Segir enn af spánarsniglum

03.10.2007

Frétt af spánarsniglum hér á vefsíðu Náttúrufræðistofnunar 18. september síðastliðinn vakti töluverð viðbrögð og tilkynningar um allskyns snigla bárust stofnuninni í kjölfarið. Þar á meðal var tilkynning um spánarsnigla á Ólafsfirði. Ekki þykja tíðindin góð.

Spánarsnigill á verandarpalli í Ólafsfirði í júní 2004. Ljósm. Rósa K. Óskarsdóttir.

Jafnan þegar vakin er athygli á spánarsniglum hér á vefsíðunni opnast augu fólks og hefðbundnir brekkusniglar verða stundum að meintum spánarsniglum (sjá fyrri frétt). Af slíkum brekkusniglum lifa allnokkrar tegundir hér á landi, þar á meðal eru sex af ættkvíslinni Arion eins og spánarsnigillinn (dæmi). Aðeins einn þessara snigla, svartsnigill (Arion ater), er það stórvaxinn að hann nálgast spánarsnigilinn en hann er alsvartur á lit.

Greinargóð og sannfærandi lýsing á spánarsnigli barst frá íbúa við Tjarnarmýri á Seltjarnarnesi, en hann hafði drepið rauðan 15 cm langan snigil í garði sínum í lok ágúst í sumar (2007). Þá sendi íbúi við Faxaskjól í Reykjavík ljósmynd af spánarsnigli í garði sínum nú í lok september. Þar með hafa Náttúrufræðistofnun borist sannfærandi tilkynningar um fjóra spánarsnigla á höfuðborgarsvæðinu þetta sumar 2007.

Spánarsnigill við Faxaskjól í Reykjavík í lok september 2007. Ljósm. Jóhanna Guðjónsdóttir.

Þá barst ljósmynd af spánarsnigli sem tekin var á Ólafsfirði í júní 2004. Sumarið 2006 lenti samskonar snigill í sláttuvél í sama garði. Enn mætti þar snigill nú í sumar (2007), einnig í garði við hliðina. Báðum var fargað svo ekki var um sama einstakling að ræða. Ekki liggur fyrir skýring á því hvernig spánarsnigill hefur borist til Ólafsfjarðar. Finnandi gat þess þó að í mars 2003 hefði arinn verið fluttur á þennan stað frá Spáni. Þangað kom hann í upprunalegum umbúðum sem voru teknar af gripnum á verandarpallinum þar sem snigillinn fannst. Við pallinn er svo upphituð stétt. Þetta gæti hugsanlega verið skýringin.

Sennilega er spánarsnigill nú á krossgötum hér á landi og veruleg fjölgun á næstu árum viðbúin.