Trjónustör (Carex flava)
Trjónustör (Carex flava)


Útbreiðsla
Mjög sjaldgæf stör, fundin á örfáum stöðum á Látraströnd og í Fjörðum austan Eyjafjarðar. Flestir eru fundarstaðirnir á láglendi, hæstur er Brenniás á Fljótsheiði í um 300 m hæð (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Búsvæði
Mýrar með lækjarsytrum.
Lýsing
Meðalhá stör (10–50 sm) með ljósum, egglaga öxum og löngu stoðblaði.
Blað
Myndar litlar þúfur með stuttum jarðrenglum. Blöð flöt og ljósgræn, 3–7 mm breið, oftast styttri en strá. Strá bein og hvassstrend (Lid og Lid 2005).
Blóm
Eitt legglaust eða stuttleggjað karlax í toppinn og tvö til þrjú stutt, sívöl og nær legglaus kvenöx þétt saman eða hið neðsta örlítið neðar en hin. Neðsta stoðblaðið mikið lengra en axskipanin. Axhlífar gulbrúnar með grænni taug. Hulstur 5–7 mm langt, gljáandi, gulgrænt (Lid og Lid 2005). Hulstur kvenaxanna eru með langri trjónu sem störin dregur nafn sitt af (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Greining
Af öðrum störum minnir hún einna helst á gullstör og er skyld henni, en er stórvaxnari og hefur stærri öx og mun lengri hulsturtrjónu sem er einnig oftast bogin.
Válisti
EN (tegund í hættu)
Ísland | Heimsválisti |
---|---|
EN | LC |
Forsendur flokkunar
Trjónustör hefur fundist á 6 stöðum á norðanverðu landinu. Frekar lítið er af tegundinni á hverjum fundarstað og stofninn talinn lítill og telji færri en 250 fullþroska einstaklinga.
Viðmið IUCN: D
D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.
Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)
Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)
Eldri válistar
Válisti 2008: Trjónustör er á válista í hættuflokki EN (í hættu).
Válisti 1996: Trjónustör er á válista í hættuflokki EN (í hættu).
Verndun
Trjónustör er friðuð samkvæmt auglýsingu nr. 184/1978 um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda.
Höfundur
Var efnið hjálplegt? Aftur upp
Thank you!