Kampaskotta (Petrobius brevistylis)

Útbreiðsla

NV-Evrópa; S-Finnland, Svíþjóð, Noregur allt til 70°N, Danmörk, Þýskaland, Bretland, Írland, Færeyjar. Innflutt til norðausturhluta N-Ameríku, e.t.v. með skipaballest.

Ísland: Með ströndum í öllum landshlutum. Einnig þekkt inn til lands við fornar strandlínur, t.d. í Hornafirði og Öræfum.

Lífshættir

Kampaskotta finnst á sjávarklöppum og í fjörukömbum ofan við sjávarmörk. Þar leynist hún í sprungum og holum og er talin lifa á þörungum, fléttum og mosum sem þar vaxa. Eggjum er orpið í þröngar sprungur í steinunum og er ungviðið um þrjá og hálfan mánuð að ná kynþroskastigi. Kampaskotta er langlíf og getur lifað í allt að þrjú ár.

Almennt

Kampaskotta fannst fyrst í fjörukambi við Grindavík um 1920, eða fjörukampi eins og sagt var þar um slóðir og varð kveikjan að heitinu. Reyndar nefndi finnandinn, Bjarni Sæmundsson dýrafræðingur, hana kampafló vegna þess að hún getur stokkið. Það er hins vegar villandi að kenna tegundina við fló. Þó kjörlendi kampaskottu sé við sjóinn hefur hún einnig fundist fjarri sjó á Suðausturlandi, þ.e. á nokkrum stöðum í Hornafirði í skriðum við fjallsrætur þar sem eru fornar sjávarstrendur. Það sama á við um Salthöfða í Öræfum. Á þessum stöðum hefur kampaskotta væntanlega orðið innlyksa er land reis úr sæ í lok síðustu ísaldar og lifað það af. Í einu tilviki hefur kampaskottu orðið vart innanhúss, þ.e. í búningsklefum Sundhallar Hafnarfjarðar sem stendur við sjávarkambinn.

Útbreiðslukort

Heimildir

Answers.com. Petrobius brevistylis. http://www.answers.com/topic/petrobius-brevistylis [skoðað 7.8.2009]

Bjarni Sæmundsson 1925. Nýjungar úr dýraríki Íslands. Skýrsla um Hið ísl. náttúrufræðisfélag 1923–24: 44–48.

Erling Ólafsson 1996. Athyglisverð skordýr. Kampaskotta. Náttúrufræðingurinn 66: 26.

Geir Gígja 1933. Kampaflóin. Náttúrufræðingurinn 3: 161–164.

Högni Böðvarsson 1957. Apterygota. Zoology of Iceland III, Part 37. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 86 bls.

Tuxen, S.L. 1938. Protura und Thysanura aus Island. Vidensk. Meddr dansk natruh. Foren. 102:19–25.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009.

Biota

Tegund (Species)
Kampaskotta (Petrobius brevistylis)