Sóttarlöpp (Dilophus femoratus)

Útbreiðsla

Evrópa til N-Skandinavíu, Bretland, Færeyjar; norðanverð Asía til Kyrrahafs, N.-Afríka.

Ísland: Algeng á láglendi um land allt, fágæt á miðhálendinu, í V-Skaftafellssýslu upp að Lakagígum, Blánípuver á Kili.

Lífshættir

Sóttarlöpp finnst í margskonar þurrlendi, einkum blómlendi, valllendi og mólendi, einnig húsagörðum. Flugurnar sækjast eftir blómasafa og troða sér gjarnan margar saman ofan í sama blómið, t.d. körfu túnfífils (Taraxaxum). Lirfurnar lifa á rotnandi plöntuleifum í rökum jarðvegi. Flugurnar eru á ferli frá fyrrihluta júní og fram í byrjun ágúst, í langmestum fjölda frá miðjum júní til miðbiks júlí. Ekki er kunnugt um hvernig háttar til með vetrardvala sem fer þó að líkindum fram á púpustigi.

Almennt

Sóttarlöpp er ein þriggja íslenskra tegunda af hármýsætt (Bibionidae). Þeirra kunnust og stærst er án efa galdralöpp (Bibio pomonae). Sóttarlöpp, einnig kölluð sóttarfluga, er afar algeng á láglendi um land allt og sækir hún stundum í miklum fjölda í körfur túnfífla sem þá iða af flugunum sem troða sér niður í þær eftir blómasafanum. Þær eru silalegar og hafa lítt fyrir því að forða sér þó blómin séu tínd í vendi.

Sóttarfluga hefur grannan, svartan búk og skínandi glæra vængi sem glampar á í sólskini. Karlflugur eru mun grennri og fíngerðari en kvenflugur og auk þess með miklu stærri augu sem ná yfir mest allt höfuðið.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um uppruna heitisins sóttarfluga og skírskotun heitisins til þessarar tegundar, en það gæti verið gamalt og án efa tengt þjóðtrú tengdri áföllum í heilsufari þjóðarinnar. Í Íslenskri orðabók Menningarsjóðs 1988 kemur heitið fyrir í þessu samhengi. Einnig er þar, svo og í eldri útgáfu (1963), getið um sóttarfiðrildi, sem á væntanlega við um þistilfiðrildi (Vanessa cardui). Bjarni Sæmundsson (1931) ritar: „Þess er stundum getið í annálum, að mikið hafi sézt hér af bleikum fiðrildum eða flugum, sem menn nefndu „sóttarflugur“, af því að þeir trúðu því, að þær flyttu með sér eða boðuðu drepsóttir.“ Ef til vill mætti leita skýringar á sóttarflugu til hins nána ættingja, galdralapparinnar, sem í sumum árum kviknar í meiri fjölda en menn eiga að venjast. Þær hafa rauðleita hangandi fætur sem mönnum hefur sennilega, ekki síður fyrr en nú, staðið stuggur af og því talið sig hafa fulla ástæðu til að tengja ógæfu.

Útbreiðslukort

Heimildir

Bjarni Sæmundsson 1931. Þistilfiðrildaganga sumarið 1931. Náttúrufræðingurinn 1: 186–188.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 12. maí 2010

Biota

Tegund (Species)
Sóttarlöpp (Dilophus femoratus)