Blóðkollur (Sanguisorba officinalis)

Útbreiðsla

Vex villt upp til heiða á Suðvesturlandi, annars aðeins sem slæðingur í þéttbýli (Hörður Kristinsson 1998).

Almennt

Ættkvíslarheitið Sanguisorba er dregið af latnesku orðunum sanguis sem þýðir blóð og sorbere sem þýðir að drekka í sig (Lid og Lid 2005). Nafnið blóðdrekkur var notað á þessa tegund á fyrri hluta 19. aldar en nú hefur nafnið blóðkollur nær alveg tekið yfir en það er líklega frá Stefáni Stefánssyni grasafræðingi komið (Jóhann Pálsson 1999). Tegundarheitið officinalis er vísun í að jurtin hafi lækningamátt (Lid og Lid 2005).

Nytjar

Blóðkollur hefur verið mikið notaður til lækninga í gegnum aldirnar en eins hafa blöð og sprotar verið nýttir til matar. Hann þykir gefa góða raun gegn bólgum og særindum, sérstaklega í meltingarvegi, munni og legggöngum. Hann er barkandi og gott er að leggja hann á sár til að stöðva blæðingar og blóðkollsduft er gott að sjúga upp í nefið til að stöðva blóðnasir (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Blóðkollur inniheldur m.a. barksýrur, ilmolíur, flavona og C-vítamín (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Grónar brekkur í giljum og utan í börðum (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Meðalhá planta (15–50 sm) með stakfjöðruðum blöðum og rauðum blómkolli. Blómgast í júlí.

Blað

Plönturnar standa vel aðgreindar og eru aldrei mjög miklar að umfangi (Jóhann Pálsson 1999). Stöngullinn gáróttur, blöðin stakfjöðruð, oft með þrem til sex smáblaðpörum, smáblöðin hárlaus, ljósblágræn á neðra borði (Hörður Kristinsson 1998), dökkgræn ofan (Jóhann Pálsson 1999), grófsagtennt, snubbótt í endann, stuttstilkuð með hjartalaga grunni (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin standa mörg saman í þéttum hnappi, 1–3 sm löngum og 1 sm breiðum á stöngulendanum, yfirsætin. Krónublöðin dumbrauð, oddbaugótt, 3–4 mm löng. Bikarblöðin ljósbrún. Fræflar fjórir. Ein fræva með bognum stíl (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Kann að minna á höskoll en auðvelt er að greina tegundirnar í sundur á blöðunum. Smáblöð á jarðstöngli blóðkollsins eru á 4–10 mm löngum stilk en aðeins á 1–4 mm löngum stilk á höskolli, auk þess eru þessi smáblöð blóðkollsins lítið eitt hjartalaga en svo gott sem þver á höskolli. Að auki er litur blaðanna og vaxtarform tegundanna nokkuð ólíkt.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Rósaætt (Rosaceae)
Tegund (Species)
Blóðkollur (Sanguisorba officinalis)