Aukin hveravirkni norðan við Hveragerði

02.06.2008

Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson, jarðfræðingar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, hafa undanfarið unnið að athugunum á háhitasvæðum landsins í þeim tilgangi að meta verndargildi jarðminja. Jarðhitasvæðin í og við Hveragerði voru könnuð skömmu fyrir Suðurlandsskjálftann 29. maí sl. Þann 20. maí var farið um jarðhitasvæðin í Hveragerði og við Gufudal og þann 28. maí var farið um jarðhitasvæðið í Grensdal. Þann 31. maí voru svæðin skoðuð aftur með tilliti til breytinga á hveravirkni. Engar beinar mælingar hafa verið gerðar á hverunum og því er hér aðeins um sjónmat að ræða.

Yfirlitskort af svæðinu. Aukin hveravirkni er á svæðum merktum með rauðu. Jarðvegsskríða utarlega í Grensdal er merkt með svörtu (Svæði C).

Virkni hefur aukist allmikið á nokkrum svæðum, en á öðrum virðist lítið hafa breyst. Svæðin sem breyst hafa eru sýnd á meðfylgjandi korti. Þau raða sér nokkurn veginn á línur frá suðri til norðurs sem er u.þ.b. stefna þeirra sprungna sem hreyfst hafa við jarðskjálftana.

Hveragerði ofan Garðyrkjuskólans

Á hæð norðan og ofan við Garðyrkjuskólann er ljós hverahrúðursmelur (Svæði A). Fremur lítil virkni var á þesssu svæði þegar það var athugað 20. maí. Nokkrir dauflegir leirhverir, heit jörð og útfellingar, en lítil gufa. Þann 31. maí hafði orðið veruleg aukning á hveravirkninni. Mikill grár leirhver hafði myndast á hverahrúðursbreiðunni og hlaðið upp tæpl. 1 m háum gígbörmum. Þarna hafa einnig birst ólgandi leirugir vatnshverir og fjöldi líflegra leirhvera sem frá leka litríkir rauðir, brúnir og gráir leirtaumar. Mikla gufu leggur frá svæðinu. Sunnar og austar streymir gufa upp um gróin svæði og þar lyktar af soðnum gróðri. Sjá myndir neðar á síðunni.

Um 700 m norðar hafa hliðstæðar breytingar átt sér stað, einnig á fornri hverahrúðursbreiðu (Svæði B).

Ekki leit út fyrir að hveravirkni hefði aukist í Sauðárdal (Gufudal).

Grensdalur (Grændalur)

Jarðvegsskriða (Svæði C) hefur fallið yfir hveri í utanverðum Grensdal en að öðru leyti hafa ekki orðið breytingar á virkni hvera yst í dalnum. Stuttu norðar hafa miklar breytingar orðið (Svæði D). Áður var þar heit jörð með útfellingum og litlum gufu- og leirhverum. Nú leggur mikla gufu af svæðinu og þar eru frussandi leirhverir og gufa streymir upp um gróin svæði. Gróður visnar og þar er áberandi súr lykt af sviðnum gróðri og jarðvegi. Frá nýjum og endurlífguðum hverum rennur rauðbrún og grá leirleðja. Norður af þessu svæði leggur gufu upp af litlu svæði í vesturhlíðum dalsins en þar sáust engar gufur þann 28. maí (Svæði F). Sjá myndir hér að neðan.

Niðri við ána, um 400 m norðar og austar, var einnig stóraukin virkni (Svæði E). Þar leggur nú upp mikla gufu við árfarveginn, en engar gufur sáust þar 28. maí.

Séð úr fjarska, virtist ekki vera aukin virkni hvera innar í Grensdal. Þar mátti sjá stóra jarðvegsskriðu (sjá mynd), sem sennilega veldur því að áin í dalnum er mjög gruggug.

Svæði A

Svæði A, 20. maí 2008. Svæði A, 30. maí 2008.
Svæði A ofan við Garðyrkjuskólann fyrir Suðurlandsskjálftann. Hverahrúðursmelur með lítilli virkni. Sami staður eftir skjálftann. Verulega aukin hveravirkni.
Svæði A, 20. maí 2008. Svæði A, 30. maí 2008.
Gufuauga í þurrum hverabolla. Sami hver eftir skjálftann. Fallega rauður leirhver.
Svæði A, 20. maí 2008. Svæði A, 30. maí 2008.
Ofar á svæði A fyrir skjálftann. Sami staður eftir skjálftann. Mikill grár leirhver hefur myndast.
Svæði A, 20. maí 2008. Svæði A, 30. maí 2008.
Leirhverinn fyrir skjálftann. Leirhverinn eftir skjálftann. Hverinn hefur hlaðið upp tæpl. 1 m háum gígbörmum.
Svæði A, 20. maí 2008. Svæði A, 30. maí 2008.
Horft af svæði A í átt að Hveragerði fyrir skjálftann. Hverahrúðursmelur með lítilli virkni. Sami staður eftir skjálftann. Verulega aukin hveravirkni.
Svæði A, 30. maí 2008. Svæði A, 30. maí 2008.
Rauðir leirtaumar. Hverir á svæði A eftir skjálftann.
Svæði A, 30. maí 2008. Svæði A, 30. maí 2008.
Litríkir leirtaumar. Líflegir leirhverir.
Svæði A, 30. maí 2008. Svæði A, 30. maí 2008.
Litríkir leirtaumar renna frá svæði A eftir skjálftann. Nýmyndaður leirhver í gróðri á jaðri svæðis A eftir skjálftann.

Svæði B

Svæði B, 30. maí 2008. Svæði B, 30. maí 2008.
Aukin hveravirkni á svæði B eftir skjálftann. Horft til norðurs. Sami staður séður úr norðri.
Svæði B, 30. maí 2008. Svæði B, 30. maí 2008.
Ólgandi leirugur vatnshver á svæði B eftir skjálftann. Leirhverir og leirugir vatnshverir eftir skjálftann á svæði B. Horft til suðurs.
Svæði B, 30. maí 2008. Svæði B, 30. maí 2008.
Sami staður séð til norðurs. Sami staður séð til austurs.

Svæði C

Svæði C og D, 20. maí 2008. Svæði C, 30. maí 2008.
Svæði C og D utarlega í Grensdal vestanverðum fyrir skjálftann. Á svæði C vinstra megin á myndinni féll jarðvegsskriða í skjálftanum, en hveravirkni breyttist lítið. Á svæði D hægra megin á myndinni jókst hveravirkni mjög mikið. Nýmyndaður leirhver í gróðri norður af svæði C eftir skjálftann.
Svæði C, 28. maí 2008. Svæði C, 30. maí 2008.
Svæði C fyrir skjálftann. Svæði C eftir skjálftann. Jarðvegsskriða hefur runnið yfir hluta hveranna, en virkni þeirra hefur lítið breyst.
Svæði C, 30. maí 2008. Svæði C, 30. maí 2008.
Hverir í jarðvegsskriðunni á svæði C eftir skjálftann. Litríkir leirtaumar renna frá hverum í jarðvegsskriðunni.

Svæði D

Svæði D, 28. maí 2008. Svæði D, 30. maí 2008.
Svæði D fyrir skjálftann. Frekar lítil virkni á svæðinu. Horft til vesturs. Svæði D eftir skjálftann. Mikla gufu leggur af svæðinu þar sem nú eru frussandi leirhverir og ný gufusvæði.
Svæði D, 28. maí 2008. Svæði D, 30. maí 2008.
Svæði D fyrir skjálftann. Horft til vesturs. Svipað sjónarhorn eftir skjálftann. Mikil gufa og leirugt vatn rennur af svæðinu.
Svæði D, 28. maí 2008. Svæði D, 30. maí 2008.
Svæði D fyrir skjálftann. Horft til norðurs. Heit jörð með útfellingum og litlum gufu- og leirhverum. Svipað sjónarhorn eftir skjálftann. Frussandi leirugir vatnshverir, leirhverir og mikil gufa.
Svæði D, 30. maí 2008. Svæði D, 30. maí 2008.
Frussandi leirugur vatnshver á svæði D eftir skjálftann. Leirhverir og gufa á svæði D eftir skjálftann.
Svæði D, 28. maí 2008. Svæði D, 30. maí 2008.
Svæði D fyrir skjálftann. Horft til suðurs út dalinn. Svipað sjónarhorn eftir skjálftann. Takið eftir klettinum ofarlega fyrir miðri mynd og berið saman við myndina frá því fyrir skjálftann.
Svæði D, 28. maí 2008. Svæði D, 30. maí 2008.
Neðarlega á svæði D fyrir skjálftann. Horft til suðurs út dalinn. Svipað sjónarhorn eftir skjálftann. Gufuútstreymi víða þar sem ekkert var áður.
Svæði D, 28. maí 2008. Svæði D, 30. maí 2008.
Neðst á svæði D fyrir skjálftann. Fremstu hestarnir eru handan við nokkra steina sem standa upp úr gróðrinum. Engin teljandi virkni var þarna. Svipað sjónarhorn eftir skjálftann. Kröftugur og drullugur vatnshver þar sem steinarnir voru á fyrri mynd. Göngu- og reiðstígurinn sést handan við hverinn.
Svæði D, 30. maí 2008. Svæði D, 30. maí 2008.
Nærmynd af hvernum. Takið eftir visnuðum gróðri á bakkanum. Leirugt vatn rennur frá hvernum.
Svæði D, 30. maí 2008. Svæði D, 30. maí 2008.
Leirtaumar flæða yfir gróðurlendi á svæði D. Gufa streymir upp um gróðurlendi á svæði D. Gróðurinn sviðnar og sýður. Áberandi lykt af soðnum gróðri og jarðvegi.

Svæði E

Svæði E, 30. maí 2008. Svæði E, 30. maí 2008.
Miklar gufur streyma upp af svæði E eftir skjálftann. Hér voru engar gufur fyrir skjálftann. Nýr leirhver á svæði E.
Svæði E, 30. maí 2008. Svæði E, 30. maí 2008.
Svæði E séð úr norðri. Gufa streymir upp um soðinn gróður á svæði E.

Svæði F

Grensdalur

Svæði F, 30. maí 2008. Grensdalur, 30. maí 2008.
Svæði F eftir skjálftann. Hér voru engar gufur fyrir skjálftann. Innar í Grensdal má sjá stóra jarðvegsskriðu, sem sennilega veldur því að áin í dalnum er mjög gruggug.

Ljósm. Kristján Jónasson (49), Sigmundur Einarsson (4).