Svartburkni (Asplenium trichomanes)

Útbreiðsla

Svartburkninn er afar sjaldgæfur, finnst aðeins á fjórum stöðum á landinu. Svartburkni var fyrst greindur með vissu hér á landi árið 1961, en Hálfdán Björnsson hafði fundið hann í Skaftafelli nokkrum árum áður. Síðar hefur hann fundist á tveim stöðum undir Eyjafjöllum. Mest virðist vera af honum í Núpakoti undir Eyjafjöllum, þar sem hann vex á 200-250 m löngu svæði meðfram klettunum.Ýmislegt bendir þó til þess, að Axel Mörch hafi safnað svartburkna í Búðahrauni árið 1821, en engin eintök eru til í söfnum sem staðfesta það. Svartburkni hefur heldur ekki fundist síðar í Búðahrauni, þótt leitað hafi verið að honum. Fundarstaðir svartburknans eru frá láglendi upp í 160 m hæð. Á Núpakoti gæti hann þó vel náð miklu hærra upp í Núpinn án þess að vitað sé, en hann er um 600 m hár.

Almennt

Miðstrengurinn er áberandi dökkbrúnn eða svartur, og þar af kemur nafnið.

Búsvæði

Svart­burkninn vex einkum í klettaskorum eða skuggsælum rifum, utan í bröttum eða þverhnýptum klettum eða jafnvel neðan á hellisloftum. Hann getur bæði verið á allþurrum stöðum móti sól, eða nokkrum raka í hálfskugga.

Lýsing

Smávaxinn burkni (8–16 sm) með fjöðruðum blöðum og tennt, egglaga smáblöð.

Blað

Upp af stuttum, uppsveigðum jarðstöngli svartburknans vex toppur af einfjöðruðum, vetrargrænum blöðum sem eru 5-10 sm á lengd og 7-12 mm á breidd. Þau sitja á stilk sem getur verið fimmtungur til þriðjungur af heildarlengd blaðsins. Blaðstilkurinn er dökkbrúnn og gljáandi, hárlaus en ofurlítið grópaður, og sömuleiðis miðstrengur blaðsins sem er í beinu framhaldi af stilknum. Hliðarsmáblöðin eru 10-24 á hvorri hlið, egglaga eða sporbaugótt, nánast stilklaus, ofurlítið tennt, 4-5 mm á lengd.

Blóm

Gróblettir eru á neðra borði smáblaðanna, smáir, aflangir, fjórir til átta í tveim röðum sitt hvoru megin á hverju smáblaði. Hvítleit, himnukennd gróhula er fest til hliðar á hverjum gróbletti, vel þroskuð og stendur lengi eftir að gróin þroskast.

Greining

Líkist klettaburkna en grænn miðstrengur hans greinir hann frá (Hörður Kristinsson 1998).

Válistaflokkun

EN (tegund í hættu)

ÍslandHeimsválisti
EN NE

Forsendur flokkunar

Svartburkni flokkast sem tegund í hættu þar sem stofninn er talinn lítill og telji færri en 250 fullþroska einstaklinga. Þekktir eru fjórir fundarstaðir á sunnan og suðaustanverðu landinu.

Viðmið IUCN: D

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Svartburkni er á válista í hættuflokki EN (í hættu).

Válisti 1996: Svartburkni er á válista í hættuflokki EN (í hættu).

Verndun

Svartburkni er friðaður samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978 um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda.

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Hörður Kristinsson. 1998. Íslenska plöntuhandbókin: blómplöntur og byrkningar (2. útg., texti óbreyttur frá 1986). Íslensk náttúra II. Mál og menning, Reykjavík.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Burknar (Polypodiopsida)
Ætt (Family)
Klettaburknaætt (Aspleniaceae)
Tegund (Species)
Svartburkni (Asplenium trichomanes)