Grábytta (Limnephilus griseus)

Útbreiðsla

Norðurslóðir. Evrópa nema allra syðst og austur eftir Síberíu; Færeyjar, Grænland, N-Ameríka.

Ísland: Algeng um land allt, jafnt láglendi sem hálendi.

Lífshættir

Grábytta hefur vítt val búsvæða. Hún elst upp í ám og lækjum, einnig vötnum og pollum, jafnvel undir seltuáhrifum við sjávarstrendur. Hún heldur sig ekki síst í vötnum sem ekki leggur í vetrarfrostum. Fullorðnu dýrin finnast einkum í nágrenni vatna en þau geta flögrað um langan veg og birtast stundum víðs fjarri vötnum, mun frekar en aðrar tegundir vorflugna. Flugtími hefst upp úr miðjum maí bæði á láglendi og hálendi og stendur til loka október á láglendi. Honum lýkur væntanlega öllu fyrr á hálendi. Lirfurnar finnast gjarnan á sendnum og gróðurlitlum botni. Ungar lirfur byggja um sig hulstur úr plöntuhlutum en skipta yfir í sandkorn þegar þær stækka.

Almennt

Grábytta er ein algengasta vorflugan hér á landi og er algeng hvar sem er á landinu, bæði nálægt uppvaxtarstöðum og í hvers kyns gróðurlendum fjarri þeim. Hún er hin sanna ímynd íslenskra vorflugna, dæmigerður fulltrúi ættkvíslarinnar Limnephilus sem er eina ættkvíslin með fleiri en eina tegund eða alls sjö af tólf tegundum ættbálksins. Það gildir um hana sem ættingja hennar að vissast er að tegundagreina hana á kynfærum, jafnt karldýr sem kvendýr. Að fenginni góðri reynslu af öllum tegundunum má þó komast nærri um hana með því að meta grábrúnan lit framvængja sem oft eru mislitir með ljósari blettum og óreglulegum dekkri flekkjum.

Útbreiðslukort

Heimildir

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Fristrup, B. 1942. Neuroptera and Trichoptera. Zoology of Iceland III, Part 43–44. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 23 bls.

Gísli Már Gíslason 1977. Flight periods and ovarian maturation in Trichoptera in Iceland. Proc. of the 2nd Symp. on Trichoptera, 1977, Junk, The Hague: 135–146.

Gísli Már Gíslason 1978. Íslenskar vorflugur (Trichoptera). Náttúrufræðingurinn 48: 62–72.

Gísli Már Gíslason 1979. Identification of Icelandic caddis larvae, with descriptions of Limnephilus fenestratus (Zett.) and L. picturatus McL. (Trichoptera: Limnephilidae, Pgryganeidae). Ent. scand 10: 161–176.

Gísli Már Gíslason 1981. Distibution and habitat preferences of Icelandic Trichoptera. Í: G.P. Moretti (ritstj.), Proc. of the 3rd Int. symp. on Trichoptera. Series ent. 20: 99–109.

Höfundur

Erling Ólafsson 4. janúar 2012.

Biota

Tegund (Species)
Grábytta (Limnephilus griseus)