Starafló (Ceratophyllus gallinae)

Útbreiðsla

Evrópa, Asía, N-Afríka, N-Ameríka, Ástralía.

Ísland: Útbreiðsla á Íslandi er vanskráð. Finnst líklega á láglendi um land allt.

Lífshættir

Starafló er blóðsuga fyrst og fremst á fuglum. Hún finnst í hænsnakofum og hreiðrum fjölmargra landfugla, bæði í náttúrunni og ekki síður í hreiðrum fugla sem koma sér fyrir í húsum, inni á þökum eða í þakskeggjum. Á það einkum við um hreiður stara og maríuerlu.

Lífsferill flónna er þannig að þegar þær hafa eftir vetrardvalann nælt sér í nokkra blóðslurka frá fuglunum sem mættir eru í hreiður sín og byggt upp nægan orkuforða verpa þær í hreiðrin. Lirfur klekjast úr eggjum að nokkrum dögum liðnum og vaxa upp í hreiðrunum fram á mitt sumar. Þær nærast á ýmsu sem til fellur frá búskap fuglanna. Meðal annars éta þær saur fullorðnu flónna sem skila frá sér blóðinu ekki fullmeltu. Þegar fullum vexti er náð púpa þær sig inni í spunahjúp sem festur er við hreiðurefnin. Flærnar skríða úr púpunum þegar líður á sumar og fram á haustið og halda sig í spunahjúpnum yfir veturinn. Þegar vorar að vetri liðnum koma þær sér fyrir við munnann að hreiðrinu og bíða blóðgjafa sinna. 

Almennt

Fá skordýr eru eins nafntoguð hér á landi og staraflóin. Flestir þekkja hana undir því heiti vegna tengingar við starann í þakskegginu. Öllu heldur skyldi kalla hana hænsnafló en fræðiheitið er dregið af ættkvísl hænsna, Gallus, enda eru hænsnastíur vinsæl afdrep flónna svo og dúfnakofar.

Sambýli stara og flóa fylgir alkunnugt vandamál, þ.e. flóafár í híbýlum okkar. Fyrsta árið sem stari byggir hreiður í þakskegginu ríkir oftast friður en þá er lagður grunnur að næstu kynslóð flóa. Ef starinn fær að vitja hreiðurs síns aftur að ári er ekki víst að vandamál skapist sem orð er á gerandi. Hins vegar er vá fyrir dyrum ef hann mætir ekki aftur eða aðgangur hans er hindraður. Flærnar vakna af vetrardvalanum á hefðbundnum tíma, seint í mars og í apríl, og þurfa sinn blóðskammt. Ef enginn mætir blóðgjafinn sverfur hungur að og flærnar leggjast í flakk. Þær leita burt frá hreiðrinu, sumar finna sér leið inn í híbýli okkar, aðrar rata út og safnast fyrir í húsagarðinum. Þar stökkva þær á hvað eina sem á leið um, bæði menn og skepnur og taka sér far með viðkomandi. Þannig berast þær einnig inn í hús. Feldir hunda og katta henta flónum einkar vel til að hanga í, enda verður flóafár gjarnan verst þar sem heimilisdýrin njóta útivistar.

Þótt starafló kjósi helst fuglablóð þá fúlsar hún alls ekki við blóði spendýra, manna þar með talinna. Það er í eðli blóðsugna að geta soltið og beðið lengi eftir máltíð og geta flærnar því angrað heimilisfólk í allnokkurn tíma framan af sumri. Þær ná þó ekki að fjölga sér í íbúðum okkar því þar eru sjaldnast hentugar uppeldisstöðvar fyrir lirfurnar.

Flóabit eru ekkert spaug en viðbrögðin eru þó einstaklingsbundin. Sumir verða bitanna vart varir á meðan aðrir blása upp í bólgur og kláða, sem ágerist þegar farið er að klóra og getur staðið yfir dögum saman. Það er háttur flónna að skorða sig af á meðan þær sjúga. Þær stökkva gjarnan upp í buxnaskálmar, koma sér fyrir undir sokkalíningum og bíta þar. Á skömmum tíma nær ein og sama flóin gjarnan að bíta nokkrum sinnum. Einnig bíta þær hvar sem föt þrengja að, gjarnan undir beltum og brjóstahöldum. Algengt er að flærnar leggist að fórnarlömbum sínum í svefni. Þá geta bitin komið fram hvarvetna á líkamanum.

Til að fyrirbyggja flóafár er vænlegast að tryggja að stari nái að þröngva sér inn á þök húsa. En ef það hefur gerst skal fyrst ítrekað að starinn er friðaður fugl og því óheimilt lögum samkvæmt að eyðileggja varp hans. Þess gerist líka sjaldnast þörf því oftast ríkir nokkur friður á meðan fuglarnir halda sig í hreiðrinu og gömlu flærnar deyja fljótlega eftir að þeir fara. Best er að fjarlægja hreiður á kuldatímum að haust- eða vetrarlagi þegar hin nýja kynslóð flónna hvílir í vetrardvala. Ef ráðist er til atlögu á vorin og sumrin er nokkuð víst að ekki verði flóafriður á meðan, í orðsins fyllstu merkingu. Mikilvægt er að hreinsa upp og fjarlægja öll hreiðurefni og helst að verða sér úti um eiturefni til að eitra allnokkurt svæði umhverfis hreiðurstaðinn. Oftar en ekki er erfitt um vik að komast að hreiðrunum og verður varla gert nema með meiriháttar umstangi og af þar til gerðum fagmönnum.

Ef flóavandamál á heimili keyrir um þverbak getur orðið úr vöndu að ráða. Draga má úr ágangi flóa í híbýlum með eitrun. Í þeim tilfellum er ráðlegt að leita aðstoðar meindýraeyða með hentug eiturefni. Eins væri æskilegt að halda köttum inni framan af sumri því víða í umhverfi okkar úti leynast flær sem fagna umferð kattanna. En það er ávallt grundvallaratriði að losna við hreiðrin á réttan hátt og fyrirbyggja frekari hreiðurgerð fuglanna.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Fauna Europaea. Ceratophyllus gallinae. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=170632

Henriksen, K.L. 1939. Siphonaptera. Zoology of Iceland III, Part 47. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 7 bls.

Soleng, A. 2010. Fugleloppe / hønseloppe (Ceratophyllus gallinae). Folkehelseinstituttet. http://www.fhi.no/dokumenter/66bb4fbf01.pdf.

Höfundur

Erling Ólafsson 23. nóvember 2016.

Biota

Tegund (Species)
Starafló (Ceratophyllus gallinae)