Hlutverk og skipulag
Náttúrufræðistofnun Íslands starfar samkvæmt lögum nr. 60/1992. Meginhlutverk stofnunarinnar er að stunda undirstöðurannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins, annast skipulega heimildasöfnun um náttúru Íslands og varðveita niðurstöður og eintök í fræðilegum söfnum. Náttúrufræðistofnun Íslands býr yfir gagnabanka um náttúru landsins og hlutverk hennar er að hafa yfirsýn og veita ráðgjöf og leiðbeiningar um verndun og skynsamlega nýtingu náttúrunnar. Hún hefur einnig víðtækt vöktunar- og fræðsluhlutverk.
Starfssviði stofnunarinnar má skipta í þrjá meginflokka:
Að skrá, varðveita, flokka, rannsaka og kortleggja lífríki og jarðmyndanir landsins og skrá upplýsingar um þessa þætti í gagnagrunna.
- Að efla vísindaleg náttúrugripasöfn
- Að byggja upp gagnagrunna yfir íslenskar tegundir lífvera, steingervinga og steina
- Að kortleggja útbreiðslu lífvera, gróðurfélaga og vistgerða landsins
- Að kortleggja berggrunn og laus jarðlög landsins (jarðgrunn), þ.m.t. ofanflóð
- Að stunda grunnrannsóknir í flokkunarfræði lífvera, steingervingafræði og bergfræði
Að vakta náttúru landsins, meta verndargildi og verndarstöðu náttúruminja og leiðbeina um hóflega nýtingu náttúruauðlinda
- Að fylgjast með stofnbreytingum mikilvægra tegunda og stofna. Gera áætlun um og bera ábyrgð á kerfisbundinni vöktun lífríkis sem taki til lykilþátta líffræðilegrar fjölbreytni
- Að meta verndargildi og verndarstöðu tegunda, vistgerða og jarðminja og gefa út válista
- Að annast skráningu náttúruminja og mat á verndargildi þeirra, hafa umsjón með náttúruminjaskrá og gera tillögur um skráningar í framkvæmdaáætlun um friðlýsingar og friðun og aðrar mikilvægar náttúruminjar sem ástæða er til að friðlýsa eða friða. Endurskoða gildandi náttúruminjaskrá
- Að meta veiðiþol stofna, þörf á veiðistýringu og veita ráðgjöf til stjórnvalda þar að lútandi
Að afla, taka við og miðla upplýsingum um íslenska náttúru
- Að gefa út vandað ritað efni og kort
- Að miðla upplýsingum og fræðsluefni á netinu
- Að halda úti vandaðri safna- og upplýsingaþjónustu
- Að vera ráðgjafi, álitsgjafi og umsagnaraðili í málum er varða nýtingu náttúruauðlinda, landnotkun og náttúruvernd
- Að fylgjast með nýjungum, stefnum og straumum á fræðasviðum stofnunarinnar og kynna störf hennar innanlands og á alþjóðavettvangi