Fimm græn skref

Markmið með Grænum skrefum er að efla vistvænan rekstur ríkisins með kerfisbundnum hætti, einkum skrifstofurekstur, og hafa þannig jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi starfsmanna og draga úr rekstrarkostnaði. Þeir þættir sem horft er til við innleiðingu Grænna skrefa eru sex talsins: innkaup; miðlun og stjórnun; fundir og viðburðir; flokkun og minni sóun; rafmagn og húshitun; og samgöngur. Skrefin eru innleidd í fjórum áföngum, en fimmta og síðasta skrefið sýnir helstu aðgerðir sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi.

Húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands í Garðabæ ein af fáum byggingum hér á landi sem hlotið hafa vistvæna vottun, BREEAM-vottun, en markmið vistvænnar hönnunar og vottunar er að byggingar og innviðir hafi sem minnst umhverfisáhrif á líftíma sínum, séu heilsusamlegri fyrir notendur og minnki viðhaldsþörf. Stofnunin leggur mikla áherslu á góða nýtingu hluta og endurnotkun og var hún meðal fyrstu stofnana ríkisins í að hefja aðlögun starfseminnar að markmiðum Grænna skrefa.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur haldið grænt bókhald síðan árið 2011 en með því getur stofnunin fylgst með helstu umhverfisþáttum starfseminnar og leitast við að tryggja að þróun hennar sé jákvæð fyrir umhverfið. Í grænu bókhaldi má sjá að á undanförnum árum hefur stofnunin minnkað pappírsnotkun til muna og flokkun á úrgangi hefur aukist. Þannig var 75% af öllum úrgangi flokkaður árið 2017 samanborið við 62% árið 2015. Árið 2018 er markmiðið að flokka að minnsta kosti 80% úrgangs. Á sama tímabili minnkaði pappírsnotkun úr 13 kg á hvern starfsmann árið 2015 niður í 6,8 kg á hvern starfsmann árið 2017. Áfram verður unnið að því að draga úr pappírsnotkun og stefnt er að því að hún verði undir 5 kg árið 2018.

Á vef Grænna skrefa má sjá hvaða stofnanir taka þátt í verkefninu og hvar þær eru staddar í ferlinu.

Umhverfisstofnun fer með umsjón Grænna skrefa.