Náttúrufræðistofnun Íslands tekur þátt í Vísindavöku
Náttúrufræðistofnun Íslands tekur þátt í Vísindavöku á morgun á milli kl. 17 og 22. Rannís stendur fyrir vökunni í fjórða sinn en hún verður haldin í Listasafni Reykjavíkur. Dagurinn er tileinkaður evrópskum vísindamönnum og haldinn hátíðlegur í helstu borgum Evrópu.
Náttúrufræðistofnun Íslands verður með sýningu á vökunni og er yfirskrift hennar ‘Fræðist um frjókorn’. Gefin verður innsýn í það hvað frjókorn eru, af hverju sumir fá frjóofnæmi, mismunandi gerðir frjókorna sem valda ofnæmi á Íslandi og hvers vegna frjómælingar eru mikilvægar. Jafnframt verða nokkrir af sérfræðingum stofnunarinnar á staðnum til að veita frekari upplýsingar og svara spurningum gesta.
Ýmislegt verður í boði fyrir börnin og aðra gesti, s.s. myndir og getraun sem allir geta tekið þátt í.