Náttúrufræðistofnun leggst gegn fugldrápi með svefnlyfjum

27.03.2007

 

Náttúrufræðistofnun Íslands lagðist í umsögn gegn leyfisveitingu til VST til að gera tilraunir með svefnlyf til að fækka sílamáfi á höfuðborgarsvæðinu. Engu að síður veitti Umhverfisstofnun undanþáguna og er fyrirhugað að bera út svefnlyf í byggðir sílamáfa á höfuðborgarsvæðinu í vor. Garðaholt, Rjúpnahæð og Vatnsendi eru nefnd sem hugsanleg svæði en NÍ gerir alvarlegar athugsemdir við þetta svæðaval og bendir m.a. á í umsögn sinni að erlendis sé gerð krafa um að slíkar aðgerðir séu aðeins heimilaðar á svæðum þar sem hægt er að takmarka umferð almennings, a.m.k tímabundið. Telur stofnunin engan þessara staða koma til greina við slíkar tilraunir enda vaxandi byggð allt um kring.

 

Sílamáfshreiður í lúpínubreiðu. Ljósm. Gunnar Hallgrímsson.

Í leyfi sínu tók Umhverfisstofnun tillit til þessara ábendinga að hluta. Fallið var frá því að bera út svefnlyf í Rjúpnahæð og Vatnsenda og er nú fyrirhugað að bera svefnlyfið í Garðaholt, Gálagahraun, Korpúslfstaðahólma og Þerney.

Í umsögn NÍ kemur fram að sílamáfum hefur fjölgað mjög mikið frá því að þeir námu hér land um 1930 og eru þeir nú langalgengastir af stærri máfunum. Þeir hafa verið algengir á höfuðborgarsvæðinu í marga áratugi og þó oft hafi verið kvartað undan máfagerinu hefur engin tilraun verið gerð til að skilgreina vandann né sýnt fram á að löglegar aðgerðir séu ekki fullnægjandi. Sílamáfar sem verpa á höfuðborgarsvæðinu eru aðeins lítill hluti af sílamáfsstofninum á Suðvesturlandi og ef fækka eigi sílamáf við Reykjavík til langframa hljóti aðgerðir til þess óhjákvæmilega að ná til mun stærra svæðis.

Telur stofnunin rök fyrir notkun ólöglegra efna og aðferða við fugladráp skorta, engin rannsóknaáætlun liggi fyrir, engar upplýsingar séu veittar um árangur skotveiða til fækkunar máfa né aðrar upplýsingar sem að gagni gætu komið við að meta nauðsyn þess að beita undanþáguákvæðinu í 9.mgr. laga nr. 64/1994. Þá gagnrýnir NÍ að ekki hafi verið orðið við beiðni stofnunarinnar um frekari upplýsingar.

Umsögn NÍ má lesa hér.

Árið 1997 vann Náttúrufræðistofnun skýrslu fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um sílamáfa (Arnór Þ. Sigfússon 1997). Meginniðurstaða hennar var sú að ekki væri hægt að mæla með stófelldum og kostnaðarsömum aðgerðum án undangenginnar athugunar á meintu tjóni máfanna. Slíkar rannsóknir hafa enn ekki farið fram.

Þessi afstaða var ítrekuð í bréfi NÍ til Umhverfisráðuneytis 2. júlí 1998 en þá vegna æðarvarps.