Bergþór Jóhannsson látinn

12.12.2006

Bergþór JóhannssonBergþór Jóhannsson mosafræðingur var jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík, þriðjudaginn 19. desember kl. 15. Bergþór lést 10. desember s.l., tæplega 73 ára að aldri. Bergþór var starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands frá árinu 1964 þar til hann lét af starfi fyrir aldurs sakir á árinu 2003. Hann vann þó áfram við rannsóknir sínar eftir það meðan heilsan leyfði.

Bergþór var afar afkastamikill í rannsókna- og fræðastörfum. Eftir hann liggur Mosaflóra Íslands í 21 bindi, sem er lýsing, greiningarlyklar, útbreiðslukort og teikningar hans á yfir 600 íslenskum mosategundum. Mosaflóran er brautryðjendastarf og heilsteypt grundvallarrit um veigamikinn hluta íslensks lífríkis. Fyrir hana var Bergþór sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Raunvísindadeild Háskóla Íslands 8. september 2000. Bergþór fann og lýsti mörgum nýjum mosategundum hér á landi og bjó til íslensk heiti á allar tegundir mosaflórunnar sem fæstar báru slík heiti áður. Hann hafði á starfsævi sinni umsjón með mosasafni Náttúrufræðistofnunar sem nú telur yfir 47 þúsund eintök en þau voru aðeins 1320 þegar hann réðist til starfa. Auk mosa lýsti Bergþór tegundum undafífla í fjórum bindum Fjölrita Náttúru­fræðistofnunar.

Bergþór var fæddur 11. desember 1933 í Goðdal á Ströndum. Fyrstu grein sína birti hann í Náttúrufræðingnum 13 ára að aldri. Hann var stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1954, lauk prófi í forspjallsvísindum frá Háskóla Íslands 1955, fyrri hluta prófs í líffræði frá Háskólanum í Göttingen í Þýskalandi 1959 og cand.rer.nat. prófi frá Oslóarháskóla 1964. Bergþór var stundakennari við líffræðiskor Háskóla Íslands 1968-1989 og lagði þar grunn að kennslu í líffræði lágplantna. Hann var um skeið forseti samtaka norrænna mosafræðinga, sat í fyrstu stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands, var lengi í stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags og varaformaður um skeið. Eftirlifandi kona Bergþórs er Dóra Jakobsdóttir, grasafræðingur hjá Grasagarði Reykjavíkur. Þau eiga fjórar dætur.