Snjótittlingur (Plectrophenax nivalis)

Útbreiðsla

Snjótittlingur er afar útbreiddur nyrst á hnettinum og hér verpur hann víða og er tiltölulega algengur varpfugl, einkum á hálendinu og á annnesjum. Íslenskir fuglar teljast til sérstakrar deilitegundar (Plectrophenax nivalis insulae) og virðast vera staðfuglar að mestu leyti.

Stofnfjöldi

Giskað hefur verið á að íslenski snjótittlingastofninn sé 50.000−100.000 pör (Umhverfisráðuneytið 1992) en nýtt mat Náttúrufræðistofnunar er 136.000 pör (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2017). Auk íslenskra varpfugla er líklegt að grænlenskir snjótittlingar hafi hér vetursetu og eins fara þeir hér um á leið sinni til og frá vetrarstöðvum á Bretlandseyjum. Snjótittlingum hefur greinilega fækkað í lágsveitum eftir aldamótin 2000, t.d. suðvestanlands og sums staðar á hálendinu, svo sem í Veiðivötnum (Örn Óskarsson, óbirt heimild). Staðfugl að mestu en hingað koma og fara um fuglar frá Grænlandi og e.t.v. víðar.

Dreifing og þéttleiki eftir vistlendum: Snjótittlingur er útbreiddasti mófugl landsins og er talinn verpa í 1.056 af tæplega 1.200 reitum (sjá kort). Reiknaður stofn er 136.000 pör og eru aðeins 17% stofnsins á láglendi (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2017). Á láglendi er mestur þéttleiki í skriðuvistum, 6,9 pör/km², og mosavistum, 2,2 pör/km². Á hálendi er þéttleiki mestur í hraunavistum, 5,9 pör/km², og mosavistum, 2,5 pör/km². Melavistgerðir eru engu að síður mikilvægastar á hálendinu sökum víðáttu. Við útreikninga var notuð hefðbundin flokkun vistgerða í vistlendi og þar var eyðihraunavist tekin með öðrum hraunavistum. Þessi aðferð ofmetur stofnstærð, gefur skekkta mynd á útbreiðslukorti og gerir mikilvægi Ódáðahrauns t.d. alltof mikið fyrir snjótittling. Að sama skapi virðist nánast ekkert snjótittlingsvarp í Breiðafjarðareyjum. Þeir eru þó víða allalgengir þar en engar mælingar voru gerðar í þeim vistgerðum sem eru ríkjandi þar, m.a. sjávarkletta- og eyjavist. Um 18% snjótittlinga reiknast innan mikilvægra fuglasvæða (sjá töflu).

Válistaflokkun

VU (í nokkurri hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
VU LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 2,6 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir eða 10 ár hvort sem er lengra): 2014–2024

Snjótittlingar eru lítið sem ekkert vaktaðir á varpstöðvum hér á landi. Þó hefur verið fylgst með snjótittlingum um áratugaskeið í Flatey á Breiðafirði og þar hefur þeim fækkað mikið á síðustu árum (Sverrir Thorstensen, munnlegar upplýsingar). Sömu sögu er að segja úr Veiðivötnum (Örn Óskarsson, munnlegar upplýsingar) og víðar í hálendinu (Einar Ó. Þorleifsson, munnlegar upplýsingar). Þessi þróun virðist hafa staðið frá því um aldamót. Snjótittlingar eru einnig horfnir víða sem varpfuglar á Suðvesturlandi, svo sem í sjávarklettum á Innnesjum (Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirtar upplýsingar). Rannsóknir af hálendinu við Þórisvatn, Kvíslarveitur og á Kili hafa sýnt mikla fækkun frá því um aldamót. Bæði var talið í náttúrulegum búsvæðum og þar var árleg fækkun 5% og í stíflugörðum en þar var fækkunin minni eða um 2% á ári (Böðvar Þórisson o.fl. 2023). Þótt litlar tölulegar upplýsingar liggi fyrir er því ekki vafa undirorpið að snjótittlingum hefur víða fækkað hér á landi. Vísitölur vetrafuglatalninga Náttúrufræðistofnunar sýna miklar sveiflur en nokkuð samfellda fækkun á viðmiðunartímabilinu (2014–2024) sem nemur um 36% eða 4% á ári (sjá graf). Samkvæmt þessu er snjótittlingur flokkaður sem tegund í nokkurri hættu (VU, A2abc).

Viðmið IUCN: A2abc

A2. Fækkun í stofni ≥30% á síðustu 10 árum eða síðustu þremur kynslóðum, hvort sem er lengra, þar sem fækkunin eða orsakir hennar hafa ekki stöðvast EÐA eru óþekktar EÐA eru óafturkræfar; byggt á athugun, mati, ályktun eða grun samkvæmt eftirtöldum atriðum:
(a) beinni athugun,
(b) stofnvísitölu sem hæfir tegundinni,
(c) samdrætti á dvalar- eða varpsvæði, útbreiðslusvæði og/eða hnignun búsvæðis.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Snjótittlingur var ekki í hættu (LC).

Válisti 2018: Snjótittlingur var í nokkurri hættu (VU).

Verndun

Snjótittlingur er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Mikilvæg svæði

Engin mikilvæg svæði eru skilgreind fyrir snjótittling á Íslandi.

IBA viðmið – IBA criteria:

A3: Biome restricted species (Arctic)

Töflur

Reiknaður fjöldi snjótittlinga sem gæti orpið á þeim mikilvægu fuglasvæðum þar sem >1% íslenska stofnsins er að finna – Calculated number of breeding Plectrophenax nivalis within important bird areas with >1% of the Icelandic population.*

Svæði
Area
Svæðisnúmer
Area code
Árstími
Season
Fjöldi (pör)
Number (pairs)
Ár
Year
% af íslenskum stofni
% of Icelandic popul.
Alþjóðlegt mikilvægi
International importance
Arnarvatnsheiði VOT-N_1 B 2.424 2013 1,8  
Vatnajökulsþjóðgarður VOT-N_15 B 13.711 2013 10,1  
Jökuldalsheiði VOT-A_2 B 1.490 2013 1,1  
Suðurlandsundirlendi VOT-S_3 B 2.324 2013 1,7  
Önnur mikilvæg svæði
Other important areas
  B 4.167 2013 3,1  
Alls–Total     24.116   17,7  
*byggt á Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn

Myndir

Heimildir

Böðvar Þórisson, Aldís Erna Pálsdóttir og Tómas G. Gunnarsson (2023). Vöktun snjótittlings við Þórisvatn, Kvíslaveitur og á Kili. Landsvirkjun (LV-2023-059).

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage 2016. Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. rafræn útgáfa leiðrétt í nóvember 2017. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf.

Umhverfisráðuneytið 1992. Iceland: national report to UNCED. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Aldís Erna Pálsdóttir mars 2025

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Seildýr (Chordata)
Flokkur (Class)
Fuglar (Aves)
Ættbálkur (Order)
Spörfuglar (Passeriformes)
Tegund (Species)
Snjótittlingur (Plectrophenax nivalis)

English Summary

The Plectrophenax nivalis population in Iceland is estimated 136,000 pairs, based on measured densities in different habitat types and known and probable distribution; 18% may nest in IBAs designated for other species, but such areas are specifically designated for this species.

Icelandic Red list 2025: Vulnerable (VU, A2abc).