Skógarbobbi (Cepaea nemoralis)

Útbreiðsla

V- og M-Evrópa, með ströndum Skandinavíu og Eystrasalts til Litháens og Lettlands; Þýskaland, Tékkland, Ungverjaland, á Balkanskaga til Bosníu. Hefur borist með mönnum til nýrra heimkynna, m.a. í N-Ameríku.

Ísland: Fjórir fundarstaðir; Heiðmörk, Kópavogur, Garðabær, Keflavík og Patreksfjörður.

Lífshættir

Kjörlendi skógarbobba í heimahögum er í skógum og gróðurþykkni, í limgerðum, görðum, brekkum og á grassteppum, nær hátt til fjalla í Ölpunum og Pýreneafjöllum. Hann nærist á plöntum en virðist ekki valda skaða sem telur.

Almennt

Skógarbobbi er fágætur slæðingur til landsins með varningi. Alls er kunnugt um sex tilvik. Hann fannst fyrst í október 1991 og hafði borist ásamt fleiri kvikindum með stálvörum frá Ítalíu til framkvæmda í Heiðmörk. Í maí 2005 fannst einn sem hafði komið sér fyrir utan á hurð innflutningsfyrirtækis í Kópavogi. Þriðja tilvikið er frá Patreksfirði en þá var um að ræða tvo snigla sem bárust þangað með lausum frystieiningum frá Danmörku. Skógarbobbi í garði í Grafarvogi í Reykjavík í júní 2008 er fjórða skráða tilvikið og enn annar fannst á lager hjá BYKO í Keflavík í júlí sama ár. Síðast skal telja bobba sem fannst í garði í Garðabæ vorið 2012. Ekki eru líkur til þess að tegundin setjist hér að í bráð. Skógarbobbi hefur einnig slæðst til Færeyja (maí 2009). Kuðungur skógarbobba er afar breytilegur á lit, stundum einlitur en oftast með spíralbeltum sem er mismunandi fyrir komið. Hann þekkist á því að jaðar munnans er brúnn.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Jensen, J.-K. 2009. Insekter og andre dyr: Cepaea nemoralis. www.jenskjeld.info/DK_side/indexdk.htm [skoðað 7.8.2009].

Pfleger, V. & J. Chatfield 1988. A Guide to Snails of Britain and Europe. Hamlyn, England. 216 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 16. nóvember 2009, 26 apríl 2012.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Lindýr (Mollusca)
Flokkur (Class)
Sniglar (Gastropoda)
Ættbálkur (Order)
Lungnasniglar (Pulmonata)
Ætt (Family)
Lyngbobbaætt (Helicidae)
Tegund (Species)
Skógarbobbi (Cepaea nemoralis)