Garðfætla (Lithobius forficatus)

Útbreiðsla

Útbreidd um veröld víða. Upprunaleg heimkynni talin vera í Evrópu og N-Afríku, en hefur borist með mönnum til Asíu, N- og S-Ameríku og Ástralíu. Á Norðurlöndum nokkuð norður fyrir miðbik Skandinavíuskagans.

Ísland: Láglendi um land allt, algeng á sunnanverðu landinu, stakir fundarstaðir í byggð á landinu norðanverðu; Patreksfjörður, Sauðárkrókur, Dalvík, Húsavík, Mývatn, Seyðisfjörður.

Lífshættir

Garðfætla finnst við fjölbreytilegar aðstæður, ekki síst í manngerðu umhverfi, görðum, kálgörðum og kringum hús, í frjósömum gróðurbrekkum þar sem raki helst vel í sverði og felustaðir eru nógir, steinar og annað lauslegt á jörðu, í skógarbotnum, undir trjádrumbum o.s.frv. Einnig í gripahúsum, heyhlöðum og skemmum, þvælist stundum inn í híbýli en lifir þar skammt. Þó garðfætla sé fyrst og fremst á ferli frá vori til hausts þá finnst hún einnig á vetrum, einkum ef hún hefur komið sér fyrir innanhúss, t.d. undir gólfum í gömlum húsum þar sem bráð er að hafa. Garðfætla lifir á öðrum smádýrum sem hún veiðir.

Almennt

Garðfætla er þekkt héðan frá fornu fari. Hún er með stærri smádýrum hér, yfirleitt illa þokkuð og veldur gjarnan óhug og hryllingi, þar sem hún skýst óvænt undan fólki við garðyrkjustörf og annað tilfallandi. Það er að sjálfsögðu, stærðin, snerpan og fótafjöld sem fólki líkar illa. Garðfætlan er argasta rándýr og fljót að láta til skarar skríða, þegar hún kemst í færi við girnilega bráð. Ef pöddugreyi er varpað ofan í krukku með garðfætlu þarf ekki að spyrja að leikslokum. Ef garðfætla er tekin upp snýst hún snarlega til varnar og má vel kenna það er hún bitur í húð. Það er annars skaðlaust.

Garðfætla er langstærst íslenskra margfætlna, einlit kastaníubrún á höfði og bol en fætur eru heldur ljósari. Á höfði, sem er nær kringlótt séð ofan frá, eru tveir grannir fálmarar gerðir úr fjölmörgum stuttum liðum, breiðastir næst höfði en mjókka út til endanna. Lengdin er allt að þriðjungur af bollengdinni. Við rætur fálmaranna eru mörg punktaugu, en fjöldinn er breytilegur, það aftasta áberandi stærst. Bolurinn er mjög greinilega liðskiptur. Það má telja 16 mislangar bakplötur, 9 þeirra ívið styttri en breiddin en hinar miklu styttri. Hverjum lið fylgir eitt par fóta, alls 15 pör, en fremsta parið hefur ummyndast í sigðlaga, kröftuga og ógnvekjandi gripkjálka. Öftustu fótapörin vita aftur af bolnum og er það aftasta lengst.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Andersson, G., B.A. Meidell, U. Scheller, J.-Å. Winqvist, M. Osterkamp Madsen, P. Djursvoll, G. Budd & U. Gärdenfors 2005. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Mångfotingar. Myriapoda. Artdatabanken, SLU, Uppsala. 351 bls.

Eason, E.H. 1970. The Chilopoda and Diplopoda of Iceland. Ent. scand. 1: 47-54.

Tuxen, S.L. 1941. Myriopoda. Zoology of Iceland III, Part 36. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 9 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 18. maí 2011.

Biota

Tegund (Species)
Garðfætla (Lithobius forficatus)