Sjávardýr

Þekktar eru um ein milljón dýrategunda (Animalia) í heiminum og þar af eru rúmlega 170.000 sjávardýr, eða aðeins um 25% tegundanna. Varlega áætlað er heildarfjöldi dýrategunda jarðar þó margfalt meiri, eða um 7,7 milljónir og þar af eru sjávardýr um 2,1 milljón. Þótt tegundir sjávar séu aðeins um fjórðungur af tegundafjölda jarðar, þá tilheyra þau nánast öllum helstu 35 fylkingum og meginhópum dýraríkisins. Dýrategundir á landi og í ferskvatni tilheyra hinsvegar aðeins um helmingnum af fylkingum og helstu hópum dýraríkisins, en samt eru landdýr um 75% allra dýrategunda jarðar. Þar munar mest um skordýr (Insecta), sem eru um helmingur allra þekktra dýrategunda sem lifa á landi eða í ferskvatni.

Innan íslenskrar efnahagslögsögu eru þekktar rúmlega 2.500 tegundir sjávardýra, en vísast eru þær umtalsvert fleiri. Tegundafjölbreytni hinna ýmsu dýrafylkinga á Íslandsmiðum er afar misvel þekkt en fastlega má gera ráð fyrir að hlutföllin séu svipuð og á heimsvísu. Upplýsingar um ýmsar tegundir sjávardýra á Íslandsmiðum eru á vefsíðum um dýrahópa.

Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands á sjávardýrum tengjast einkum verkefninu Botndýr á Íslandsmiðum (BIOICE), sem hófst árið 1992 og stendur enn yfir. Meginmarkmiðið er að kanna hvaða tegundir dýra, annarra en hryggdýra, lifa á hafsbotni innan íslenskrar efnahagslögsögu, meta útbreiðslu þeirra og algengi. Verkefnið er fjölþjóðlegt samstarf flokkunarfræðinga meðal þeirra sem rannsaka ýmsa hópa sjávarhryggleysingja. Öflugar rannsóknir á sjávardýrum og búsvæðum þeirra fara einnig fram á Hafrannsóknastofnun og á Líffræðistofnun Háskóla Íslands.

Mora, C., D.P. Tittensor, S. Adl, A.G.B. Simpson og B. Worm 2011. How many species are there on Earth and in the ocean? PLoS Biology 9: 1–8

Lecointre, G. og H. Le Guyader 2006. The tree of life. London: Harvard University Press.

WoRMS taxon tree