Heildarfjöldi frjókorna í júní hefur aldrei mælst jafn mikill í Reykjavík

08.07.2011

Heildarfjöldi frjókorna í júní reyndist sá langhæsti til þessa, 3119 frjó í rúmmetra (meðaltalið fyrir júní er 750 frjó í rúmmetra). Birkifrjó voru lang algengust eins og oftast í júní, eða tæplega 2000. Þau hafa aldrei verið fleiri og tímabil birkifrjóa hefur aldrei verið jafn langdregið, hófst um 20 maí og enn eru birkifrjó að mælast.

Blómgað birki í Elliðaárdal ©MH

Þó of snemmt sé að spá fyrir um frjósumarið 2011 þá er margt sem bendir til að lítið verði um grasfrjó fyrir norðan og Norðurland gæti því í ár orðið griðland þeirra sem þjást af grasofnæmi.

Framundan er aðalfrjótími grasa á Íslandi en hámarkið kemur jafnan í síðari hluta júlí eða í byrjun ágústmánaðar. Verði skilyrði til frjódreifingar góð, þ.e. þurrviðrasamt og hæfilegur vindur, má búast við hámarkinu fyrir júlílok syðra, því að nú þegar eru tegundir skriðnar sem oft skríða ekki fyrr en kemur fram í ágúst. Hins vegar er ekki ólíklegt að hámarkið dragist fram í ágúst fyrir norðan eins og reyndin varð í fyrra.

Sjá nánar fréttatilkynningu (pdf)