Fjallkjói (Stercorarius longicaudus)

Útbreiðsla

Fjallkjói verpur í heimskautslöndunum á norðurhveli og hefur vetursetu í suðurhöfum. Læmingjar eru kjörfæða á varpstöðvum og er því viðkoman afar misjöfn og í takti við sveiflur á læmingjastofnum. Fjallkjói fer hér um vor og haust og hafa fuglar oft sést inn til landsins (Bliki 1981-, Gunnlaugur Pétursson 1993, Gunnlaugur Pétursson og Gunnlaugur Þráinsson 1999) enda virðast fjallkjóar iðulega fljúga hér skemmstu leið yfir. 

Stofnfjöldi

Varp var staðfest á Norðurlandi árið 2003 en fuglar höfðu sést á þeim stað um árabil (Daníel Bergmann 2008). Síðan hafa 1-3 pör sést á óðulum og stundum orpið (Bliki 1981-, Jóhann Óli Hilmarsson 2011-). Auk þess hefur varp verið staðfest á Vestfjörðum (Yann Kolbeinsson, óbirt gögn).

Válistaflokkun

VU** (í nokkurri hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
VU** LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 8,19 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1999-2024

Afar fáir fjallkjóar verpa á Íslandi. Stofninn er innan við 50 kynþroska einstaklingar og ætti því að teljast í bráðri hættu (CR). Fjallkjói er hér er færður niður um tvo flokka samkvæmt leiðbeiningum IUCN vegna þess að ekki er hægt að tala um einangraðan stofn sem er að auki <1% Evrópustofns og eins eru miklar líkur á að hann gæti numið land hér að nýju. Fjallkjói telst því í nokkurri hættu (VU).

Viðmið IUCN: (D)

D. Stofn mjög lítill eða takmarkaður.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Fjallkjói var ekki á válista.

Válisti 2018: Fjallkjói var í nokkurri hættu (VU).

Verndun

Fjallkjói er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Mikilvæg svæði

IBA viðmið – IBA criteria:

Óljós/uncertain.

Heimildir

Daníel Bergmann 2008. Sjaldgæfir varpfuglar. Fjallkjói. Fuglar 5: 28-31.

Bliki: Tímarit um fugla 1981- . Sjaldgæfir fuglar á Íslandi. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands.

Gunnlaugur Pétursson 1993. Flækingsfuglar á Íslandi: Kjóar. Náttúrufræðingurinn 63:253-273.

Gunnlaugur Pétursson og Gunnlaugur Þráinsson 1999. Sjaldgæfir fuglar á Íslandi fyrir 1981. – Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 37. 246 bls.

Jóhann Óli Hilmarsson 2011- . Sjaldgæfir varpfuglar.  Fuglar, nr 8 og áfram.

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Aldís Erna Pálsdóttir mars 2025

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Seildýr (Chordata)
Flokkur (Class)
Fuglar (Aves)
Ættbálkur (Order)
Strandfuglar (Charadriiformes)
Tegund (Species)
Fjallkjói (Stercorarius longicaudus)

English Summary

Stercorarius longicaudus is passage migrant and a recent and very rare breeding bird in Iceland with 1-3 territories beeing occupied annually. No IBAs are designated for this species.

Icelandic Red list 2018: Vulnerable (VU, D). Not applicable (NA) in 2000.