Bernarsamningurinn um vernd villtra dýra og plantna og búsvæða þeirra í Evrópu

03.12.2008
Dagana 24. til 27. nóvember sl. var haldinn 28. fundur aðildarríkja Bernarsamningsins í Strasbourg í Frakklandi. Í lok fundarins var Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands endurkjörinn forseti samningsins. Fulltrúi Íslands á fundinum var Trausti Baldursson.
Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræði-stofnunar var endurkjörinn forseti Bernarsamningsins í lok nóvember.

Fundurinn er árlegur fundur samningsins þar sem öll aðildarríkin taka þátt en þau eru núna 48 þar sem Serbía og Armenía bættust við í ár og verða 50 næsta ár þegar Bosnía-Hersegóvína og Svartfjallaland bætast við. Ýmsum ríkjum sem ekki eiga aðild að samningnum er boðið að hafa áheyrnafulltrúa á fundum samningsins, bæði ríkjum frá Evrópu, s.s. Rússlandi, Georgíu, Hvíta Rússlandi og San Marínó, og frá Aríku, og má þar nefna Alsír og Mauritaníu. Fulltrúar annarra heims- og svæðisbundinna náttúruverndarsamninga sitja einnig þessa fundi, s.s. Ríósamningsins um líffræðilega fjölbreytni og Bonnsamningsins um fartegundir. Mörg frjáls félagasamtök eiga einnig áheyrnafulltrúa á fundum samningsins, s.s. Alþjóðlegu fuglaverndarsamtökin (BirdLife International), Alþjóða náttúruverndarsamtökin (IUCN) og ýmis samtök sem vinna að einstökum málum innan ákveðinna svæða. Aðildarríki samningsins eru bæði innan og utan Evrópusambandsins og á framkvæmdastjórn þess fastan fulltrúa á aðildarríkjafundum.

Á fundi aðildarríkja Ríósamningsins um líffræðilega fjölbreytni, sem haldinn var í Bonn í Þýskalandi í maí sl. var gengið frá formlegu samstarfi samninganna tveggja (nánar). Í tilefni samkomulagsins sótti framkvæmdastjóri Ríósamningsins, Ahmed Djoghlaf, fund Bernarsamningins að þessu sinni. Stefnt er að því að ganga frá sameiginlegri aðgerðaáætlun samninganna fyrir árin 2009-2010, sem fjalli m.a. um aðgerðir er lúta að aðlögun að loftslagsbreytingum, ágengum framandi tegundum, friðuðum svæðum, vernd plantna og svo kölluðum 2010 markmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Náttúrufræðistofnun Íslands mun birta fundargerð fundarins í heild sinni þegar hún liggur fyrir.

Fundir ýmissa undirnefnda/vísindanefnda eru haldnir milli funda aðildarríkjanna, en þar er fjallað um ýmis málefni sem snerta framkvæmd samningsins og gerðar tillögur um nauðsynlegar aðgerðir. Nefna má sérfræðinganefnd um friðuð svæði í Evrópu, vísindanefnd um líffræðilega fjölbreytni og loftslagsbreytingar, vísindanefnd um ágengar framandi tegundir, vísindanefnd um hryggleysingja, vinnuhóp um áhrif vindorkugarða á lífríki, sérstaklega fugla, og vinnuhóp um 2010 markmið Sameinuðu þjóðanna um að draga úr rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni í Evrópu.

Á fundinum var farið yfir niðurstöður vinnunefnda og tillögur þeirra til aðgerða teknar til umfjöllunar og samþykktar eftir atvikum. Einnig er farið yfir svokölluð ,,case files” en það eru mál sem einhverra hluta vegna eru talin vera í andstöðu við eða brjóta gegn markmiðum samningsins um vernd villtra dýra og plantna og búsvæða þeirra í Evrópu. Þessi mál geta fjallað um einstakar framkvæmdir eða þau geta beinst gegn umhverfisstefnu stjórnvalda eða skort á henni við útfærslu ýmissa framkvæmda. Til útskýringar má nefna uppsetningu fjölda vindorkugarða, vindmyllna, í Búlgaríu án mats á umhverfisáhrifum, gerð skipaskurðar í Úkraínu án umhverfismats í óshólmasvæði Dónár í Svartahafinu, skógræktaráætlanir á Íslandi hafa einnig verið til umræðu, vernd einstakra tegunda froska og hamstra í Frakklandi, og gríðarlegar veiðar spörfugla við Miðjarðarhafið, m.a. á Kýpur. Löndin skýra út afstöðu sína til hvers máls og gera grein fyrir umbótum eða öðru sem þurfa þykir.

Á fundinum var einnig fjallað sérstaklega um Emerald Network sem er net verndarsvæða og svarar til Habitat directive og Natura 2000 sem Evrópusambandið notar til að vernda tegundir og búsvæði. Mjög athyglisvert var að sjá hvað lönd eins og Serbía eru komin vel áleiðis við að innleiða Emerald Network og ætti það að vera til fyrirmyndar fyrir Ísland.