Parketlús (Dorypteryx domestica)

Parketlús - Dorypteryx domestica
Mynd: Erling Ólafsson
Parketlús. 1 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Talin upprunnin í Mið-Afríku (Zimbabwe) en var fyrst uppgötvuð í Evrópu 1973, dreifðist hratt um álfuna upp úr því og varð mjög algeng í húsum. Einnig hefur hún borist til Bandaríkja N-Ameríku.

Ísland: Byggðarlög á Suðvesturlandi, þ.e. höfuðborgarsvæðið og Suðurnes, Selfoss, Eyrarbakki og Laugarvatn, einnig Grundarfjörður, Hellissandur, Akureyri.

Lífshættir

Parketlús lifir alfarið innanhúss, í híbýlum, og er á ferli allt árið á öllum þroskastigum. Hún lifir á myglusveppum öðru fremur, einkum í nýbyggðum húsum þar sem parket hefur verið lagt á gólf fyrr en skynsamlegt er. Skilyrði skapast fyrir sveppagróður undir parketi þar sem það hefur verið lagt áður en steypt gólfin hafa fengið að þorna jafn vel og æskilegt væri.

Almennt

Parketlús fannst fyrst hér á landi árið 1980 í Grundarfirði. Hún varð fljótlega afar algeng á höfuðborgarsvæðinu, einkum í hverfum sem hafa verið að byggjast upp. Algengt er að íbúar nýbyggðu húsanna verði parketlúsa varir u.þ.b. ári eftir að parket var lagt á gólf. Það virðist vera sá tími sem kvikindin örsmáu þurfa til að verða nógu algeng til að verða sýnileg. Ekki hefur fengist staðfesting á því hvernig þau berast í hús en getgátur eru uppi um að þær berist með byggingarefninu. Þekkt er tilvik þar sem parketlýs fóru að finnast í geymslu þar sem parketstafli hafði staðið ólagður í átta mánuði. Fullþroska parketlýs hafa mjóa vængstubba sem duga ekki til flugs en þær nota þá til að taka undir sig stökk. Af stökkunum þekkjast þær auðveldlega frá öðrum ryklúsum í húsum. Parketlýs eru illa þokkaðar af mörgum en geta varla talist skaðvaldar. Hins vegar hefur fæða þeirra, sveppirnir, reynst heilsu margra íbúa nýrra húsa skeinuhættir.

Parketlús (Dorypteryx domestica) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Parketlús (Dorypteryx domestica) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Kucerová, Z. 1997. Macropterous form of Dorypteryx domestica (Psocoptera: Psyllipsocidae). Eur. J. Entomol. 94: 567–573.

Mockford, E.L. 1993. North American Psocoptera (Insecta)). Fauna and Flora Handbook No. 10. 455 bls.

O´Connor, J.P. 1999. Dorypteryx domestica (Smithers) (Psocoptera, Psyllipsocidae) new to Ireland. Entmol. mon. Mag. 135: 242.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |