 1990-2010 og áhrif iðjuvera í fyrirlestri á Hrafnaþingi í október 2013.

Við mannvirkjagerð fer að jafnaði forgörðum land sem býr yfir gróðri og dýralífi. Á það við um nýbyggingar í þéttbýli og dreifbýli, vegagerð, stíflur, nýmynduð lón og flest annað er maðurinn reisir. Ísland er strjálbýlt og sennilega hér hefur hlutfallslega lítið land farið undir mannvirki miðað við þéttbýlli lönd. Á undanförnum áratugum hefur líklega mestu gróðurlendi verið fórnað undir vaxandi þéttbýli á Suðvesturlandi og miðlunarlón á hálendinu. Í tengslum við stærri framkvæmdir á landinu þarf að fara fram umhverfismat og eru þá metin áhrif viðkomandi framkvæmdar á náttúrufar, til dæmis gróður. Sem dæmi um slíkt mat er myndun Hálslóns í Jökulsá á dal árið 2006, sem fjallað er um í skýrslunni Kárahnjúkavirkjun: Áhrif Hálslóns á gróður, smádýr og fugla (pdf), en frá því er miðlað vatni til Kárahnjúkavirkjunar. Lónið er 57 km2 að flatarmáli en þar af voru um 32 km2 vaxnir heiða- og votlendisgróðri.