Móabrúskur (Dicranum scoparium)

Útbreiðsla

Finnst víða en þó síst á Suðurlandi og Norðausturlandi (Bergþór Jóhannsson 1991).

Vistgerðir

Vex í rökum eða þurrum jarðvegi, á þúfum í mýrum, graslendi, móum, kjarri og skóglendi. Vex einnig í hraunum og urðum og getur vaxið á jarðvegsþöktum steinum og klettum (Bergþór Jóhannsson 1991).

Lýsing

Oftast stórar og grófgerðar plöntur, gulgrænar, grænar eða brúngrænar. Mjög breytileg tegund (Bergþór Jóhannsson 1991).

Gróliður

Plöntur oftast stórar og grófgerðar, gulgrænar, grænar eða brúngrænar en dökkbrúnar neðan til, oftast 6-12 sm en stundum aðeins 2-4 sm. Mjög breytileg tegund. Oftast er hvít eða brún rætlingaló langt upp eftir stöngli. Plöntur eru oft ógreindar en stundum er stöngull með uppréttum greinum. Blöð þéttstæð, standa ýmist á ská upp og út frá stöngli eða eru sveigð til einnar hliðar, mjókka smám saman frá lensulaga eða egglensulaga grunni fram í mjóan, yddan, rennulaga eða kjalaðan framhluta. Blöð oftast 6-8 mm en geta verið styttri, allt niður í 4 mm og eru þá hlutfallslega breið og framhlutinn mjög stuttur. Rif nokkuð breitt, nær fram undir eða fram í blaðenda. Á baki rifs í framhluta blaðs eru oftast (tvær til) fjórar tenntar ræmur (Bergþór Jóhannsson 1991).

Kynliður

Plöntur einkynja, oft með gróhirslum. Karlplöntur smáar, fíngerðar, oftast 1-20 mm en geta eflaust orðið lengri því þær eru talsvert mismunandi. Karlplönturnar eru í rætlingalónni ofarlega á stöngli kvennplantnanna og eru oft með fleiri en einum karlknappi. Stundum er fjöldi karlplantna utan á einum og sama stöngli. Gróhirslustilkurinn er 1-3 sm, gulur efst en rauðbrúnn neðan til, verður allur rauðleitur með aldrinum. Langoftast er aðeins einn stilkur frá hverjum kvenknappi en þeir geta þó verið tveir. Gróhirsla brún, sívöl, bogin, slétt. Gamlar og þurrar gróhirslur geta verið skoróttar. Gróhirsluop snýr oftast til hliðar, nokkurn veginn hornrétt á stilk en stundum snýr opið nokkurn veginn beint upp. Yfirborðsfrumur gróhirslu með mjög þykkum langveggjum. Lok með mjög langri trjónu. Enginn munnhringur. Hetta gul, brúnleit fremst. Kranstennur rauðbrúnar og lóðrétt punktstrikóttar á ytra borði en fremst eru þær þó gulleitar og vörtóttar. Gamlar tennur eru mun ljósari (Bergþór Jóhannsson 1991).

Frumur

Frumur í blaði eru með þykkum, holóttum veggjum. Frumur í blaðgrunni eru ferhyrndar, langar og mjóar. Frumur verða styttri þegar framar dregur í blaðið, eru ferhyrndar eða aflangt sexhyrndar um blaðmiðju og í framhluta blaðs eru þær ferhyrndar eða óreglulega ferningslaga og oft tígullaga við blaðrönd og fremst í blaði. Horn áberandi og vel afmörkuð, ná ekki alveg inn að rifi (Bergþór Jóhannsson 1991).

Útbreiðslukort

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex í rökum eða þurrum jarðvegi, á þúfum í mýrum, graslendi, móum, kjarri og skóglendi. Vex einnig í hraunum og urðum og getur vaxið á jarðvegsþöktum steinum og klettum (Bergþór Jóhannsson 1991).

Biota

Tegund (Species)
Móabrúskur (Dicranum scoparium)