Jöklar

Jöklar þekja um 11% af flatarmáli Íslands. Stærstir eru jöklarnir á mið- og sunnanverðu landinu og er Vatnajökull þeirra mestur, um 7.900 km2 að flatarmáli og 3.000 km3 að rúmmáli. Hann er jafnframt stærstur jökla í Evrópu að rúmmáli en annar stærstur að flatarmáli. Aðrir stórir jöklar eru Langjökull (900 km2), Hofsjökull (890 km2) og Mýrdalsjökull (560 km2) og fimmti stærsti jökull landsins er Drangajökull (142 km2) á austanverðum Vestfjörðum.

Jöklar eru mesti forði heims af ferskvatni. Á Íslandi geyma þeir um tuttugufalda meðalársúrkomu landsins og við bráðnun myndi vatnið í þeim öllum duga til að hækka sjávarborð heimsins um einn sentímetra. Öll mestu vatnsföll landsins eiga upptök sín í jöklum og eru þeir uppspretta um þriðjungs vatns sem árlega fellur til sjávar á Íslandi.

Jökla má flokka á ýmsa vegu, meðal annars eftir stærð, útliti og legu í landslagi og varmabúskap.

Útlit og lega í landslagi

Hveljöklar

Hveljöklar myndast á fjöllum með sléttum toppi eða hásléttum. Sumstaðar, þar sem margir staðbundnir jöklar hafa vaxið saman við lækkandi jöklunarmörk á kuldaskeiðum síðustu 4–5 þúsund ára, ná hveljöklar yfir víðfeðm svæði. Það á við um alla stærstu jöklana á miðhálendinu, sunnanverðu landinu og Vestfjörðum. Minni hveljöklar finnast umhverfis stóru jöklana og þekja þeir þá aðeins einn fjallstopp eða hásléttu, t.d. Eiríksjökull við Langjökul og Þrándarjökull suðaustan Vatnajökuls.

Hveljöklar á Íslandi hafa allir hopað og þynnst talsvert í lotum frá lokum litlu ísaldar í lok 19. aldar. Síðan 1995 hefur hopun þessara jökla verið mikil vegna hlýnandi veðurfars sem er jöklunum óhagstætt.

Hvilftarjöklar, skálarjöklar og daljöklar

Í helstu fjalllendum landsins og í nágrenni stóru jöklanna finnst fjöldi smærri jökla, svokallaðir hvilftarjöklar, skálarjöklar og daljöklar. Þeir sitja í hvilftum, skálum og dalbotnum sem eru yfirleitt djúp form grafin í jarðlagastaflann af vatni og jöklum til forna. Undir bröttum hlíðum og hömrum dal- og skálarbotnanna er skuggsælt. Það, og aukin snjósöfnun vegna áhrifa landslagsins, gerir jöklum kleift að byggjast upp og viðhaldast á slíkum stöðum.

Á Tröllaskaga eru flestir jöklar landsins, um 150 talsins, og eru nær allir skálar- og daljöklar. Á Flateyjarskaga eru þeir um eða yfir 20 talsins og nokkrir finnast á Austfjörðum og norðanverðum Vestfjörðum. Ummerki benda til að fleiri smájöklar hafi þrifist við kaldara veðurfar á harðinda- og kuldatímabilum seinni hluta nútíma, til dæmis á „litlu ísöld“.

Margir smájöklar eru að hluta eða miklu leyti huldir urð sem hrynur úr hamrahlíðum ofan jöklanna. Urðarhulan hefur einangrandi áhrif og hlífir jökulísnum fyrir hlýindum og sólargeislun.

Vísbendingar eru um að skálar- og hvilftarjöklar í fjallendi landsins geti verið þaulsætari en hveljöklarnir við hlýnandi loftslag, þá sérstaklega þar sem urð hylur yfirborð jöklanna að hluta eða miklu leyti. Frá upphafi 20. aldar hafa nokkrir smájöklar engu að síður horfið vegna hlýnandi veðurfars, t.d. Ok vestan Langjökuls og Lambadalsskarðsfönn í botni Álftafjarðar, en leifar jökuls þar eru sífannir innan ferskra jökulgarða.

Varmabúskapur jökla

Jöklar eru stundum flokkaðir eftir varmabúskap eru þeir annað hvort þíðjöklar eða gaddjöklar.

Þíðjöklar

Íslenskir jöklar eru almennt þíðjöklar. Í þeim er hitastig íssins um frostmark og ávallt vatn í og undir jöklinum sem auðveldar aflögun íssins og ísflæði frá ákomusvæði niður á leysingasvæði jökulsins. Þíðjöklar eru algengastir í fremur mildu loftslagi þar sem snjóar marga metra á yfirborð jöklana á veturna, eins og á Íslandi, Noregi og sumstaðar í Alaska.

Gaddjöklar

Gaddjöklar eru algengir á heimskautasvæðunum og er hitastig þeirra ætíð vel undir frostmarki. Þeir aflagast og flæða mun hægar en þíðjöklar og eru auk þess frosnir við undirlag sitt. Ekki er vitað um gaddjökla á Íslandi, þó eru vísbendingar um að jökulsporðar Vatnajökuls að norðanverðu geti verið frosnir við undirlag sitt milli þess sem þeir hlaupa fram.

Afkoma og hreyfingar jökla

Snælína er hæðarlína sem skiptir jöklum í tvö meginsvæði. Ofan snælínu er ákomusvæði þar sem meiri snjór safnast en nær að leysa á sumrin. Neðan línunnar er leysingasvæði þar sem allur vetrarsnjór bráðnar og oft einhver hluti jökulíss einnig. Á íslensku hveljöklunum eru söfnunarsvæðin yfirleitt nokkurskonar hásléttur ofan 1.000–1.300 m hæðar.

Afkoma jökla stjórnast af veðurfari og getur verið jákvæð, neikvæð eða í jafnvægi og byggist hún á samspili snjósöfnunar (ákomu) og leysingar. Ef ákoma er meiri en sem nemur leysingu bætir jökull við sig massa og bregst við með því að skríða fram og auka flatarmál sitt. Ef leysing er hins vegar meiri en ákoma hörfa jöklar og þynnast. Litlir jöklar, til dæmis daljöklar og skálarjöklar, svara afkomu fljótt, en stærri jöklar, eins og Vatnajökull, bregðast yfirleitt við breyttri afkomu á nokkrum árum.

Jöklum er skipt í tvo flokka eftir því hvernig þeir hreyfast og flytja vetrarákomu niður á leysingasvæðin. Annars vegar eru þeir sem bregðast nánast jafnóðum við veðurfari og breytingum á afkomu og kallast þeir jafngangsjöklar. Hins vegar eru svokallaðir framhlaupsjöklar sem hopa stöðugt um langt árabil en hlaupa svo skyndilega fram án þess að loftslag gefi sérstakt tilefni til.

Jafngangsjöklar

Jafngangsjöklar bregðast nær jafnharðan við breyttu veðurfari (afkomu). Þannig hopa þeir og þynnast þegar afkoma þeirra er neikvæð og bæta við sig þegar afkoman er jákvæð. Í jafngangsjöklum er stöðugt ísflæði sem flytur snjó og ís jafnóðum frá ákomusvæðum í stað þess að hann safnast þar upp líkt og í framhlaupsjöklum. Skriðjöklar ganga út úr jökulhvelunum og flytja  ísinn oft langt niður fyrir snælínu jöklanna, þar sem hann bráðnar á endanum.

Framhlaupsjöklar

Framhlaupsjöklar bregðast ekki jafnóðum við breytingum í veðurfari og afkomu jöklanna, ólíkt jafngangsjöklum. Í staðin hopa þeir áratugum saman á meðan snjór og ís byggist upp á safnsvæði þeirra og eru þá sagðir vera í kyrrfasa. Í kyrrfasanum hækkar yfirborð efri hluta jökulsins vegna uppsöfnunar íss og snævar og á sama tíma þynnist neðri hluti jökulsins vegna leysingar. Þetta eykur yfirborðshalla jöklanna smám saman uns ákveðnum þolmörkum er náð, þá stendur jökullinn ekki lengur undir eigin bratta og hleypur fram með látum. Oft hlaupa jöklarnir fram um hundruð metra og jafnvel nokkra kílómetra en framhlaupin taka aðeins nokkra mánuði til örfárra ára. Þetta gerist án nokkurs sérstaks tilefnis í veðurfari á þeim tímapunkti heldur vegna uppsöfnunar íss og snævar á ákomusvæði jökulsins.

Brúarjökull í norðanverðum Vatnajökli er einn stærsti framhlaupsjökull landsins. Framhlaup hans þykja stórkostleg, hann hleypur nokkra kílómetra á örfáum mánuðum, eða yfir 100 metra á dag þegar mest lætur, á um 70–90 ára fresti. Á Tröllaskaga eru hinsvegar einir allra minnstu framhlaupsjöklar í heimi, Búrfellsjökull, Teigarjökull og Vífilsjökull. Framhlaup þeirra ganga mun hægar fyrir sig, þau vara í nokkur ár og verða á 45–60 ára fresti.