Segir af spánarsniglum

18.09.2009

Spánarsniglar höfðu hægt um sig í þurrkunum framan af sumri og færri staðfestar tilkynningar hafa borist Náttúrufræðistofnun Íslands en búist var við. Þeir hafa þó skotið upp kolli á nýjum stöðum og tilgáta um að á þessu sumri mætti búast við verulegri fjölgun fékk nýlega byr undir báða vængi.

Það væsir ekki sérstaklega um spánarsnigla í þurrviðrasamri tíð enda ættaðir frá sólríkum löndum Íberíuskagans. Þeir halda sig samt til hlés þegar þurrkar ríkja og leita þangað sem raka er að finna þar til blotnar um.

Síðastliðið haust var látin í ljós tilgáta um að verulegrar fjölgunar spánarsnigla mætti vænta sumarið 2009. En kvikindin létu sannarlega á sér standa og höfundur tilgátunnar var tekinn að örvænta. Náttúrufræðistofnun hefur þó í sumar borist fjöldi meintra spánarsnigla frá vökulu fólki en sem betur fer stóðust þeir fæstir spænskuprófið.

Nokkrar áhugaverðar tilkynningar tóku þó að berast sem sýndu að snigillinn var að nema nýjar lendur. Um miðjan júlí fannst spánarsnigill á Hofsósi í Skagafirði. Hann var reyndar í kínakáli sem pakkað var í Hollandi og flutt þaðan í verslun á Hofsósi. Þar var því um tilfallandi atvik að ræða. Tíu dagar liðu af ágúst þar til spánarsnigill fannst í Mosfellsbæ, en þar um slóðir hafði hann ekki fundist áður, og annar í Kópavogi (Náttúrufræðistofa Kópavogs). Ekki síður athyglisverður var spánarsnigill sem fannst í garði í Vestmannaeyjabæ 7. september og var færður Náttúrugripasafninu þar. Síðan fannst annar þar í bæ 17. september sem bendir til þess að sá fyrri hafi ekki verið tilfallandi.

Spánarsniglar (Arion lusitanicus) úr safnhaug í Kópavogi 11. september 2009. Ljósm. Erling Ólafsson.

Þá var komið að stórri sprengju. Þann 10. september barst Náttúrufræðistofu Kópavogs spánarsnigill sem fannst þar í bæ og er hann þar til sýnis lifandi ásamt þeim fyrri sem stofan fékk í hendur. Daginn eftir var komið með 13 slíka til Náttúrufræðistofnunar Íslands frá þeim sama stað í Kópavogi. Þeir höfðu verið tíndir úr hrúgu af plöntuúrgangi. Það fylgdi sögunni að einn hefði sést þar á staðnum fyrr í sumar. Sem sagt, nokkur fótur hafði því reynst fyrir tilgátunni ofangreindu, því miður.

Það skal ítrekað að Náttúrufræðistofnun hefur vakandi auga með landnámi spánarsniglanna og hvernig því vindur fram. Öll eintök sem kunna að finnast eru því vel þegin til frekari rannsókna.

Það skal tekið fram að spánarsnigill er mjög ágengur og illa þokkaður í nýjum heimkynnum í N-Evrópu. Því skal beita öllum tiltækum ráðum til að hamla gegn útbreiðslu hans og fjölgun og tortýma þeim sniglum sem ekki gefst færi á að senda til rannsókna á Náttúrufræðistofnun Íslands.

Tenglar