Kerfilsfluga (Thricops longipes)

Útbreiðsla

Norður-Evrópa og fjalllendi M-Evrópu, Mið-Austurlönd, Síbería. Í Skandinavíu mun algengari á norðurslóðum og í fjalllendi en sunnar, á Bretlandseyjum eingöngu í fjalllendi.

Ísland: Mjög algeng um land allt.

Lífshættir

Kerfilsfluga finnst víðast hvar í gróskumiklum gróðurlendum, í kjarrlendi og skóglendi, móum og blómlendi, einnig í votlendi, t.d. skurðum með hófsóleyjum (Caltha palustris). Flugurnar laðast mjög að blómsveipum sveipjurta, t.d. hvanna (Angelica) og kerfla (Anthriscus, Myrrhis) og getur fjöldi flugna á þeim skipt tugum. Þær sækja líka í ýmis önnur blóm t.d. túnfífla (Taraxacum). Einnig laðast þær að lúsugum plöntum af ýmsu tagi til að sleikja í sig sætan úrgang blaðlúsanna. Lítt er vitað um lífshætti lirfanna en að öllum líkindum lifa þær rotlífi í jarðvegi. Flugurnar eru á ferli frá lokum maí og fram yfir miðjan ágúst, þó í langmestum fjölda á miðju sumri.

Almennt

Kerfilsfluga er afar algeng tegund hér á landi og einkar áberandi á sólríkum góðviðrisdögum. Þegar gengið er í gegnum breiður sveipjurta á miðju sumri fælist gjarnan upp mikill fjöldi kerfilsflugna svo og hvannaflugna (Thricops cunctans). Kerfilsfluga er með stærri tegundum ættar sinnar (Muscidae), einlit svört og áberandi fótalöng eins og fræðiheiðið segir til um (longipes), en verður samt ekki greind með vissu til tegundar nema með smásjárskoðun.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Fauna Europea. Thricops cunctans. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=139280 [skoðað 11.1.2012]

Guðmundur Halldórsson, Oddur Sigurðsson & Erling Ólafsson 2002. Dulin veröld. Smádýr á Íslandi. Mál og mynd, Reykjavík. 171 bls.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 11. janúar 2012

Biota

Tegund (Species)
Kerfilsfluga (Thricops longipes)