Hreindýr

Hreindýr (Rangifer tarandus) er sú tegund hjartardýra (Cervidae) sem á sér heimkynni nyrst á hnettinum, umhverfis norðurheimskautið. Hreindýrum er skipt í tvo hópa, skógarhreina (Compressicornis) og túndruhreina (Cylindicornis). Skógarhreinar eru á syðstu mörkum útbreiðslunnar og eiga búsvæði í barrskógum og öðru þéttu skóglendi, til dæmis í norðlægum skógum Norður-Ameríku og í skógum í Norður-Svíþjóð, Norður-Finnlandi og Rússlandi. Túndruhreinar eiga heimkynni sín á heimskautaeyjum, í opnu skóglendi og á freðmýrum norðurhjarans, í Skandinavíu, Rússlandi, Íslandi (innflutt), Skotlandi (innflutt), Grænlandi, Kanada, Alaska og Svalbarða.

Innan hvors hóps er að finna nokkrar undirtegundir, flestar meðal túndruhreina, til dæmis hin lágfættu svalbarðahreindýr (R. t. platyrbynchus), grænlandshreindýr (R. t. pearyi) og íslensku hreindýrin (R. t. tarandus), en þau síðastnefndu eru af skandinavísku og rússnesku kyni. Elstu minjar um hreindýr eru frá því fyrir um 440 þúsund árum en talið er að maðurinn hafi nýtt sér afurðir þeirra í meira en 25 þúsund ár. Hreindýr voru útbreidd um alla Evrópu fyrir ísöld en þau fluttu sig norðar eftir því sem hlýnaði og ísaldarjökullinn hopaði.

Stærð og útlit

Hreindýr eru meðal stærri hjartardýra en stærðarmunur er mikill milli stofna og undirtegunda. Eyjastofnar í Kanada og á Svalbarða eru stuttfættir en skógarhreinar geta verið nokkuð háfættir. Kýr eru yfirleitt léttari en tarfar. Á Íslandi er meðalþyngd fullorðinna hreinkúa um 40 kg en tarfar vega um 90 kg að meðaltali. Bæði kyn eru rúmur metri á axlarhæð en haus og horn tarfa eru stærri en kúa.

Litur hreindýra fellur vel að umhverfinu en þau eru grábrún á haus, baki og fótum en hvít á lendum og kvið. Þau hafa stuttan dindil og á törfum vex ljósleitt skegg. Allur líkaminn er loðinn, meira að segja snoppan. Feldurinn er þrefalt þéttari en á öðrum hjartardýrum og í honum eru tvær gerðir hára, þelhár og vindhár. Þelhárin eru brún og í neðri hluta þelsins er loftfyllt hólf sem veitir afar góða einangrun. Til dæmis halda hreindýr jöfnum líkamshita án þess að auka efnaskipti sín allt niður í -40°C. Einangrunin er svo góð að snjór bráðnar ekki undan hreindýri sem liggur á skafli. Hið þykka einangrunarlag veitir jafnframt gott flot en hreindýr eru miklir sundgarpar.

Hreinkálfar fæðast eingöngu með þelhár en fljótlega vaxa á þeim vindhár og þá fá þeir lit fullorðinna dýra. Klaufar hreindýra eru stórar og breiðar og virka sem snjóþrúgur því dýrin fljóta vel á snjó. Þegar hreindýr fara um heyrast skemmtileg „smell“-hljóð í klaufunum því við niðurstig breiða þær úr sér en skella svo saman þegar fóturinn lyftist. Þófinn harðnar á veturna og verður enn loðnari auk þess sem á jöðrum klaufanna vex einskonar kantur. Þetta gerir dýrunum kleift að krafsa sig niður í gegnum snjó til að ná í eitthvað ætilegt niðri við jörð.

Hreindýr eru einu hjartardýrin þar sem bæði kyn eru með horn en þau falla og vaxa upp árlega. Nafngift tegundarinnar tarandus merkir einmitt „sá sem ber horn eða hornberi.“ Kynin fella hornin á mismunandi tímum frá nóvember til mars og í maíbyrjun eru kelfdar kýr þær einu sem enn bera horn. Hornin geta verið stöðutákn því síðla vetrar geta hyrndu kýrnar hrakið stærri dýr frá svæðum þar sem auðveldara er að krafsa eitthvað ætilegt undan snjó. Eftir burð naga þær felldu hornin og fá þannig kalk til mjólkurframleiðslu. Horn tarfa verða talsvert stór og fyrirferðamikil og nota þeir þau í baráttunni um kvendýrin á fengitíma. Sum dýr fá þó aldrei horn og eru um 4% hreinkúa á Íslandi kollóttar að eðlisfari.

Tímgun og félagskerfi

Hreindýr lifa hjarðlífi og heldur einn tarfur utan um hjörð kúa sem hann einn makast við. Um fengitímann, sem nær hámarki í október, þykknar háls tarfanna og sítt skegg vex um hálsinn. Þannig fá þeir aukinn styrk en líka vörn í baráttunni um kýrnar því sterkasti tarfurinn ríkir yfir hjörð kvendýra og feðrar kálfa þeirra. Mikil orka fer í að verja kýrnar fyrir öðrum törfum og gengur mjög á tarfana á þessum tíma. Sé mikill munur á stærð og styrkleika kemur yfirleitt ekki til bardaga en ef þeir eru svipaðir að stærð og atgervi getur atlagan orðið ansi hörð.

Hreindýr verða kynþroska á öðrum til þriðja vetri en líkamsástand ræður líklega miklu um það hvort kýr taki þátt í tímgun. Tarfarnir þurfa að ná stærð og styrk til að ná yfirráðum yfir hópi kvendýra og þá fyrst geta þeir eignast afkvæmi. Geldhlutfall er breytilegt eftir tíðafari, til dæmis var hlutfall geldra kúa 13–28% árin 1979–1981 en 10–15% árin 2000–2002. Meðgöngutími er um sjö og hálfur mánuður og burðartíminn í maí-júní. Kynjahlutfall meðal nýborinna kálfa er nokkuð jafnt en meðal fullorðinna dýra sem tímgast eru kýr fleiri en tarfar. Sömu burðarsvæðin eru gjarnan valin ár eftir ár og halda kelfdar kýr þangað í apríllok. Þar dvelja þær einar með nýbornum kálfum sínum þangað til geldar kýr og tarfar koma í sumarhagana.

Hreindýr á Íslandi

Sú hugmynd, að flytja hreindýr hingað til lands, var líklega fyrst sett fram af Páli Vídalín í lok 17. aldar. Ekkert varð þó af hreindýrainnflutningi fyrr en nærri öld síðar er hreindýr voru flutt til Íslands frá Finnmörku í Noregi. Innflutningur dýranna var samkvæmt konunglegri tilskipun og áttu dýrin að efla íslenskan landbúnað. Sett var fram sú sérstæða hugmynd að flytja hingað samíska fjölskyldu sem kenna átti íslendingum hvernig hægt væri að lifa hirðingjalífi og stunda hreindýrabúskap. Af þessu varð þó aldrei og alla tíð hafa hreindýr gengið villt á Íslandi.

Hreindýr voru flutt til Íslands í fjórum hópum á árunum 1771–1787. Fyrsti hópurinn samanstóð af 13 eða 14 dýrum sem voru sett á land í Vestmannaeyjum. Helmingur dýranna drapst fyrsta árið en restin var flutt upp á Landeyjarsand. Þrjú lifðu af þann flutning, tvær kýr og einn tarfur og voru þau flutt að Hlíðarenda í Fljótshlíð þar sem þeim tók að fjölga. Þessi fyrsta hjörð varð þó aldrei stærri en 16 dýr en þeim var þegar tekið að fækka er Móðuharðindin skullu á árið 1783 og hurfu þau alveg eftir það.

Næsta sending kom árið 1777, sex tarfar og 24 kýr, en eitt dýranna drapst á leiðinni til landsins. Dýrunum var sleppt í landi Hvaleyrar við Hafnarfjörð og gekk þeim vel þó hjörðin hafi aldri orðið stærri en nokkur hundruð dýr. Hún hélt til á fjallasvæðum Reykjanesskagans en sást af og til utan svæðisins, til dæmis tvisvar austan Þingvallavatns. Hjörðin var enn á svæðinu um aldamótin 1900 en þá hafði dýrunum fækkað talsvert. Síðasta dýrið sást við Kolviðarhól um 1930.

Hreindýr voru í þriðja skipti flutt til landsins árið 1784 og var 35 dýrum sleppt á Vaðlaheiði við Eyjafjörð. Dýrin dreifðu sér fljótt inn á hálendið upp af Fnjóskadal og þeim fjölgaði nokkuð ört en hjörðin taldi um 400 dýr í lok 18. aldar. Mikið var kvartað undan ágangi og ofbeit hreindýranna í afréttum Fnjóskadals. Veturinn 1822 var harður á Norðurlandi og á næstu árum féllu líklega mörg dýranna á meðan önnur héldu í austurátt. Næsta áratuginn hélt hjörðin sig norðan og norðaustan Mývatns en kom gjarnan niður á láglendið á vetrum. Heildarfjöldinn náði sennilega 2.000 dýrum þegar mest var. Dýrin dreifðust enn í austurátt, um Melrakkasléttu, Þistilfjörð og Langanesheiði og hélt fjöldi dýra til í Búrfells- og Sléttuheiði, allt fram til 1860. Þá tók dýrunum aftur að fækka og voru aðeins nokkrir tugir dýra eftir um aldamótin 1900.

Síðast voru hreindýr flutt til Íslands árið 1787, 30 kýr og 5 tarfar, sem sett voru á land í Vopnafirði. Hópurinn stækkaði ört og dreifði sér um víða um hálendi Austurlands og suðurfirðina, allt að Jökulsá í Lóni. Líklegt er talið að þau dýr sem eftir voru af norðausturhjörðinni hafi sameinast þessum hópi. Ekki leið á löngu uns bændur tóku að kvarta undan ágangi hreindýra í beitilönd þeirra. Lítið virðist hafa verið að gert enda héldu dýrin til fjalla á sumrin og losnuðu þá bændur við þau yfir bjargræðistímann. Hreindýrum hefur reitt ágætlega af austanlands og eiga þau þar hentuga sumar- og vetrarhaga.

Búsvæði og fæðuval

Hreindýr eru fardýr og skipta um búsvæði eftir árstímum. Fæðuframboð ræður þar mestu og kelfdar kýr eru tryggar burðarsvæðum sínum. Eftir miðja 20. öld var fjöldi hreindýra á Íslandi orðinn það mikill og dreifður að stofninum var skipt upp í tvær megin hjarðir, Snæfellshjörð og Fjarðahjörð, eftir því hvar þær halda sig á sumrin. Snæfellshjörðin heldur sig mest á Snæfells- og Brúaröræfum en Fjarðahjörðin skiptir sér í nokkra staðbundna hópa, frá Suðursveit og norður að Héraðsflóa.

Fæðuval hreindýra á Fljótsdalsheiði og Jökuldalsheiði er nokkuð vel þekkt en stór hluti íslenska hreindýrastofnsins gengur á þessum svæðum. Fléttur af ýmsum tegundum eru algeng fæða hreindýra á Jökuldalsheiði en á Fljótsdalsheiði eru grös og starir langalgengasta fæðan allt árið. Þá éta hreindýr gjarnan ýmsa smárunna, svo sem víði og fjalldrapa, og lyngjurtir eins og krækilyng. Á veturna nærast hreindýr á þeim gróðri sem auðveldast er að ná til undir snjónum.

Haust- og vetrargróður er næringarsnauðari en vor og sumargróður. Hreindýr hafa þó allt að 40% minni orkuþörf á veturna því efnaskiptin lækka á köldustu mánuðunum. Sú geta dýranna til að lifa á litlu er hluti aðlögunar hreindýra að lífi á norðurhjaranum.  

Stofnbreytingar og veiði

Hreindýrum sem flutt voru til Íslands á 18. öld vegnaði misvel og fór það svo að fyrstu tveir hóparnir dóu út. Talið er að samverkandi þættir eins og harðir vetur, takmarkað fæðuframboð og ofbeit hafi ráðið þar mestu um. Sá hópur sem fluttur var til Vopnafjarðar og sameinaðist Norðausturlandshjörðinni dafnaði hins vegar vel.

Talningar á hreindýrum hafa farið fram að sumarlagi nær árlega frá árinu 1940. Erfitt er að meta stærð útbreiddra hreindýrastofna en það er tímafrekt starf að fara yfir stór landsvæði til að freista þess að sjá hreindýrahjörð eða hjarðir. Fyrst var farið ríðandi en eftir 1956 hefur verið talið úr flugvél. Stærsti hluti stofnsins var og er við Snæfell og voru talningar lengi vel bundnar við það svæði. Stofnstærð hreindýra á Íslandi er nú orðið metin með talningu af ljósmyndum sem teknar eru úr flugvél sem flýgur nálægt jörðu. Þrátt fyrir nokkrar sveiflur í stofnstærð hefur fjöldinn aldrei verið meiri en á undanförnum árum, eða um 7.000 dýr að sumarlagi.

Með tilkomu veiðistjórnunar upp úr 1990 var hreindýrahjörðunum tveimur, Snæfells- og Fjarðahjörðinni, skipt upp í níu minni hjarðir út frá landfræðilegum mörkum. Með skiptingu þessari þótti hagkvæmara að skipuleggja veiðar út frá stýringu kynjahlutfalls og stofnstærðarstjórnunar en áður. Enn er notast við þessa skiptingu, hvoru tveggja við veiðistjórnun og rannsóknir á hreindýrum.

Veiði á hreindýrum er miðuð við að stofninn sé sjálfbær og að aldurs- og kynjahlutföll séu með þeim hætti að viðkoma hans sé tryggð. Veiðikvóti er gefinn út árlega og er áætlaður fyrir hvert veiðisvæði, út frá fjölda dýra af hvoru kyni. Náttúrustofa Austurlands sér um vöktun á hreindýrastofninum en Umhverfisstofnun sér um veiðistjórnun og sölu veiðileyfa.

Lagaleg staða – verndarstaða

Öll villt spendýr á Íslandi, fyrir utan mink, húsamús og rottur, eru friðuð í náttúrulegu umhverfi sínu samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Hreindýr hafa þó ávallt notið meiri friðunar í lögum en önnur spendýr á Íslandi, til dæmis voru þau alfriðuð árið 1787.

Hreindýr voru flutt hingað til landbúnaðar en hafa frá upphafi gengið villt og veiðar á þeim stundaðar nánast alla tíð. Veiðar á hreindýrum eru háðar takmörkunum á svæði, fjölda, kyni og aldri dýra. Umhverfisstofnun úthlutar veiðileyfum en sækja þarf um slíkt árlega.

Ráðgjafanefnd sem skipað er af umhverfis- og auðlindaráðherra er Umhverfisstofnun og ráðherra til ráðgjafar um vernd, veiðar og nýtingu hreindýrastofnsins. Nefndin gerir ár hvert tillögu til Umhverfisstofnunar um skilgreiningu ágangssvæða hreindýra, árlegan veiðikvóta og skiptingu hans milli veiðisvæða. Fulltrúum Náttúrustofu Austurlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands er heimilt að sitja fundi hreindýraráðs og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

Nefnd um endurskoðun laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum, hefur lagt til að Náttúrustofu Austurlands skuli falið vöktunar- og rannsóknarhlutverk og mat á veiðiþoli. Jafnframt að Umhverfisstofnun og Náttúrustofa Austurlands ættu að vinna sameiginlega veiðiráðgjöf varðandi hreindýraveiðar (svo sem um veiðitíma) og að Umhverfisstofnun ætti að hafa umsjón með og stjórn á veiðum. Náttúrustofa Austurlands leggi því fram sínar tillögur að veiðiþoli og kvóta til Umhverfisstofnunar í stað hreindýraráðs. Hreindýraráð verður þá umsagnaraðili um mál er lúta að hreindýrum varðandi stefnumótandi mál, lög, reglugerðir og ákvörðun um veiðikvóta.

Hreindýr er metið á válista spendýra. Hér á landi er tegundin ekki skilgreind á válista þar sem hún er innflutt samkvæmt viðmiðum Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN). Á Heimsválista er tegundin talin í nokkurri hættu en á Evrópuválista er hún ekki talin í hættu.

Henttonen, H. og A. Tikhonov 2008. Rangifer tarandus. The IUCN Red List of Threatened Species.

Kristbjörn Egilsson 1993. Beitilönd og fæða hreindýra á hálendi Austurlands. Í Páll Hersteinsson og Guttormur Bjarnason, ritstj. Villt Íslensk spendýr. Reykjavík: Hið íslenska náttúrufræðifélag, Landvernd.

Menja von Schmalensee, Kristinn H. Skarphéðinsson, Hildur Vésteinsdóttir, Tómas G. Gunnarsson, Páll Hersteinsson, Auður L. Arnþórsdóttir, Hólmfríður Arnardóttir og Sigmar B. Hauksson 2013. Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra. Lagaleg og stjórnsýsluleg staða og tillögur um úrbætur. Skýrsla unnin fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra.

Skarphéðinn Þórisson 1993. Hreindýr. Í Páll Hersteinsson og Guttormur Bjarnason, ritstj. Villt Íslensk spendýr, bls. 251–285. Reykjavík: Hið íslenska náttúrufræðifélag, Landvernd.

Skarphéðinn Þórisson 2004. Hreindýr. Í Páll Hersteinsson, ritstj. og Jón Baldur Hlíðberg. Íslensk spendýr, bls. 232–243. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

Skarphéðinn G. Þórisson 2010. Hreindýr (Rangifer tarandus). Egilsstaðir: Náttúrustofa Austurlands, Þekkingarnet Austurlands og NEED.