Vistgerðir

Vistgerð er landeining sem býr yfir ákveðnum eiginleikum hvað varðar gróður, dýralíf, jarðveg og loftslag. Innan sömu vistgerðar eru aðstæður með þeim hætti að þar þrífast svipuð samfélög plantna og dýra.

Flokkaðar og skilgreindar eru vistgerðir á landi, í ferskvatni og í fjöru. Útbreiðsla og algengi þeirra getur verið misjöfn milli landshluta en aðrar eru algengar og einkennandi fyrir landið í heild sinni.

Með flokkun lands í vistgerðir fæst yfirlit yfir sérstæðar og sjaldgæfar vistgerðir, einkenni þeirra og útbreiðslu. Vistgerðir gefa því mikilvægar upplýsingar um verndargildi lands og eru veigamiklar undirstöðueiningar um vernd og nýtingu náttúrunnar. Flokkun lands í vistgerðir er mikilvæg við gerð skipulagsáætlana, mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og við ákvarðanir um landnotkun, svo sem við náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu.

Flokkun vistgerða byggist bæði á EUNIS-flokkunarkerfinu, sem er samevrópskt heildstætt kerfi til flokkunar vistgerða, og á ályktun Bernarsamningsins nr. 4 frá árinu 1998 (Emerald Network) sem lýsir vistgerðum í Evrópu sem mikilvægt er að vernda. Auk þess er tekið tillit til íslenskra aðstæðna því að hér á landi eru vistgerðir sem ekki finnast á meginlandi Evrópu, til dæmis mosavaxnar hraunbreiður og vistgerðir á jarðhitasvæðum.

Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 54, Vistgerðir á Íslandi (pdf)

Vistgerðakort

Vistgerðalykill Náttúrufræðistofnunar Íslands: I. Vistgerðir á landi (pdf, A4)

Vistgerðalykill Náttúrufræðistofnunar Íslands: I. Vistgerðir á landi (pdf, A5)

Rannsóknir á vistgerðum á Íslandi

Náttúran flokkuð í vistgerðir – Umfjöllun um hvað vistgerðir eru og hvers vegna landið er flokkað í vistgerðir (sýnt í Landanum 14.10.2018).