Hrísmosi (Pleurozium schreberi)

Útbreiðsla

Finnst aðallega á Austurlandi, Vesturlandi, Vestfjörðum og á vestanverðu Norðurlandi, all sjaldséður í öðrum landshlutum (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Búsvæði

Vex í kjarrlendi og skóglendi, í móum, hraunum, urðum og grónum skriðum, einnig í graslendi og á þúfum í mýrum (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Lýsing

Stórar plöntur, fjaðurgreindar, með frekar stuttum greinum (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Gróliður

Plöntur stórar, upp í 15 sm langar, fjaðurgreindar, með frekar stuttum greinum. Plöntur stinnar, uppréttar eða uppsveigðar, grænar, ljósgrænar eða gulleitar, glansandi. Stöngull rauðbrúnn. Stöngulblöð oftast 2-2,2 mm, langegglaga, kúpt, snubbótt og bogadregin að framan. Oft er grunnt smávik í blaðenda. Blöð aðlæg eða upprétt. Blöð heilrend en blaðrönd með ójöfnum fremst í blaði. Rif stutt, tvöfalt. Greinablöð smærri og mjórri en stöngulblöð (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Kynliður

Plöntur einkynja, afar sjaldan með gróhirslum. Stilkur 1,8-4 sm, rauður, rauðgulur eða rauðbrúnn. Gróhirsla brún eða rauðbrún, aflöng, bogin. Gróhirsla vísar oftast nokkurn veginn þvert á stilk. Lok hátt, keilulaga. Ytri tennur gulbrúnar, fínvörtóttar eða lárétt punktstrikóttar neðan til, gráleitar fremst. Innri krans ljósgulur. Innri tennur með aflöngum eða egglaga götum eftir miðju (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Frumur

Frumur í framhluta blaðs langar og mjóar með þykkum veggjum. Veggir eru stundum greinilega holóttir. Fremst í blaði eru frumur styttri og heldur breiðari. Frumur í blaðgrunni gular eða rauðgular (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Útbreiðsla - Hrísmosi (Pleurozium schreberi)
Útbreiðsla: Hrísmosi (Pleurozium schreberi)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |