Eldvirkni

Ísland er staðsett á flekaskilum á úthafshrygg, þar sem Evrasíu- og Ameríkuflekinn reka frá hvor öðrum, en langflestar virkar eldstöðvar á jörðinni eru á annaðhvort á flekaskilum eða flekamótum. Að auki er landið staðsett yfir möttulstrók, sem er uppstreymissvæði sem flytur bergkviku frá iðrum jarðar til yfirborðs. Þetta tvennt gerir Ísland að einu eldvirkasta svæði jarðar þar sem eldumbrot verða að meðaltali á 3–6 ára fresti. Eldstöð á Íslandi telst virk hafi hún gosið á nútíma, eða síðustu 11–12 þúsund ár. Í dag er talið að það séu um 41 virk eldstöðvakerfi á Íslandi og landgrunni þess sem mynda gosbelti landsins. Virkasta eldstöðvakerfið er Grímsvatnakerfið sem gosið hefur á um það bil tíu ára fresti síðastliðin 1.000 ár. Stærsta kerfið er hins vegar Bárðarbungukerfið, en þar eru mörg af stærstu hraunum landsins upprunnin.

Eldstöðvakerfi

Eldstöðvakerfi er hópur eldstöðva, eða eldfjalla, á afmörkuðu svæði sem talið er að tengist sameiginlegri kvikuþró djúpt í jarðskorpunni. Flest eldstöðvakerfi samanstanda af miðlægri megineldstöð, sem er jafnframt virkasti hluti kerfisins, og sprungurein sem sker hana, en sprungurein er afmarkað kerfi af sprungum og gjám sem allar hafa svipaða stefnu. Innan sprungusveimsins er síðan ein eða fleiri gosreinar þar sem gosið hefur innan sprungusveimsins. Iðulega eru háhitasvæði tengd megineldstöðvum. Á Íslandi bera eldstöðvakerfi oftast nafn megineldstöðvar, t.d. Hekla, Katla og Grímsvötn, en ef megineldstöðin er ógreinileg ber hún gjarnan nafn jarðhitakerfisins, eins og Svartsengi og Reykjanes. Innri gerð kulnaðra eldstöðvakerfa og tilheyrandi gosmyndanir má sjá í giljum, jökulsorfnum fjöllum og fjörðum í eldri berggrunni landsins.

Eldstöðvakerfi landsins eru ólík að efnasamsetningu og gosefnaframleiðslu. Við eldsumbrot kemur yfirleitt upp þunnfljótandi basaltkvika eða seig líparítkvika. Líparítkvika verður eingöngu til innan megineldstöðva í tengslum við endurtekin kvikuinnskot, en basaltkvika á sér dýpri rætur og getur komið upp hvar sem er innan eldstöðvakerfisins. Virk eldstöðvakerfi landsins eru gjarnan flokkuð eftir bergröðum, en bergröð er röð ólíkra bergtegunda með sameiginlegan uppruna sem endurspeglast í efnasamsetningu þeirra. Á Íslandi eru þrjár bergraðir, þóleiísk bergröð, alkalísk bergröð og millibergröð. Hvert eldstöðvakerfi myndar eingöngu berg sem tilheyrir ákveðinni bergröð. Berg úr þóleiísku bergröðinni myndast í eldstöðvakerfum innan rekbeltanna sem mynda meginás Miðatlantshafshryggjarins, en í eldstöðvakerfum í jaðargosbeltum myndast berg sem tilheyrir alkalísku bergröðinni eða millibergröðinni.

Goshættir stýrast af efnasamsetningu kviku auk þess sem umhverfi eldstöðvar hefur mikil áhrif, það er að segja hvort gos verður á landi, í vatni, sjó eða jökli. Þegar basaltgos verða á þurru landi verða flæðigos og hraun renna, en þegar þau verða í vatni, sjó eða jökli verða sprengigos sem mynda gjósku. Sama á við um líparítkviku, en vegna gasinnihalds og mikillar seigju geta orðið líparítsprengigos á þurru landi. Þegar gýs í vatni eða jökli myndast hryggir og hrúgöld af gjósku, sem geta ummyndast, harðnað og orðið að móbergi. Í mörgum eldgosum breytast goshættir með tíma. Þannig geta þau til að mynda byrjað sem sprengigos, síðan orðið að blandgosi og endað sem hreinræktuð flæðigos. Surtseyjargosið er dæmi um gos sem þróaðist úr sprengigosi yfir í hraungos.

Listi yfir eldstöðvakerfi á Íslandi

Númer á korti Eldstöðvakerfi Megineldstöð Athugasemd
Þóleiísk bergröð
1 Steinahóll   Neðansjávar
2 Gullhóll   Neðansjávar
3 Stóri-Brandur   Neðansjávar
4 Eldeyjarboði   Neðansjávar
5 Grjóthryggur   Neðansjávar
6 Langagrunn   Neðansjávar
7 Geirfuglasker   Neðansjávar, tvö sker
8 Eldey   Neðansjávar, ein eyja, eitt sker
9 Reykjanes   Að hluta neðansjávar
10 Svartsengi    
11 Krísuvík    
12 Brennisteinsfjöll    
13 Hengill Hengill Hrómundartindur meðtalinn
14 Grímsnes    
15 Skjaldbreiður    
16 Prestahnúkur Prestahnúkur  
17 Hveravellir Þjófadalir  
18 Kerlingarfjöll Kerlingarfjöll  
19 Hofsjökull Hofsjökull, Arnarfell  
20 Vonarskarð Vonarskarð, Hágöngur  
21 Bárðarbunga Bárðarbunga, Hamarinn Veiðivötn og Tungnaáröræfi meðtalin
22 Grímsvötn Grímsvötn, Þórðarhyrna Skaftáröræfi meðtalin
23 Kverkfjöll Kverkfjöll Fjallgarðar meðtaldir
24 Askja Askja Dyngjufjöll meðtalin
25 Fremri-Námar Fremri-Námar Heiðarsporður meðtalinn
26 Krafla Krafla  
27 Þeistareykir Þeistareykir  
28 Tjörnesgrunn   Neðansjávar, tvær eyjar
29 Skjálfandadjúp   Neðansjávar
Alkalísk bergröð
30 Snæfellsjökull Snæfellsjökull  
31 Helgrindur Lýsuskarð Bæði megineldstöðin og eldstöðvakerfið eru einnig kennd við Lýsuhyrnu í heimildum.
32 Ljósufjöll Ljósufjöll  
33 Vestmannaeyjar   Að hluta neðansjávar
Millibergröð
34 Eyjafjallajökull Eyjafjallajökull  
35 Katla (Mýrdalsjökull) Katla  
36 Tindfjallajökull Tindfjallajökull  
37 Hekla Hekla Vatnafjöll meðtalin
38 Torfajökull Torfajökull Rauðfossafjöll meðtalin
39 Öræfajökull Öræfajökull  
40 Esjufjöll Snæhetta  
41 Snæfell Snæfell  

Upplýsingar fengnar úr: Jakobsson, S.P., K. Jónasson og I.A. Sigurðsson. 2008. The three igneous rock series of Iceland. Jökull 58: 117–138, ásamt uppfærslum.