Lúsmý (Culicoides reconditus)

Lúsmý – Culicoides reconditus
Mynd: Erling Ólafsson

Lúsmý (Culicoides reconditus), karldýr og kvendýr. 1,5 mm. ©EÓ

Lúsmý – Culicoides reconditus
Mynd: Erling Ólafsson

Sýni lúsmýs úr gildru í Kollafirði 18. júní 2019. ©EÓ

Útbreiðsla

Mið- og Norður-Evrópa austur í Rússland.

Ísland: Suðvesturland upp í Borgarfjörð og austur í Fljótshlíð.

Lífshættir

Tegundin er blóðsuga á mönnum og öðrum spendýrum, eina blóðsugan hér á landi af lúsmýsætt. Erlendis lifa margar skyldar tegundir á heitu blóði. Kvendýrin þurfa blóð til að þroska egg sín. Að öðru leyti eru lífshættir þessarar tegundar nánast óþekktir. Uppeldisstöðvar hafa ekki verið staðsettar. Flugtími er frá því snemma í júní og til loka ágúst. Ekki er vitað hvort um sé að ræða eina kynslóð yfir sumarið eða tvær en flugtíminn er langur og gæti bent til tveggja kynslóða.

Almennt

Þekking á lúsmýi hér á landi er afar takmörkuð, aðeins sex tegundir eru þekktar héðan frá fyrri tíð og hefur þeim ekkert verið sinnt í áratugi. Í lok júní 2015 fór að bera á óvæntum bitvargi í sveitum beggja vegna Hvalfjarðar. Á örfáum dögum varð fólk í sumarhúsum í Kjós og Svínadal fyrir skordýrabitum sem aldrei fyrr. Enginn kannaðist við að neitt viðlíka hefði gerst áður. Til þess tíma voru flær og bitmý alkunnar blóðsugur, og veggjalýs í stöku tilfellum, en nú var öldin önnur. Bitvargurinn reyndist svo vera agnarsmátt lúsmý. Vakti það furðu því lúsmý hér á landi var ekki þekkt fyrir að sjúga blóð. Eintökum var komið í hendur erlendra sérfræðinga til að freista þess að fá heiti á tegundina. Gekk það treglega til að byrja með og voru menn ekki á einu máli um ættkvíslarheitið. Á endanum var tegundinni fundið fræðiheitið Culicoides reconditus. Tegund af þeirri nafntoguðu ættkvísl Culicoides hafði ekki áður fundist hér á landi.

Á seinni árum hafa ýmsir nýir landnemar fest sig í sessi með hlýnandi veðurfari. Margir hafa gert ráð fyrir að lúsmýið þetta sé einn landnemanna. Í því sambandi skal haft í huga að hlýnandi veðrátta hefur líka haft áhrif á gamalgrónar tegundir, sumum hefur farið fjölgandi og útbreiðslumörk hnikast norðar. Að öllum líkindum hefur lúsmýið verið lengur á landinu en margur telur. Rifjast hefur upp að áður bárust fyrirspurnir til Náttúrufræðistofnunar frá fólki í sumarhúsum vegna bitvarga. Svörin voru gjarnan á þann veg að hér á landi bæru einungis flær og bitmý ábyrgð á slíku. Slík svör voru ekki endilega sannfærandi því bitin gátu fullt eins verið utan hefðbundins flóatíma að vori og ekki endilega á stöðum þar sem bitmý var líklegt til vandræða. Þessum gömlu kvörtunum svipar óneitanlega nokkuð til þess sem nú er í gangi.

Þegar lúsmý fyrst blossaði upp sem illvígur bitvargur sumarið 2015 beindist athyglin að Kjósinni og Svínadal norðan megin Hvalfjarðar. Í kjölfarið tóku ábendingar að berast víðar að af Suðvesturlandi, þ.e. Mosfellsbæ, Grafarvogi og Hafnarfirði, einnig úr Leirársveit, Melasveit og Skorradal í Borgarfjarðarsýslu, svo og Laugardal og Biskupstungum í uppsveitum Suðurlands. Áhersla var lögð á að fólk kæmi sýnum til frekari rannsókna til staðfestingar. Strax þótti ólíklegt að nýr landnemi birtist á þennan hátt á einu sumri. Var líklegra talið að breytingar á veðurfari hafið orðið þess valdandi að lúsmýið komst yfir þröskuld og náði sér á ærlegt flug.

Í ljós kom að þetta skot var ekki bundið við þessu eina sumri. Sagan endurtók sig árið eftir og var þá sama svæði undir. Í Borgarfirði hafði útbreiðslusvæðið rýmkast en ábendingar komu einnig frá Norðurárdal. Svipaða sögu var að segja af Suðurlandi. Frá sumarhúsabyggðinni í Úthlíð í Bláskógabyggð, Flúðum í Hrunamannahreppi og Flóanum bárust nýjar ábendingar. Sumarið 2017 þéttust enn frekar fundarstaðir í Borgarfirði (Kleppjárnsreykir, Stafholtstungur, Akranes) og í Grafningi sunnanlands. Sumarið 2018 hélt fjölgunin áfram upp sveitir Borgarfjarðar (Reykholtsdalur, Bifröst) og sprengja verður í fjölgun lúsmýs í uppsveitum Suðurlands. Af þessu má sjá að lúsmýið dafnar best í efri sveitum, síður með sjó þar sem jafnan er vindasamara. Myndin sumarið 2019 er í mótun en lúsmý hefur verið aðgangsharðara um miðjan júní en fyrri ár. Þar á einstök veðurblíða sem ríkt hefur á útbreiðslusvæði mýsins ríkan þátt í máli.

Lúsmý leggst einkum á fólk í svefni, sækir inn um opna glugga á kvöldin og nóttunni. Það þarf lognstillur til að athafna sig, hverfur ef vindur blæs. Þéttvaxinn garðagróður í byggð skapar skjól og hagstæð lífsskilyrði fyrir lúsmý, einnig hávaxinn trjágróður umhverfis sumarhús. Þekkt er tilfelli þar sem fólk í umgirtu sumarhúsi varð illa útleikið á meðan fólk í nálægu húsi þar sem enginn var skjólgarðurinn slapp að mestu.

Með ofurnæmum skynjurum skynja flugurnar koltvísýring frá útöndun fólks og staðsetur blóðgjafa sína. Líkamshlutar sem standa berir út undan sængum, svo sem andlit og herðar, handleggir og fótleggir gefa flugunum sóknarfæri. Fljótlega eftir bit koma fram bólur og útbrot með tilheyrandi óbærilegum kláða sem staðið getur yfir í allnokkra daga. Þá er ráðlegt að bera á húðina kælikrem og jafnvel taka inn ofnæmislyf. Krem sem verja gegn bitum moskítóflugna kunna að vera fyrirbyggjandi. Annars er best að fara eftir ráðleggingum hjúkrunarfólks í þessum efnum.

Til að verjast lúsmýi enn frekar er ráðlegt að hafa glugga lokaða, til vara að líma mjög fínriðið gardínuefni fyrir opnanleg fög á flugtíma mýsins. Vifta sem heldur lofti á hreyfingu í svefnherbergi kann að hjálpa, hugsanlega einnig vifta sem blæs út á móti opnum gluggum. Ráðlegt er að sofa í náttfötum. Því hefur verið haldið fram að þessar agnarsmáu og veikbyggðu mýflugur bíti í gegnum fatnað en svo er ólíklegt. Stungumý (moskítóflugur) fer í gegnum fatnað en varla agnarsmátt og veikbyggt lúsmý sem þolir ekki nokkra snertingu eða núning við fatnað og rúmföt.

Varðandi lýsingu á flugunum skal bent á almenna lýsingu í umfjöllun um lúsmýsættina. Litlu er við hana að bæta. Þess má geta að margar tegundir ættkvíslarinnar eru með flekkótta vængi en það á ekki við þessa.

Lúsmý – Culicoides reconditus
Lúsmý (Culicoides reconditus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Sprygin, A.V., O.A. Fiodorova, Yo. Yo Babin, N.P. Elatkin, B. Matthieu, M.E. England & A.V. Kononov 2014. Culicoides biting mifges (Diptera, Ceratopogonidae) in various climatic zones of Russia and adjacent lands. Journal of Vector Ecology 39: 306-315.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |