Rjúpustör (Carex lachenalii)

Útbreiðsla

Algeng til fjalla um allt land frá um 300 m hæð upp fyrir 1000 m. Hæstu fundarstaðir eru í 1200 m hæð á Héðinsdalsbrúnum við botn Hjaltadals og 1190 m við Blámannshatt í Höfðahverfi (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Rakar snjódældir, hálfdeigir lækjarbakkar og gil til fjalla.

Lýsing

Meðalhá stör (12–30 sm) með nokkur ljósbrún öx á stráendanum, toppaxið stærst. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Stráin í þéttum toppum, þrístrend. Blöðin 1,5–2,5 mm breið, flöt, snarprend í endann. Blaðsprotar skástæðir (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Þrjú til fjögur öx á stráendanum og er toppaxið stærst. Karlblóm er að finna neðst í öllum öxunum. Axhlífar ljósbrúnar, egglaga, snubbóttar í endann, himnurendar. Hulstrið dregst saman í trjónu í endann, gulgrænt eða gulbrúnt, með sléttu yfirborði, frænin tvö (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist heigulstör sem vex þó nær eingöngu á sendnum, deigum bökkum niðri við sjávarmál. Eins hefur hún lengri, grennri og læpulegri strá sem leggjast útaf við aldinþroskun. Hulstrin eru auk þess með skýrum, upphleyptum taugum.

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Rakar snjódældir, hálfdeigir lækjarbakkar og gil til fjalla.

Biota

Tegund (Species)
Rjúpustör (Carex lachenalii)