Varpfuglar

Á Íslandi hafa orpið 110 tegundir fugla. Þar af verpa 75 að staðaldri, það er þær hafa orpið árlega undanfarin 10 ár (2008–2018). Auk þeirra verpa hér af og til sjö tegundir sem eru á mörkum þess að ílendast og kunna sumar þeirra að ná hér fótfestu fljótlega.

Nær allar tegundir íslenskra varpfugla hafa væntanlega komið hingað frá Evrópu og verpa annaðhvort umhverfis norðurhvel eða þá eingöngu austan Atlantsála. Aðeins þrjár tegundir eru norður-amerískar að uppruna: himbrimi, húsönd og straumönd. Auk þess nam rjúpan líklega land úr vestri enda er íslenska rjúpan skyldust þeirri grænlensku.

Íslenska fuglafánan er óvenjulega samsett samanborið við löndin sunnan við okkur. Sjófuglar, endur og vaðfuglar eru ríkjandi en spörfuglategundir tiltölulega fáar, þótt þær séu um 60% fuglategunda í heiminum. Þessi samsetning fánunnar markast af því að hér eru tiltölulega fábreytt búsvæði en iðulega mjög auðug. Einangrun landsins hefur auk þess komið í veg fyrir landnám nokkurra tegunda.

Algengustu tegundahópar íslenskra varpfugla eru endur og aðrir vatnafuglar (24 tegundir – 32%) og sjófuglar (24 tegundir – 31%). Þá verpa hér 12 tegundir spörfugla (16%), 11 tegundir vaðfugla (15%), fjórar tegundir af ránfuglum og uglum og loks rjúpan.

Engin fuglategund verpur bara hér á landi en slíkar tegundir eru kallaðar einlendar (endemískar). Nokkrar deilitegundir (undirtegundir) eru bundnar við Ísland eða verpa hér að mestu leyti.