Toppskarfur (Phalacrocorax aristotelis)

Útbreiðsla

Heimkynni toppskarfs eru að mestu í Evrópu. Hér verpur hann nær eingöngu vestanlands, frá Krýsuvíkurbergi norður og vestur um í Húnaflóa, langmest þó í Breiðafirði (sjá kort). Toppskarfur er alger staðfugl.

Stofnfjöldi

Stofninn var um 5.800 pör árið 2024 og hefur sveiflast nokkuð (Guðmundur A. Guðmundsson 2024, Arnþór Garðarsson og Ævar Petersen 2009).

Válistaflokkun

NT (í yfirvofandi hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
NT LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 8,9 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1997-2024

Toppskarfsstofninn hefur verið metinn með því að telja nær öll varppör (hreiður) af og til frá 1975 (Arnþór Garðarsson og Ævar Petersen 2009). Á þessu tímabili hefur stofninn sveiflast nokkuð en minnkaði stöðugt frá 1994 þegar hreiðrin voru flest eða um 7.100. Árið 2024 fundust 5912 hreiður (Guðmundur A. Guðmundsson 2024) og hefur þeim því fækkað um 16% eða um 0,7% á ári á þessum 30 árum sem er aðeins lengra tímabil en sem nemur þremur kynslóðum (27 ár). Vetrarvísitala sýnir auk þess nokkuð mikla aukningu frá því um aldamót (sjá graf). Toppskarfur telst því í yfirvofandi hættu (NT). 

Viðmið IUCN: 

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Toppskarfur var ekki í hættu (LC).

Válisti 2018: Toppskarfur var í nokkurri hættu (VU)

Verndun

Toppskarfur er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggja- eða ungataka toppskarfs taldist til hefðbundinna hlunninda 1. júlí 1994, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að veiðirétthafi megi nytja þau hlunnindi eftirleiðis.

Samkvæmt reglugerð 456/1994 er heimilt er að veiða toppskarf frá 1. september til 15. mars.

Mikilvæg svæði

Eitt svæði hér telst alþjóðlega mikilvægt fyrir toppskarf (Breiðafjörður), en nær allur stofninn (um 99%) verpur á mikilvægum fuglasvæðum (sjá töflu).

IBA viðmið – IBA criteria:

A4 i: heimsstofn/global = 769 pör/pairs (Wetlands International 2016)

B1 i: N-Evrópa = 673 pör/pairs (BirdLife 2016c)

Töflur

Toppskarfsvörp á mikilvægum fuglasvæðum á Íslandi – Colonies of Phalacrocorax aristotelis in important bird areas in Iceland.*

Svæði
Area
Svæðisnúmer
Area code
Árstími
Season
Fjöldi (pör)
Number (pairs)
Ár
Year
% af íslenskum stofni
% of Icelandic popul.
Alþjóðlegt mikilvægi
International importance
Borgarfjörður–Löngufjörur SF-V_6 B 556 2007 11,3  
Breiðafjörður  SF-V_8 B 4.117 2007 84,0 A4i, B1i
Látrabjarg  SF-V_13 B 124 2007 2,5  
Önnur mikilvæg svæði
Other important areas
  B 64   1,3  
Alls–Total     4.861   99,2  
*byggt á Arnþór Garðarsson og Ævar Petersen 2009.

Myndir

Heimildir

Arnþór Garðarsson og Ævar Petersen 2009. Íslenski toppskarfsstofninn. Bliki 30: 9–26.

BirdLife International 2016. IUCN Red List for birds. http://www.birdlife.org [skoðað 20.10.2016].

Guðmundur A. Guðmundsson 2017. Skarfatal 2017. Framvinduskýrsla. Náttúrufræðistofnun Íslands, 3 bls.

Guðmundur A. Guðmundsson 2024. Vöktun skarfa 2024. Greinagerð, Náttúrufræðistofnun. Sótt 10. Mars af:  https://www.ni.is/sites/default/files/2024-12/greinargerdir_ni_skarfavoktun-2024.pdf

Wetlands International 2016. Waterbird Population Estimates. http://wpe.wetlands.org/search [skoðað 26. nóvember 2016].

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Aldís Erna Pálsdóttir mars 2025

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Seildýr (Chordata)
Flokkur (Class)
Fuglar (Aves)
Ættbálkur (Order)
Storkfuglar (Ciconiiformes)
Tegund (Species)
Toppskarfur (Phalacrocorax aristotelis)

English Summary

Gulosus aristotelis is a rather rare breeding bird in W-Iceland with 4,900 pairs in 2007; the main breeding area (Breiðafjörður) is designated IBA for this species and almost all the population breeds within IBAs.

Icelandic Red list 2025: Near threatened (NT).