Ágengar plöntur

Ísland er landfræðilega afskekkt en þrátt fyrir það berast hingað stöðugt nýjar framandi tegundir. Margar þeirra eru fluttar viljandi til landsins og notaðar í landbúnaði, garðrækt, skógrækt eða til skrauts og yndisauka. Aðrar berast hingað óviljandi með fólki og vöruflutningum.

Flestar þessara framandi tegunda hafa lítil sem engin áhrif í nýjum heimkynnum. Lítill hluti þeirra hefur orðið ágengur í nýjum heimkynnum og í þeim tilfellum valda tegundirnar breytingum á vistkerfum og ógna líffræðilegum fjölbreytileika. Einnig geta þær valdið verulegu umhverfislegu, efnahagslegu eða heilsufarslegu tjóni. Þær ágengu tegundir sem hafa náð fótfestu hérlendis eru jafnt og þétt að leggja undir sig ný landsvæði og valda bæði almenningi og stjórnvöldum sífellt auknum áhyggjum.

Tvær tegundir æðplantna og ein mosategund hafa verið skilgreindar ágengar á Íslandi. Alaskalúpína (Lupinus nootkatensis) var flutt inn til landgræðslu og skógarkerfill (Anthriscus sylvestris) sem garðaplanta. Þessar tegundir hafa náð mikilli útbreiðslu á landinu. Mosinn hæruburst (Campylopus introflexus) hefur borist með ferðamönnum, til dæmis neðan á skóm, og náð fótfestu á jarðhitasvæðum.

Samkvæmt reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda  nr. 583/2000 er óheimilt að flytja inn eftirfarandi plöntutegundir: Azolla filiculoides, Bunias orientalis (rússakál), Elodea canadensis (vatnapest), Fallopia japonica, Fallopia sachalinensis, Galinsoga quadriradiata, Heracleum persicum (húnakló), Heracleum mantegazzianum (bjarnarkló), Heracleum sp., Impatiens parviflora (snuddulísa), Petasites hybridus (hrossafífill), Senecio inaequidens, Solidago canadensis (kanadagullhrís), Solidago gigantea og Spartina anglica. Einnig er óheimilt að að rækta útlendar tegundir á friðlýstum svæðum, á landslagsgerðum er njóta sérstakrar verndar og alls staðar ofan 400 metra hæðar yfir sjó.

Hingað hafa einnig borist ýmsar aðrar tegundir sem reynst hafa mjög ágengar og erfiðar viðfangs í öðrum löndum. Ber sérstaklega að nefna risahvannir (Heracleum) sem eru stórvaxnar og breiðumyndandi sveipjurtir sem geta valdið heilsufarslegu tjóni. Þær hafa allvíða verið ræktaðar í görðum en finnast nú í auknu mæli í villtri náttúru.

Útbreiðsla

Niðurstöður rannsókna benda til að loftslagsbreytingar geti haft veruleg áhrif á útbreiðslu aðfluttra plantna á Íslandi. Tegundir sem flokkaðar hafa verið sem ágengar munu líklega hafa sterka tilhneigingu til að leggja undir sig ný svæði við hlýnun loftslags. Spár sýna að svæði með hentugu loftslagi fyrir alaskalúpínu muni stækka mjög mikið til 2050, sem getur stuðlað að landnámi tegundarinnar á stórum svæðum miðhálendisins. Á sama hátt er því spáð að svæði með hentug loftslagsskilyrði fyrir skógarkerfil muni vaxa verulega, þótt í minni mæli sé. Það mun leiða til þess, að hann leggur undir sig ný svæði, sem hann nær ekki til við núverandi aðstæður. Nánar er fjallað um þetta í grein Pawel Wasowicz og fleiri: Alien vascular plants in Iceland: Diversity, spatial patterns, temporal trends, and the impact of climate change.

Aðgerðir

Aukin vitund er fyrir áhrifum ágengra tegunda hér á landi, bæði á meðal almennings og opinberra aðila. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðsla ríkisins hafa að undirlagi umhverfisráðherra unnið að því að finna leiðir til að draga úr neikvæðum áhrifum alaskalúpínu og skógarkerfils á náttúru miðhálendisins og friðlýstra svæða. Í skýrslunni Alaskalúpina og skógarkerfill á Íslandi: Útbreiðsla, varnir og nýting (pdf) eru lagðar fram tillögur sem miða að því að takmarka tjón af völdum tegundanna og nýta jafnframt kosti lúpínu á völdum svæðum til landgræðslu og ræktunar. Einnig hafa verið dregnar saman upplýsingar í bæklingnum Er alaskalúpina eða skógarkerfill í þínu nágrenni? (pdf) þar sem mögulegar aðgerðir eru m.a. útlistaðar.

Til að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra tegunda er starfandi samstarfsverkefni þjóða í Norður-Evrópu (NOBANIS) sem Náttúrufræðistofnun Íslands tekur þátt í fyrir Íslands hönd. Tilgangur verkefnisins er að þróa og búa til net gagnagrunna með upplýsingum um framandi tegundir í Norður-Evrópu og gera þær aðgengilegar á vefnum. Þar má meðal annars finna upplýsingar um fjölda ágengra eða mögulegra ágengra tegunda á Íslandi en við upplýsingaöflun er leitað til fjölmargra, bæði innan stofnunar og utan.

Ágengar dýrategundir.