Mýramaðra (Galium palustre)

Útbreiðsla

Afar sjaldgæf tegund á Íslandi, hefur aðeins fundist á tveimur stöðum í Flóanum. Ekki er ljóst hversu lengi hún hefur verið í landinu, gæti hugsanlega hafa borist hingað á síðari öldum.

Búsvæði

Blautar mýrar. Vex innan um hávaxin grös og starir.

Lýsing

Smávaxin planta (10–40 sm) með hvítum, fjórdeildum blómum og fjórblaða kransi.

Blað

Blöðin eru í 4-6 blaða krönsum, lensulaga, snubbótt eða sljóydd, með einum blaðstreng í miðju, tvö gagnstæð blöð lengri en hin tvö, blaðrendurnar lítið eitt broddhærðar. Stöngullinn er ferstrendur, broddhærður á köntunum.

Blóm

Blóm mýramöðrunnar eru hvít, standa allmörg saman í blómskipunum úr blaðöxlum efri blaða. Krónan er samblaða, oftar fjórdeild en þrídeild, klofin langt niður, 2-3 mm í þvermál, með útstæðum flipum. Fræflar eru fjórir, ein fræva með klofnum stíl.

Greining

Minnir einkum á þrenningarmöðru en er þó töluvert stærri, með fjögur til sex blöð í kransi og með hvítum, oftar fjórdeildum en þrídeildum blómum. Þekkist frá krossmöðru á blöðunum sem eru með einum aðalstreng eftir miðju laufblaðinu.

Válistaflokkun

CR (tegund í bráðri hættu)

ÍslandHeimsválisti
CR LC

Forsendur flokkunar

Stofn mýramöðru er mjög lítill, einungis eru þekktir tveir fundarstaðir hennar og virðist hún horfin af öðrum þeirra og útbreiðslusvæði hennar er afar lítið.

Viðmið IUCN: B1; B2b(ii,iii,v); C2a(i); D

B1. Útbreiðsla áætluð minni en 100 km2
B2. Dvalar- eða vaxtarsvæði áætlað minna en 10 km2 og mat bendir til að
b. Stofn hefur sífellt minnkað samkvæmt athugun, ályktun eða áætlun eftirfarandi þátta;
(ii) dvalar- eða vaxtarsvæðis,
(iii) stærðar, umfangs og/eða gæða búsvæðis,
(v) fjölda fullþroska einstaklinga.

C. Stofn talinn minni en 250 fullþroska einstaklingar og
C2. Fullþroska einstaklingum hefur fækkað samfellt samkvæmt athugun, áætlun eða ályktun OG
(a) Stofngerð þannig að;
(i) enginn undirstofn sé talinn stærri en 50 fullþroska einstaklingar.

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Mýramaðra er á válista í hættuflokki CR (í bráðri hættu).

Válisti 1996: Mýramaðra er á válista í hættuflokki CR (í bráðri hættu).

Verndun

Mýramaðra er friðuð samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978 um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ætt (Family)
Möðruætt (Rubiaceae)
Tegund (Species)
Mýramaðra (Galium palustre)