Fléttur
Fléttur eru sambýli svepps og grænþörungs og/eða blábakteríu. Sveppurinn er oftast ráðandi aðilinn í sambandinu og nafn fléttunnar er nafn sveppsins enda má oft finna sama grænþörunginn í mismunandi fléttum. Sveppurinn leggur til hagstæð búsetuskilyrði fyrir þörunginn eins og raka og vörn fyrir of sterku sólarljósi en nýtir í staðinn stóran hluta framleiðslu þörungsins. Fléttur hafa mikla aðlögunarhæfni og eru því oft áberandi á stöðum þar sem annar gróður á erfitt uppdráttar. Þannig eykst hlutfall fléttna til fjalla og fléttur eru oft fyrstu landnemarnir á nýrunnum hraunum.
Sveppurinn í fléttunni fjölgar sér oft með kynæxlun, myndar þá gró í svokölluðum öskum en langflestir fléttumyndandi sveppir tilheyra Asksveppum. Spírandi sveppgróið verður að finna hentugan sambýling (grænþörung, blábakteríu) til að ná að þroskast sem flétta. Ýmsar fléttutegundir fjölga sér hins vegar á kynlausan hátt á þann hátt að sérmynduð líffæri (snepar, hraufukorn), sem í eru bæði sveppþræðir og þörungafrumur, losna frá þalinu og dreifast til dæmis með vindi eða dýrum.
Margar fléttur mynda sérstök efnasambönd sem ekki hafa fundist annars staðar í lífheiminum. Þetta eru oft sýrur sem kallast fléttusýrur. Sumar þeirra gefa fléttunum eiginleika sem menn hafa hagnýtt sér frá fornu fari til dæmis til litunar eða sem náttúrulyf því sumar fléttusýrur hafa bakteríudrepandi eiginleika.
Fjöldi tegunda
Á Íslandi hafa fundist rúmlega 700 tegundir af fléttum, yfir 400 þeirra eru hrúðurfléttur og afgangurinn blað- og runnfléttur. Sífellt finnast nýjar tegundir fléttna hér á landi.
Fléttumyndandi sveppir eru ekki náttúrulegur hópur í þeim skilningi að þeir komi af einum sameiginlegum forföður. Þeir eru með öðrum orðum ekki einstofna heldur hafa allnokkrir hópar sveppa tekið upp sambýli við grænþörung/blábakteríu óháð hver öðrum. Langstærsti hluti fléttumyndandi sveppa eru asksveppir og reyndar er um það bil helmingur þekktra asksveppa fléttumyndandi. Á Íslandi tilheyra flestar fléttur litskófabálki (Lecanorales), rúmlega 500 tegundir. Af engjaskófarbálki (Peltigerales) og fjörusvertubálki (Verrucariales) eru um 70 tegundir af hvorum og af grábreyskjubálki (Pertusariales) eru tæplega 50 tegundir. Af öðrum bálkum eru 1–17 tegundir en íslenskar fléttur tilheyra 17 mismunandi ættbálkum auk þess sem að minnsta kosti ein tegund hérlends kólfsvepps myndar fléttu.
SKOÐA FLOKKUNARKERFI OG LEITA AÐ FLÉTTUM
Meginflokkar fléttna
Fléttum er skipt í þrjá meginflokka með tilliti til útlits, runnfléttur, blaðfléttur og hrúðurfléttur. Flokkarnir þrír endurspegla þó engan veginn skyldleikatengsl fléttna sem bendir til að hin ólíku vaxtarform hafi þróast oft í tímans rás.
Runnafléttur
Runnfléttur eru greinóttar og rísa oftast frá undirlaginu. Sem dæmi um runnfléttur má nefna hreindýrakróka (hreindýramosa) og ýmsar bikarfléttur.
Blaðfléttur
Blaðfléttur eru blaðkenndar og liggja því oftast samhliða undirlaginu. Dæmi um þær eru til dæmis fjallagrös, engjaskófir og geitaskófir.
Hrúðurfléttur
Hrúðurfléttur mynda hrúður á undirlaginu og hentar íslenska nafnið skófir þeim vel. Hrúðurflétturnar eru algengastar á klettum, berki og jarðvegi. Af íslenskum fléttutegundum eru flestar tegundirnar hrúðurfléttur.