Sporðdrekar – óvæntir slæðingar með ferðamönnum

02.09.2009

Þann 6. ágúst síðastliðinn var komið með athyglisverð dýr á Náttúrufræðistofnun Íslands, sem óvart höfðu slæðst til landsins með farangri íslenskra ferðamanna frá Suður-Frakklandi. Um var að ræða tvo sporðdreka og reyndist annar þeirra fullþroska og í fullu fjöri. Sporðdrekarnir voru greindir til tegundarinnar Euscorpius flavicaudis sem hér er nefnd týrusporðdreki.

Týrusporðdreki

Týrusporðdrekinn sem er hjá Náttúrufræðistofnun. Myndin er tekin áður en ungarnir komu í heiminn. Ljósm. Erling Ólafsson.

Týrusporðdreki lifir í Suður-Evrópu og auk þess í Englandi eftir að hafa borist þangað með mönnum á 19. öld. Sporðdrekarnir tveir bárust hingað til lands frá Frakklandi og var annar þeirra lifandi þegar þeir uppgötvuðust innan um köngla sem ferðamenn höfðu haft með sér heim til Kópavogs. Sá sem lifði ferðalagið af dregur enn lífsandann í haldi á Náttúrufræðistofnun og hefur launað velgjörðina með því að geta af sér hóp lifandi unga. Fræðast má frekar um týrusporðdreka og atburð þann sem hér er sagt frá í fróðleikspistli um tegundina á nýjum pödduvef Náttúrufræðistofnunar.

Almennt um sporðdreka

Sporðdrekar lifa í heitum og heittempruðum beltum umhverfis jörðina. Alls eru um 1500 tegundir þeirra þekktar. Sporðdrekar eru áhugaverð dýr fyrir ýmsar sakir. Kunnastir eru þeir að sjálfsögðu fyrir eiturstinginn á halabroddinum og þeirri ógn sem af honum stafar. Flestum er lífsháski ofarlega í huga þegar sporðdreki leggur til atlögu sér til varnar. Fullmikið er þó gert úr því. Af tegundunum 1500 eru aðeins 20 til 25 taldar hættulegar. Stungur frá öðrum tegundum má helst líkja við stungur geitunga, þ.e. eru sárar en aðeins hættulegar ef viðkomandi fórnarlamb sýnir ofnæmisviðbrögð af háu stigi.

Sporðdrekar geta náð háum aldri. Algengast er að þeir lifi í 3 til 8 ár en sumar tegundir geta náð allt að 25 ára aldri. Sporðdrekar fæða lifandi unga. Eftir mökun sem getur staðið yfir í meira en sólarhring hefst meðganga sem stendur yfir í a.m.k. fimm mánuði og jafnvel yfir ár. Móðirin fæðir ungana í hálfgagnsæjum belgjum sem þeir síðan brjótast út úr og skríða upp á bak móðurinnar. Þar halda þeir sig í nokkra daga í dyggri gæslu umhyggjusamrar móður áður en sjálfstætt líf þeirra hefst.