Dröfnumý (Macropelopia nebulosa)

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, Asía austur til Japans, N-Afríka.

Ísland: Algeng um land allt, jafnt á láglendi sem hálendi.

Lífshættir

Dröfnumý elst upp í vötnum af ýmsu tagi, bæði næringarríkum og næringarsnauðum, stöðuvötnum og lækjum. Lirfurnar halda sig í botngrotinu, í rennandi vatni gjarnan hlémegin við steina. Þær skríða um frjálsar í botnleðjunni, eru ekki í hýði, og lifa á ránum. Flugtími er frá lokum maí til ágústloka.

Almennt

Dröfnumý er með stærri tegundum rykmýs hér á landi, á stærð við minni tegundir toppmýs (Chironomus). Tegundina má þekkja á stærðinni auk áberandi flikra við æðar á miðjum væng og á vænghimnu nær vængenda, sem aðgreina tegundina frá toppmýi. Rannsókn á kynfærum skal þó ávallt liggja til grundvallar tegundagreiningu. Eins og langflestar tegundir rykmýs hafa karlflugur áberandi fjaðraða fálmara en kvenflugur einungis venjulega þráðlaga fálmara.

Útbreiðslukort

Heimildir

Hrafnsdóttir, Thora 2005. Diptera 2 (Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48b. Steenstrupia, Zoological Museum, Kaupmannahöfn. 169 bls.

Fauna Europaea. Macropelopia nebulosa. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=409377 [skoðað 20.9.2012]

Höfundur

Erling Ólafsson 20. september 2012.

Biota

Tegund (Species)
Dröfnumý (Macropelopia nebulosa)