Víðiglytta (Phratora polaris)

Útbreiðsla

Norður-Evrópa, Alpafjöll, Norður-Skotland. Einnig Kanada og Síbería.

Ísland: Um land allt.

Lífshættir

Víðiglytta lifir á víðilaufum, bæði fullorðin dýr og lirfur. Þegar víðirunnar laufgast á vorin vakna fullorðnar bjöllur af vetrardvala, makast og verpa á laufin. Hefst þá uppvöxtur lirfa sem púpa sig síðsumars í mosa. Bjöllur nýrrar kynslóðar skríða úr púpum og leggjast í vetrardvala inni í púpuhýðunum. Víðiglytta finnst einkum á heiðum uppi, allt upp í hæstu hæðir. Grasvíðir (Salix heracea) er aðal fæðuplanta víðiglyttu einkum þar sem runnarnir vaxa í þéttri mosaþembu (Racomitrium). Fullorðnar bjöllur naga laufin á efra borði en lirfurnar á neðra borði. Stundum má sjá glögg ummerki síðsumars þar sem mikið hefur verið af víðiglyttum. Sjá má breiður af grasvíði með uppétum sölnuðum laufblöðum.

Almennt

Víðiglytta er norðræn tegund sem er tiltölulega lítið vitað um. Hún virðist vera hve algengust í Skandinavíu og í Alpafjöllum, sjaldgæf nyrst í Skotlandi og hefur fundist norðarlega í Síberíu og Kanada. Ekki er ósennilegt að víðiglyttan lifi víðast hvar á hánorrænum slóðum umhverfis norðurhvel, að hún hafi einfaldlega yfirsést. Á miðhálendi Íslands er hún algeng í mosaþembum og snjódældum með grasvíði. Í Þjórsárverum hafa víðiglyttur fundist í hreiðrum heiðagæsa á vorin þar sem þær hafa leitað skjóls.

Víðiglytta (4 mm) er smávaxin, kubbsleg, tvöfalt lengri en breið, ávöl að framan og aftan og kúpt yfir bak. Hún er fallega grængljáandi og slær gljáinn stundum yfir í blátt eða fjólublátt. Hún er mjög lík asparglyttu, ívið minni og má annars helst aðgreina þær á lítilfjörlegum mun á fálmurum. Lirfurnar eru einnig áþekkar. Hafa má í huga að víðiglyttan finnst nær eingöngu á heiðum uppi á grasvíði sem vart nær upp úr mosanum en asparglyttan á láglendi uppi á gróskumiklum víðirunnum.

Útbreiðslukort

Heimildir

Erling Ólafsson 2000. Landliðdýr í Þjórsárverum. Rannsóknir 1972–1973. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 40. 159 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

UK Beetle Recording. Phratora polaris. (http://www.coleoptera.org.uk/species/phratora-polaris)

Höfundur

Erling Ólafsson 18. febrúar 2019.

Biota

Tegund (Species)
Víðiglytta (Phratora polaris)